23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3307 í B-deild Alþingistíðinda. (2999)

359. mál, stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands byggir á samkomulagi stjórnarflokkanna um aðgerðir í bankamálum. Þær eru vegna þeirra erfiðleika sem Útvegsbankinn er í. Eiginfjárstaða bankans er orðin slík að aðgerðir mega ekki dragast lengur og hafa nú þegar dregist fram úr hófi. Ég vil við 1. umr. málsins segja örfá orð um afstöðu okkar framsóknannanna til þessa máls. Þau verða að vísu ekki ýkjamörg. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær frv. til meðferðar að lokinni þessari umræðu þannig að ég mun stytta mál mitt og ekki fara efnislega í einstakar greinar þess.

Því er ekki að leyna að stjórnarflokkarnir höfðu misjafnar áherslur í þessu máli í upphafi. Við framsóknarmenn lögðum áherslu á að þetta tækifæri yrði notað til að endurskipuleggja bankakerfið og styrkja ríkisbankakerfið með samruna. Það þýddi þó ekki að við útilokuðum hlutafélagsbankaformið. Við erum ekki á móti hlutafélögum sem slíkum og hlutafélög eru staðreynd í bankarekstri í landinu og mjög algengt form á móti ríkisbankaforminu.

Það voru kannaðar rækilega ýmsar leiðir í þessu máli, eins og hér hefur verið komið inn á í þessari umræðu, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það. Það var kannað rækilega hvort væri mögulegt að sameina Útvegsbankann einkabönkunum, en sú leið var ekki fær.

Sú leið sem var mjög til umræðu á seinni stigum málsins var sameining Útvegsbanka og Búnaðarbanka Íslands. En það fór svo, eins og við framsóknarmenn óttuðumst, að sök þeirra vandræða sem Útvegsbankinn var í, Hafskipsmálið, reyndist það steinbarn sem kom í veg fyrir þann samruna. Það skapaði tortryggni og spillti fyrir málinu hjá starfsfólki og viðskiptavinum Búnaðarbanka Íslands þannig að við þessar aðstæður reyndist ekki unnt að ganga til þessarar sameiningar. Þess vegna var þessi leið valin, sem frv. fjallar um, að endurreisa Útvegsbankann í hlutafélagsformi og halda möguleikunum opnum til frekari breytingar á bankakerfinu síðar, að fleiri aðilar komi þarna inn sem hluthafar, þar á meðal erlendir. Við framsóknarmenn lítum svo á að hér sé um skref að ræða, en það sé ekki nein endanleg lausn. Það verði að halda áfram að því markmiði að endurskipuleggja bankakerfið þó að það hafi ekki tekist að ná nógu stórum skrefum í því að sinni.

Það hefur verið rætt um erlent fjármagn í bankakerfinu og ýmsir hafa varað við því. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það hlutfall erlends fjármagns sem er gert ráð fyrir í frv. skapi neina hættu á erlendum yfirráðum í okkar efnahagslífi. Ég tel að þetta geti orðið til góðs, en því er ekki að leyna að einstakir þm. Framsfl. hafa misjafnar áherslur í þessu efni.

Ég tel að erlent fjármagn sé nú mjög ráðandi á ýmsum öðrum sviðum en þessum. Við höfum ekki verið hræddir við erlendar lántökur í ríkum mæli og í kannske allt of ríkum mæli. Erlent fjármagn er hér í gangi í gegnum ýmis kaupleiguviðskipti án þess að menn hafi séð ástæðu til að sporna við því.

Bankakerfið er viðamikið í landinu. Það samanstendur af 7 bönkum, 39 sparisjóðum, yfir 100 lífeyrissjóðum sem eru nokkurs konar bankastofnanir, auk verðbréfamarkaða sem núna eru risnir á legg. Þetta viðamikla kerfi hefur orðið til þess að vaxtamismunur hér er mikill. Reksturskostnaður bankakerfisins er mikill og þessir litlu bankar, sem hér eru, eru í ýmsum tilfellum vanmegnugir til þess að þjóna undirstöðuatvinnuvegunum eins og skyldi og taka stór fyrirtæki í ýmsum greinum í viðskipti. Ríkisbankakerfið hefur hingað til haft það hlutverk í langmestum mæli að þjóna aðalatvinnugrein landsmanna, sjávarútveginum, og í rauninni framleiðsluatvinnuvegunum öllum, en einkabankarnir hafa lánað að meginhluta til í alls konar einkaneyslu.

Við framsóknarmenn teljum þá leið sem frv. gerir ráð fyrir viðunandi í þeirri stöðu sem núna er. Það er aðalatriðið að endurskipuleggja bankakerfið þannig að bankarnir geti veitt viðskiptavinum sínum viðunandi þjónustu, þar á meðal Útvegsbankinn, og að endurskipulagning bankakerfisins verði til þess þegar fram í sækir. Það er nauðsynlegt að eyða þeirri óvissu sem nú ríkir í rekstri Útvegsbankans og að geta gengið til endurskipulagningar bankakerfisins án þess að Hafskipsmálið hvíli þar yfir eins og skuggi. Það þarf að einfalda bankakerfið og koma þar við meiri sparnaði og hagræðingu en nú er. Slíkt er nauðsynlegt ef vaxtamunur á að minnka frekar á næstu árum og þessar einingar eiga að geta þjónað atvinnulífinu og fyrirtækjum undirstöðuatvinnugreinum eins og skyldi.

Ég hef ekki litið þannig á að með samþykkt þessa frv. værum við stjórnarliðar að sparka í liggjandi mann. Ég hefði haldið að með þessu frv. værum við að rétta þessum manni hendina til þess að komast á fætur og leiða hann nokkur skref og styðja hann til áframhaldandi verka. Í því trausti mun ég og mínir flokksbræður hér á Alþingi vinna að þessu máli áfram. (HS: Og systur.) Og systur, segir Helgi, og ég þakka honum fyrir ábendinguna.