23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3290 í B-deild Alþingistíðinda. (2995)

359. mál, stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Frv. það sem hér liggur nú fyrir um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands er byggt á samkomulagi stjórnarflokkanna um stofnun hlutafélags um Útvegsbanka Íslands.

Af hálfu viðskrn. hefur verið unnið mikið starf í bankamálum á undanförnum árum. Þannig skilaði nefnd er viðskrh. skipaði í ágúst 1984 áliti sínu, en nefndinni var falið að kanna möguleika á því að bæta skipulag og rekstur viðskiptabankanna með fækkun þeirra og sameiningu ásamt færslu viðskipta og útibúa milli banka.

Nefndin lagði fram tvær hugmyndir til skoðunar. Önnur hugmyndin fólst í því að Útvegsbanki, Iðnaðarbanki og Verslunarbanki yrðu sameinaðir í nýjum hlutafélagsbanka og jafnframt kæmi til aðild sparisjóða, annarra banka, fyrirtækja og einstaklinga. Nefndin benti einnig á að ef nýr einkabanki væri stofnaður með þessum hætti væri æskilegt að komið yrði á auknu samstarfi Landsbanka og Búnaðarbanka. Þessar hugmyndir nefndarinnar voru síðan til athugunar hjá viðskrh., en sú staðreynd að Útvegsbanki Íslands varð fyrir miklum áföllum í rekstri sínum og ljóst varð að grípa yrði til sérstakra aðgerða af hálfu ríkisvaldsins til lausnar á fjárhagsvanda Útvegsbankans leiddi til þess að unnið var að lausn þessa máls með sérstöku tilliti til stöðu Útvegsbankans.

Í ágúst 1986 lagði viðskrh. málið fyrir ríkisstjórnina og í framhaldi af því fól ráðherra bankastjórn Seðlabankans að leggja fram ákveðna tillögu í þessu efni. Hinn 10. nóvember s.l. sendi bankastjórn Seðlabankans viðskrh. grg. og ákveðna tillögu sem varðaði endurskipulagningu bankakerfisins og lausn á fjárhagsvanda Útvegsbanka Íslands. Tillaga Seðlabanka var á þá leið að stofnaður yrði nýr hlutafélagsbanki með samruna Útvegsbanka, Iðnaðarbanka og Verslunarbanka og með viðbótarhlutafé frá öðrum aðilum innan og utan bankakerfisins. Seðlabankinn benti enn fremur á þrjá aðra kosti í skipulagsmálum bankakerfisins sem voru þessir: 1. Sameining Búnaðarbanka og Útvegsbanka. 2. Skipting og samruni Útvegsbanka við Landsbanka og Búnaðarbanka. 3. Endurreisn Útvegsbanka.

Ríkisstjórnin og þingflokkar stjórnarflokkanna tóku tillögu og grg. Seðlabankans til meðferðar og var samþykkt að fela bankastjórn Seðlabankans að taka upp viðræður við fulltrúa Iðnaðarbanka og Verslunarbanka. Fulltrúum Samvinnubanka og Alþýðubanka var einnig boðin þátttaka í viðræðunum með sameiningu við Útvegsbankann í huga. Fulltrúar Iðnaðar- og Verslunarbanka svöruðu tilboðum um sameiningarviðræður jákvætt, en fulltrúar Samvinnubanka og Alþýðubanka svöruðu 28. nóv. s.l. á þá leið að þeir hefðu ekki áhuga á að taka þátt í slíkum viðræðum.

Frá desemberbyrjun áttu sér síðan stað viðræður um hugsanlega sameiningu Útvegsbanka, Iðnaðarbanka og Verslunarbanka. Helstu þættirnir, sem athugaðir voru í þessum viðræðum, voru í fyrsta lagi áætluð rekstrarafkoma væntanlegs sameinaðs banka, í öðru lagi mat á útlánum bankans og í þriðja lagi mat á varanlegum rekstrarfjármunum, þ.e. fasteignum og lausafé. Enn fremur komu til skoðunar lífeyrisskuldbindingar vegna starfsfólks bankans og skattalegt hagræði vegna yfirfæranlegra skattalegra tapa.

