23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3285 í B-deild Alþingistíðinda. (2990)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Frsm. sjútvn. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Sjútvn. hefur haft til meðferðar frv. til laga sem fjallar um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla. Í nál., sem nefndin lætur fylgja hér með til 2. umr., segir, með leyfi forseta:

„Nefndin ræddi frv. á fimm fundum og fékk til viðtals við sig fulltrúa frá eftirtöldum aðilum: Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sjávarafurðadeild SÍS, Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, Sambandi fiskvinnslustöðva í VSÍ, Landssambandi smábátaeigenda, Undirbúningsfélagi fiskmarkaðar í Reykjavík og Fiskmarkaðinum hf. í Hafnarfirði.

Nefndin óskaði einnig eftir skriflegum umsögnum frá landshlutasamtökum fiskvinnslustöðva, útvegsmanna og verkalýðsfélaga og enn fremur var undirbúningsnefndum um fiskmarkað á Dalvík og Akureyri skrifað. Svör bárust frá Vinnuveitendafélagi Vestmannaeyja, Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja, Útvegsmannafélagi Þorlákshafnar og Útvegsmannafélagi Norðurlands. Þá barst munnleg umsögn frá Útvegsmannafélagi Suðurnesja.

Í öllum umsögnum var hvatt til þess að frumvarp þetta næði fram að ganga. Einnig töldu allir viðmælendur nefndarinnar það til bóta að veitt yrði lagaheimild til starfrækslu uppboðsmarkaðar fyrir sjávarafla.

Nefndin féllst á þau rök sumra viðmælenda sinna að lengja bæri gildistíma laganna um eitt ár og flytur því svofellda brtt.:

9. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda til 31. des. 1989.“

Það var gert ráð fyrir í frv. að þau giltu til 31. des. 1988, en ef þetta frv. nær fram að ganga nú á þessu hv. Alþingi er svo liðið á þetta ár að nefndin taldi eðlilegt að verða við óskum margra viðmælenda um að leggja til að það yrði lengt til 1989 og er það því brtt. sem er gerð við 9. gr. en er á sama þskj. og nál.

Með þessu frv. er farið inn á nýjar leiðir í okkar fisksölumálum. Þessi hugmynd er búin að blunda með mönnum um nokkurn tíma og hefur hún fengið vaxandi byr með auknum sölumöguleikum okkar á sjávarafla og nýjar leiðir verið að opnast með nýjum mörkuðum. Hinn mikli og vaxandi útflutningur á ferskum fiski, einkum í gámum, hefur ýtt undir í þessum efnum þar sem mjög gott verð hefur fengist fyrir slíkan fisk í mörgum tilfellum. Þannig hefur skapast kapphlaup um hráefnið milli vinnslunnar og útflytjenda ferskfisks, en ávallt verðum við að hafa hugfast að vinnsla á okkar sjávarafla á að fara sem mest fram hér í landi. Verðlag á fiski til útflutnings og þeim fiski sem fer til fiskvinnslunnar þarf að leita sem mest jafnvægis og tilraun til þess að svo megi verða er að koma upp fiskmörkuðum í landinu.

S.l. haust urðu miklar umræður um það í Verðlagsráði sjávarútvegsins að taka upp frjálst fiskverð. Því miður náðist ekki samkomulag um að gera tilraun með slíkt, en þó hafði ísinn verið brotinn skömmu áður með því að gefa verð á loðnu frjálst. Sú tilraun er enn í gangi og er það trú mín að það verði framtíðin í þeirri grein. Einkum eru það tveir aðilar hér á suðvestursvæðinu sem hafa sýnt því mikinn áhuga að koma upp fiskmörkuðum, en það er í Reykjavík og í Hafnarfirði. Einnig hafa aðilar á Norðurlandi eystra sýnt áhuga, en það er á Dalvík og Akureyri. Akureyringar virðast mæla frekar með svokölluðum fjarskiptamarkaði en hinum hefðbundna fiskmarkaði. Markaðir þessir virðast mjög sniðnir eftir þeim fyrirmyndum sem við höfum haft mest kynni af í Vestur-Evrópu.

