23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3315 í B-deild Alþingistíðinda. (3006)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég gerði ráð fyrir að þetta mál yrði ekki tekið hér á dagskrá á áliðnum fundi fyrst þurfti að taka það út af dagskrá vegna annarra mála sem voru nauðsynlegri. Ég veit um a.m.k. tvo hv. þm. sem ætluðu að taka þátt í þessari umræðu en eru ekki á fundinum, a.m.k. ekki eins og stendur. Ég vildi heldur að þessi umræða fengi að bíða og að hún yrði samfelld það sem eftir er en yrði ekki slitin í sundur enn á ný. (Forseti: Til þess að upplýsa hv. 4. þm. Vesturl. er enginn annar á mælendaskrá en hv. 4. þm. Vesturl. Einn þm. hafði samband við forseta auk frsm. Forseta er ekki kunnugt um að það séu fjarverandi þm. sem hafi ætlað að taka til máls í þessu máli. En kannske veit hæstv. 4. þm. Vesturl. betur um það en forseti.)

Það var nú svo, virðulegur forseti, að ég heyrði einn hv. þm. segja upp við forsetastól að hann mundi líkast til tala ef 4. þm. Vesturl. mundi tala. Einnig sagði hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir mér það að hún ætlaði sér að taka þátt í þessari umræðu, ekki halda langa ræðu, sem sjálfsagt enginn af þessum hv. þm. ætlaði að gera, ekki sá sem hér stendur heldur. (Forseti: Forseti vill skjóta því inn vegna þessara athugasemda að hv. 6. landsk. þm. hafði samband við forseta áður en hann fór af fundi þannig að það var með hans vitund að málið er enn til umræðu. En hefði hv. 8. landsk. þm. ætlað að taka til máls hefði hann væntanlega látið vita af því að hann yrði fjarverandi og beðið þá um frestun á málinu. Enn má benda hv. þm. á að það er eftir 3. umr. um málið og þá geta þessir hv. þm. væntanlega notað sér þann tíma sem þá gefst til að taka þátt í umræðu.)

Ég held ekki uppi frekari mótmælum í sambandi við það að málinu sé haldið áfram á dagskrá og sé til umræðu.

Um þetta mál var mikið fjallað í hv. sjútvn. Það voru kallaðir til ýmsir aðilar og málið sent mörgum til umsagnar. Nú tíðkast orðið sá sjálfsagði hlutur að senda mál eins og þetta, sem snertir fjölmarga víða um land, og þau eru reyndar mörg málin sem koma fyrir hv. Alþingi sem snerta landið allt, þetta mál var sent til umsagnar hagsmunaaðilum vítt og breitt um landið og við fengum svör einnig frá ansi mörgum. Margir aðilar úti um landið þökkuðu okkur sérstaklega fyrir það að hafa sýnt landsbyggðinni þá sjálfsögðu kurteisi að senda þetta mál til umsagnar út fyrir Stór-Reykjavíkursvæðið.

Ég bjóst svo við því að hér mundi framsagan fyrst og fremst snúast um þetta mál, þ.e. um markaðinn, en mér til nokkurrar undrunar fjallaði frsm., hv. formaður sjútvn., að miklu leyti í ræðu sinni um verðlagningu á fiski og Verðlagsráð sjávarútvegsins í tengslum við það og þá umræðu sem hefur orðið um frjálst fiskverð í landinu. Að vissu leyti má tengja þetta mál því að stefnt er að því að koma á frjálsu fiskverði, en þó tel ég að það verði ekki á jafnríkulegan máta og hv. 3. þm. Vesturl. benti á í ræðu sinni að þróunin gæti orðið sú að með því að fá markað, með því að fá fjarskiptamarkað og annað eftir því mundi Verðlagsráð sjávarútvegsins að meira eða minna leyti geta orðið óþarft og við farið að beita hinu frjálsa fiskverði á almennari hátt en gert hefur verið hingað til. Um þetta má vitaskuld mikið fjalla, en ég held að það tengist ekki þessu ágæta máli svo mjög mikið þó við leyfum fiskmarkað hér til eins árs eða svo að sá reynslutími leiði okkur beinlínis til frjáls fiskverðs.