Eftir að skýrslur um útlán höfðu verið yfirfarnar kom í ljós að Verslunarbankinn óskaði eftir að hætta þátttöku í viðræðunum og var það tilkynnt á lokaviðræðufundi um stofnun nýs hlutafélagsbanka 19. jan. á þessu ári. Sama dag ritaði bankastjórn Seðlabankans viðskrh. bréf og lagði hún eindregið til að nú yrði reynt að fara aðra leiðina sem gerð var tillaga um í skýrslu Seðlabankans til ríkisstjórnarinnar dags. 10. nóvember s.l., þ.e. að sameina Búnaðarbankann og Útvegsbankann. Ekki náðist samstaða um þessa tillögu bankastjórnar Seðlabankans, m.a. vegna harðrar andstöðu aðila í bankakerfinu.

Eftir frekari viðræður stjórnarflokkanna hefur nú náðst samstaða um stofnun Útvegsbanka Íslands hf. sem frv. þetta fjallar um.

Í frv. því sem hér liggur fyrir er lagt til að ríkisstjórnin hafi forgöngu um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands og skal stofnfundur hins nýja hlutafélagsbanka haldinn innan mánaðar frá því að lögin öðlast gildi og yfirtaka nýja bankans á Útvegsbanka Íslands síðan eiga sér stað hinn 1. maí n.k. Eru þessi tímamörk höfð eins þröng og frekast þótti unnt svo binda mætti endi á þá óvissu sem allt of lengi hefur ríkt um stöðu og framtíð Útvegsbankans og skapa stjórnendum og starfsfólki vinnufrið.

Samkomulag stjórnarflokkanna um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands grundvallast á því að tímabært sé orðið að draga úr hlutdeild ríkisins í bankakerfinu hér á landi. Því er kveðið svo á um í frv. að ríkisstjórnin skuli kveðja aðra aðila til samvinnu um stofnun hlutafélagsbankans. Einnig skal ríkisstjórninni heimilt að selja þau hlutabréf sem ríkissjóður eignast í hlutafélagsbankanum.

Hlutafjáráskrift og hlutafjárkaup verða öllum frjáls, en áhersla verður lögð á aðild eftirtalinna aðila: Hagsmunasamtaka fyrirtækja og einstaklinga í sjávarútvegi, núverandi viðskiptamanna Útvegsbanka Íslands, Sambands sparisjóða og einstakra sparisjóða og loks annarra viðskiptabanka ef það mætti verða til að koma fram aukinni hagræðingu eða samruna í bankakerfinu.

Ekki er hins vegar á þessu stigi unnt að segja neitt til um hversu mikilla hlutafjárframlaga megi vænta frá öðrum aðilum þegar við stofnun hlutafélagsbankans. Hugsanlegt er að ýmsir líklegir hluthafar kjósi að bíða átekta um sinn uns þeir sterku vindar sem blásið hafa um Útvegsbankann eru gengnir yfir. Brýna nauðsyn ber á hinn bóginn til að eiginfjárstaða hins nýja hlutafélagsbanka verði traust frá upphafi. Er tekið fram í frv. að stefnt skuli að því að hlutafé hans verði allt að 1000 millj. kr. Til að stuðla að því að það markmið náist er kveðið á um í frv. að ríkisstjórninni skuli heimilt að leggja fram allt að 800 millj. kr. sem hlutafé. Heimild hámarksframlags ríkissjóðs skal þó lækka jafnmikið og hlutafjáráskrift annarra aðila er umfram 200 millj. kr. Það ræðst því endanlega af þátttöku annarra aðila í stofnun hlutafélagsbankans hvert hlutafjárframlag ríkissjóðs getur mest orðið. Í þessu sambandi skal athygli vakin á því að lagt er til í frv. að Fiskveiðasjóði verði heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélagsbankans með allt að 200 millj. kr. hlutafjárframlagi.