Verðlagsráð sjávarútvegsins hefur starfað um aldarfjórðung. Það var stofnað á þeim tíma þegar sú reynsla lá fyrir að frjálsir samningar um fiskverð höfðu oft gefist illa og mikill dráttur varð oft á því að slíkir samningar tækjust. Útgerðin og skipshafnir voru því í algjörri óvissu um afkomu sína mánuðum saman. Tilkoma verðlagsráðsins bætti þarna verulega um þó fæstir væru ánægðir, en aðilar komu ekki auga á annað betra en þessa miðstýrðu aðferð. Við minnumst áreiðanlega þeirra tíma því ekki er svo langt um liðið þegar beðið var í ofvæni eftir því hvernig samningar um fiskverð mundu takast um áramót. Í fleiri tilvikum tókust ekki samningar heldur tók svokölluð yfirnefnd af skarið með oddamann skipaðan af ríkisstjórn í fararbroddi og þannig var fiskverð ákveðið. Þessum fiskverðsákvörðunum fylgdu svo alls konar hliðarráðstafanir í efnahagslífinu og oftast gengisfellingar til þess að „bjarga útgerð og fiskvinnslu“ eins og sagt var.

Það er hollt fyrir okkur að minnast þessara tíma einmitt þegar við ræðum mál sem þessi. Þetta var á þeim árum þegar verðbólgan tröllreið hvað mest íslensku efnahagslífi. En aðstæður hafa verið að breytast í þjóðfélaginu í þessum efnum sem öðrum. Vorið 1985 voru samþykkt lög sem heimiluðu Verðlagsráði sjávarútvegsins að gefa verð á einstökum fisktegundum frjálst ef það væri einróma samþykkt í verðlagsráðinu sjálfu. Með afnámi sjóðakerfisins í sjávarútvegi s.l. vor varð um margt hægara að ná samkomulagi um frjálst fiskverð vegna þess að þá féllu niður greiðslur á fisktegundir sem gert var ráð fyrir í verðákvörðunum að kæmu sem uppbætur í gegnum deildir Aflatryggingasjóðs og má þar nefna svokallaðar karfa- og ufsauppbætur. Eins og fram kom í þeim umsögnum og viðtölum sem sjútvn. átti við hagsmunaaðila kom greinilega fram að áhugi var fyrir því að settir yrðu á fót uppboðsmarkaðir. Helst voru það sumir fulltrúar fiskvinnslunnar sem virtust nokkuð hikandi, en þar voru þó skiptar skoðanir.

Erfitt er á þessu stigi að segja um þróun þessara mála, einkum er varðar fiskvinnsluna. Hún spyr hvort hún geti keppt í verði á markaðnum við þá aðila sem bjóða í fiskinn með það fyrir augum að flytja hann ferskan á erlendan markað. Við þessu er ekki hægt að gefa neitt algilt svar nú. Þetta verður tíminn að leiða í ljós. Allar líkur tel ég samt á því að þeir fiskmarkaðir sem upp verða settir ef frv. þetta verður að lögum muni verða mjög leiðandi í verði á ferskum fiski. Þó að þessi markaðir verði fyrst um sinn aðeins í Reykjavík og Hafnarfirði og e.t.v. fyrir norðan mun verða spurt um markaðsverðið á öðrum stöðum á landinu sem engan markað hafa. Sé markaðsverð hærra en útgefið verð verðlagsráðs mun verða leitað mjög fast eftir því af seljendum afla að verðið verði til samræmis við markaðsverðið ef það er hærra. Þetta skulum við gera okkur ljóst strax í byrjun. Uppboðsmarkaðir yrðu því viðmiðun í verði fyrir þá staði sem ekki hefðu markaði, en frjálst fiskverð yrði það sem kæmi samfara og í kjölfarið. Þá væri ekki lengur þörf fyrir Verðlagsráð sjávarútvegsins.

Svokallaður fjarskiptamarkaður hefur verið einnig í umræðunni. Helsti munur á honum og uppboðsmarkaði er sá að veiðiskipin þurfa ekki að landa afla sínum í gegnum markað heldur fer fram sala á honum beint úr veiðiskipi til einstakra byggðarlaga eða fiskvinnslufyrirtækja fyrir ákveðið verð sem þau hafa boðið í farminn. Fjarskiptamarkaður eða -markaðir hefðu upplýsingar um þau fyrirtæki sem vildu kaupa aflann og á hvaða verði og einnig veiðiskip sem vildu selja sinn afla í gegnum slíka markaði. Þessi tilhögun kæmi mjög til greina og ætti að geta verið mun ódýrari í rekstri en uppboðsmarkaður.

Nefndin ræddi þetta nokkuð og var hún sammála um að með reglugerð með frv. þessu, ef að lögum verður, yrði einnig gert ráð fyrir að leyfa mætti slíkan markað ef um það væri sótt þó það sé ekki sérstaklega tekið fram í frv. sjálfu.

Virðulegi forseti. Ég tel það framfaraspor fyrir íslenskan sjávarútveg að aukið frjálsræði verði tekið upp við fiskverðsákvarðanir og tel því stofnun uppboðs- og fjarskiptamarkaða vera spor í þá átt og mæli með því að sú tilraun verði gerð sem frv. það er hér er fjallað um kveður á um.