Ég mun nú víkja stuttlega að öðrum helstu ákvæðum frv.

Um stofnun og starfsemi hlutafélagsbankans munu gilda sömu lagareglur og um aðra hlutafélagsbanka með þremur undantekningum. Í fyrsta lagi gerir óvissan um þátttöku annarra aðila í hlutafélagsbankanum það óhjákvæmilegt að bankinn sé undanþeginn ákvæðum viðskiptabanka og hlutafélagalaga um tölu stofnenda og hluthafa. Þess er hins vegar vænst að er frá liður muni hluthafar í hlutafélagsbankanum verða fleiri en 50 talsins.

Í öðru lagi er kveðið á um það í frv. að þau ákvæði viðskiptabankalaga sem takmarka atkvæðisrétt einstakra hluthafa við 1/2 samanlagðra atkvæða hlutafélagsbanka gildi ekki að því er varðar eignaraðild ríkisins að hinum nýja banka. Þar sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður selji það hlutafé sem hann kann að eignast í nýja bankanum standa vonir til að þetta undanþáguákvæði verði fljótt óvirkt.

Þriðja og síðasta frávikið frá almennum ákvæðum viðskiptabankalaga varðar heimild erlendra banka til að eiga hlutafé í hinum nýja banka. Er lagt til að erlendir bankar megi á hverjum tíma eiga samtals allt að 25% hlutafjár hins nýja banka. Hér er því í takmörkuðum mæli og í tilraunaskyni opnuð leið fyrir erlent framtaksfé og erlenda strauma inn í íslenskt bankakerfi þótt ekki sé þar með sagt að á þetta reyni þar sem ekki er hægt að slá neinu föstu um að erlendir bankar hafi áhuga á eignaraðild að íslenskum bönkum.

Hlutafélagsbankinn yfirtekur Útvegsbanka Íslands eins og ég hef áður sagt. Nauðsynlegt er að fram fari mat á eiginfjárstöðu Útvegsbankans á yfirtökudegi, bæði vegna þess að ljóst þarf að vera við hvers konar búi nýi bankinn tekur og eins vegna fjárhagslegra hagsmuna ríkissjóðs sem eiganda Útvegsbanka Íslands og fjárhagslegra hagsmuna þeirra sem gerast hluthafar í hinum nýja banka.

Vegna þeirra vandkvæða sem eru á því að leggja mat á Útvegsbankann miðað við yfirtökudag fyrr en þá síðar er gert ráð fyrir að við ákvörðun á heildarhlutafé hins nýja hlutafélagsbanka og hlutafjár ríkisins í honum verði eingöngu litið til þess nýja hlutafjár sem hlutafjáráskrift fæst að við stofnun bankans, en Útvegsbanki Íslands sem slíkur verði ekki metinn til hlutafjár. Eiginfjárstaða Útvegsbanka Íslands miðað við yfirtökudag, þ.e. eignir, skuldir og skuldbindingar sem nýi bankinn yfirtekur, verður hins vegar metin af sérstakri þriggja manna matsnefnd sem viðskrh. skipar, þar af einn samkvæmt tilnefningu Seðlabanka Íslands og annan samkvæmt tilnefningu Fiskveiðasjóðs.

Við mat á eiginfjárstöðu Útvegsbankans á yfirtökudegi á matsnefndin m.a. að leggja mat á raunvirði útlána Útvegsbanka Íslands, en í því felst að nefndinni er ætlað að afskrifa útlán í þeim mæli sem ástæða þykir til. Einnig á nefndin við mat á eiginfjárstöðu Útvegsbankans að meta til verðmæta það skattalega hagræði sem nýi hlutafélagsbankinn fær með yfirtöku á Útvegsbankanum. Ekki er að öðru leyti í frv. kveðið á um þær forsendur sem matsnefndin á að leggja til grundvallar mati sínu en tekið fram að viðskrh. láti matsnefndinni í té erindisbréf þar sem verkefnið verður nánar afmarkað.

Í því sambandi má t.d. nefna að aðfengnir sérfræðingar hafa að undanförnu unnið að mati á fasteignum og lausafé þriggja banka, þar með talinn Útvegsbanki Íslands. Sýnast vart efni til annars en að matsnefndin styðjist við það mat í sínum störfum. Matsnefndin á að ljúka störfum fyrir árslok 1987. Reynist eiginfjárstaða Útvegsbanka Íslands samkvæmt þessu mati neikvæð skal ríkissjóður bæta hinum nýja hlutafélagsbanka það sem upp á vantar. Ef eiginfjárstaða Útvegsbanka Íslands reynist á hinn bóginn hafa verið jákvæð á yfirtökudegi ber hinum nýja hlutafélagsbanka að greiða ríkissjóði mismuninn. Sams konar ákvæði um heimild greiðsluforms og greiðslutíma gilda í báðum þessum tilvikum.

Kveðið er á um það í frv. þessu að fastráðnir almennir starfsmenn Útvegsbanka Íslands skuli eiga rétt á starfi hjá nýja bankanum við stofnun hans. Ljóst er að tími mun vart gefast til þess að taka í upphafi upp í hinum nýja banka skipulag sem í nokkru verulegu víkur frá skipulagi því sem nú er unnið eftir í Útvegsbanka Íslands. Endurskipulagning og hugsanleg fækkun starfsfólks í kjölfar þess hlýtur óhjákvæmilega að taka nokkurn tíma. Það eru hagsmunir hins nýja banka ekki síður en hagsmunir núverandi starfsfólks Útvegsbankans að yfirtakan geti gengið sem snurðulausast og átakaminnst fyrir sig.

Ákvæðum frv. um rétt núverandi starfsmanna til starfs hjá nýja bankanum við stofnun hans er ætlað að stuðla að að svo verði. Þessi ákvæði eru á hinn bóginn ekki á neinn hátt því til hindrunar að stjórnendur hins nýja banka geti síðar sagt þeim starfsmönnum sem áður störfuðu í Útvegsbanka Íslands upp störfum með sama hætti og öðrum starfsmönnum ef ástæða þykir til.

Samkvæmt ákvæðum viðskiptabankalaga ber ríkissjóður ábyrgð á öllum skuldbindingum ríkisviðskiptabanka. Ríkissjóður ber því ábyrgð á öllum skuldbindingum Útvegsbanka Íslands sem stofnað er til fram að því að bankinn er lagður niður.

Vegna yfirtöku hlutafélagsbankans á Útvegsbanka Íslands þykir rétt að árétta í frv. ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum Útvegsbanka Íslands. Frá þeirri meginreglu að ábyrgð ríkissjóðs standi þar til skuldbinding sem Útvegsbanki Íslands hefur tekist á hendur hefur verið efnd er þó gerð sú undantekning að ríkisábyrgð á innstæðum sem lagðar hafa verið inn í Útvegsbanka Íslands mun falla niður 1. maí 1989.

Útvegsbanki Íslands ber ábyrgð á skuldbindingum eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands. Áætlað hefur verið að þessar skuldbindingar Útvegsbankans nemi nokkrum hundruðum millj. kr. þótt vandasamt sé að reikna slíkt út nákvæmlega þar sem skuldbindingar eftirlaunasjóðsins falla til á mörgum áratugum og útreikningar því háðir ýmsum forsendum. Vegna þess hverjum erfiðleikum slíkir útreikningar eru bundnir og vegna þeirra áhrifa sem það hefði á mat á eiginfjárstöðu Útvegsbanka Íslands og uppgjör milli ríkissjóðs og nýja hlutafélagsbankans ef á Útvegsbankanum hvíldu umræddar lífeyrisskuldbindingar við yfirtöku hlutafélagsbankans á honum er kveðið svo á í frv. að ríkissjóður yfirtaki ábyrgð Útvegsbanka Íslands á skuldbindingum eftirlaunasjóðs Útvegsbankans sem stofnast hafa eða stofnast munu fram að yfirtökudegi. Með þessu móti dreifast slíkar greiðslur ríkissjóðs á miklu lengri tíma en ef fylgt yrði þeirri uppgjörsaðferð sem frv. gerir að öðru leyti ráð fyrir.

Samkvæmt reglum eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands öðlast sjóðfélagar ekki rétt til eftirlauna úr sjóðnum nema þeir hafi greitt til hans í tiltekinn árafjölda. Réttur til að áunnin eftirlaun taki mið af þeim launum sem á hverjum tíma fylgja því starfi sem viðkomandi gegndi síðast stofnast heldur ekki fyrr en greitt hefur verið í sjóðinn í nokkurn tíma. Frv. byggir á því að starfsmenn nýja bankans hefji lífeyrisgreiðslur í annan lífeyrissjóð. Starfstími hjá Útvegsbanka Íslands, sem ekki hefur enn skapað rétt til eftirlauna eða launatengingar, nýtist starfsmönnum ekki í nýjum lífeyrissjóði. Eftirlaunaréttindi starfsmanna Útvegsbanka Íslands, sem hefja störf í nýja bankanum, gætu því í ýmsum tilvikum orðið lakari en verið hefði að öllu óbreyttu ef ekki kæmu til sérstakar ráðstafanir.

Í þessu frv. er kveðið á um að ríkissjóður og nýi hlutafélagsbankinn skuli bæta starfsmönnum og þeim sem leiða rétt sinn frá þeim, svo sem maki starfsmanns eða börn hans, þetta hlutfallslega. Miðað við starfstíma viðkomandi annars vegar í Útvegsbanka Íslands og hins vegar í nýja bankanum er gert ráð fyrir að ríkissjóður, nýi bankinn og eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbanka Íslands, sem einungis verður þó starfræktur áfram til lúkningar eldri skuldbindingum, semji sín á milli um nánari framkvæmd.

Samkvæmt lögum um Fiskveiðasjóð Íslands eru nokkur tengsl milli hans og Útvegsbanka Íslands sem voru hér fyrr á árum mjög mikil en hafa farið minnkandi, sérstaklega við tvær síðustu lagasetningar um Fiskveiðasjóð. Það er lagt til í frv. að hlutafélagsbankinn komi í stað Útvegsbanka Íslands í þessu sambandi í tengslum Fiskveiðasjóðs við Útvegsbankann. Þá er lagt til að 9. gr. fiskveiðasjóðslaganna falli niður, en samkvæmt henni er það meginregla að handbært fé Fiskveiðasjóðs skuli geymt í viðskiptareikningi í Seðlabankanum. Hvorki lög um Iðnlánasjóð né um Stofnlánadeild landbúnaðarins geyma sambærileg ákvæði. Þykir því ekki ástæða til að takmarka með þessum hætti eðlilegt valfrelsi Fiskveiðasjóðs í viðskiptum við innlánsstofnanir.

Hluthafar í hlutafélagsbanka bera aðeins ábyrgð á skuldbindingum bankans með hlutafé sínu nema að því marki sem þeir takast sérstaklega á hendur frekari ábyrgð. Í samræmi við þetta mun ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum hins nýja hlutafélagsbanka takmarkast við hlutafjárframlag ríkissjóðs. Með hliðsjón af langvarandi erfiðleikum Útvegsbanka Íslands og þeirri tortryggni og vantrú sem hinn nýi hlutafélagsbanki kann að standa frammi fyrir í byrjun, þegar ríkisábyrgð er ekki lengur til að dreifa, einkum og sér í lagi hjá sparifjáreigendum og erlendum viðskiptaaðilum, þykir þó ekki verða hjá því komist að gera tvö tímabundin frávik frá þessari meginreglu. Annars vegar er kveðið á um það í frv. að ríkissjóður ábyrgist nýjar innstæður í hlutafélagsbankanum til 1. maí 1989 og hins vegar er ríkisstjórninni heimilað að veita ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum hlutafélagsbankans sem stofnast gagnvart erlendum aðilum fyrir 1. maí 1989.

Samkvæmt þeim orðum sem ég hef nú sagt hefur mikið verið unnið að stofnun nýs banka, en þar hafa menn eins og fyrri daginn rekið sig á vegg, að þeir eru æðimargir sem litlar breytingar vilja gera. Það var stigið af Alþingi stórt og mikilvægt skref með viðskiptabankalögunum, með stofnun tryggingasjóðs samkvæmt þeim lögum o.fl. o.fl. Það hafa verið gerðar þó nokkrar breytingar á útibúum og viðskiptamenn á ákveðnum stöðum hafa flust á milli banka með samkomulagi á milli þeirra. En þrátt fyrir þær aðgerðir sem áður hafa verið gerðar er það skoðun mín að þó þessi leið sé nú farin með Útvegsbankann þurfi að halda áfram að vinna og það mjög ötullega að verulegum breytingum á samvinnu á milli þeirra tveggja ríkisviðskiptabanka sem eftir eru, Landsbankans og Búnaðarbankans.

Því hef ég ákveðið að skipa fimm manna nefnd þar sem einn er tilnefndur af Seðlabanka Íslands, einn af bankastjórn Landsbanka Íslands, einn af bankastjórn Búnaðarbanka Íslands og tveir tilnefndir af viðskrh. Þessi nefnd á að gera tillögur um endurbætur í skipulagi og starfsháttum ríkisbankanna tveggja, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, er hafi það að markmiði að auka hagræðingu, bæta þjónustu bankanna við viðskiptavini sína og treysta fjárhagslega uppbyggingu þeirra með hliðsjón af þróun bankakerfisins í heild. Nefndin skal gera rækilega athugun á starfsháttum og uppbyggingu ríkisbankanna tveggja með það fyrir augum að koma fram endurbótum á rekstri þeirra og skal hún m.a. fjalla um og gera tillögur um eftirfarandi meginatriði:

1. Gera skal úttekt á útibúa- og afgreiðslukerfi bankanna beggja í því skyni að tryggja betri verkaskiptingu milli þeirra og stuðla að því að útibú geti með fækkun og samruna náð hagkvæmri stærð án þess að dregið sé úr eðlilegri þjónustu við einstök byggðarlög. Stefnt verði að því að veruleg fækkun geti orðið á afgreiðslustöðum og betri nýting mannafla og húsnæðis.

2. Gerðar verði tillögur um leiðir til þess að ná meiri hagkvæmni í rekstri með því að bankarnir tveir hafi samvinnu um ýmiss konar sérhæfða þjónustu og rekstur stoðdeilda, t.d. á sviði erlendra viðskipta.

3. Kannaðar verði leiðir til að gera tillögur um aðgerðir til þess að jafna betur viðskipti milli bankanna tveggja, bæði með tilliti til heildarútlánagetu og í því skyni að bæta dreifingu útlána með tilliti til atvinnuvega og áhættu. Í þessu skyni séu bæði athugaðir möguleikar á því að flytja viðskipti beint milli bankanna og koma á samvinnu þeirra um útlán og þjónustu við stóra viðskiptabanka.

4. Í síðasta lagi á nefndin að gera tillögur um hvernig megi koma föstu skipulagi á samvinnu milli stjórnar bankanna tveggja er stefni að þeim markmiðum sem ég hef lítillega minnst á.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki þörf á að rekja frekar efni þessa frv., en vísa að öðru leyti til hinna prentuðu athugasemda með því. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Ég hefði kosið að þetta frv. hefði verið tilbúið fyrr, en þær viðræður sem fram fóru voru langdregnar og sömuleiðis fóru fram langar umræður til að ná samkomulagi um efni þessa máls og málsmeðferð. Ég vona að hv. fjh.- og viðskn. reyni að vinna fljótt og vel að þessu máli. Það eru vitaskuld fyrir hendi allar þær upplýsingar sem hægt er að láta af hendi til nefndarinnar til þess að hún geti sem best unnið að afgreiðslu frv.