Það má segja um þetta frv. og þá umræðu sem hefur átt sér stað í kringum það að hún hefur öll verið á þann veg að verið væri að skapa aukið frjálsræði, eins og ég nefndi hér, aukinn möguleika til þess að fiskverðið í landinu gæti orðið frjálst. En jöfnum höndum er stefnt að ákveðinni einokunarstjórn í kringum þetta. Í 1. gr. frv. er hnýtt hverju leyfisatriðinu við annað í hendur sjútvrh. þannig að frelsið, sem á að skapast með þessum fiskmarkaði, er í höndum eins manns meira og minna. Allt það sem lýtur að þessum markaði er í höndum sjútvrh. og hann gefur leyfi til hvers og eins sem tengist þessum markaði. Ofan á hin beinu leyfi sjútvrh. og eftirlit sjútvrh. á þessu frelsi er síðan bundið í mjög ströngu ákvæði að Ríkismat sjávarafurða skuli líka fylgjast að öllu leyti með þessu frjálsræðisfyrirtæki. Og ekki nóg með að það sé verið að koma á frelsi undir opinberu eftirliti. Það virðist, eins og ég nefndi í upphafi, við 1. umr. þessa máls, verið að stefna að því að búa til nýja Bæjarútgerð á suðvesturhorninu með þessum markaði. Það virðist deginum ljósara að sá markaður sem núna er verið að byggja upp í höfuðborginni, í Reykjavík, verður fyrst og fremst fjármagnaður af Reykjavíkurborg. Það verður nýtt BÚR sem á að fara að búa til hér til að koma á frelsi. Það er skrýtið að ári eftir að Bæjarútgerð Reykjavíkur er lögð niður, til þess að sumu leyti að koma á frelsi einstaklingsins í fiskverkun á Reykjavíkursvæðinu, skuli vera lagt inn á hv. Alþingi frv. sem fyrst og fremst byggir á að Reykjavíkurborg komi á fót fiskmarkaði. Það sama er að ske í næsta nágrenni. Það verður lítið af uppbyggingu fiskmarkaðar í Hafnarfirði öðruvísi en það verði fyrst og fremst bærinn sem stendur á bak við hann, fjármagnar hann og kemur honum upp.

Um þetta er kannske allt gott að segja. Ég vil ekki segja að við Alþýðubandalagsmenn höfum verið að boða að hv. alþm. og einmitt sú ríkisstjórn sem leggur þetta frv. fram hafi ekki verið að boða þróunina á hinn veginn. Það er eðlilegt og sjálfsagt, ef talið er og menn eru ásáttir um að það sé framfaraspor að koma hér á fiskmarkaði, að opinberir aðilar leggi þar einhvern fjárstuðning til. En það er ekki það sem hefur verið boðað og verið talað um að gera eigi.

Það kom í ljós í viðræðum við þá aðila sem við kölluðum til viðtals og hv. formaður sjútvn. nefndi í framsöguræðu sinni að við undirbúning að þessu frv. var ekki leitað á framleiðslusvæði fisks, t.d. til Norður-Noregs eða Nýfundnalands, til að fá fyrirmyndir að hugsanlegri markaðsuppbyggingu hjá okkur, heldur var farið til Þýskalands, það var farið til Hollands og Englands og fyrirmyndin að uppboðsmarkaði sótt á svæði þar sem neytendamarkaður er alveg við hliðina og markaðirnir eru fyrst og fremst byggðir upp sem slíkir.

Ég tel þess vegna að meginrökin á bak við þetta frv. séu ekki mjög traust vegna þess að það hlýtur að vera allt annað viðhorf hjá þeim aðilum sem kaupa fisk á Íslandi en þeim aðilum sem kaupa fisk í Bremerhaven eða Cuxhaven eða þá í ensku höfnunum Grimsby og Hull. Þeir geta raunverulega dag frá degi gert sér grein fyrir því hvernig markaðurinn er sem þeir setja þessa vöru á daginn eftir eða svo. Þeir sem kaupa fisk á Reykjavíkurmarkaði eða markaði sem settur er upp hér verða að bíða í nokkrar vikur eftir því að koma sinni vöru á þann markað sem þeir þurfa að selja hana á. Allar líkur virðast á því að markaður hjá okkur virki á sama máta og markaður í neyslulöndum. Þar af leiðandi fáum við ekki eins lifandi og breytilegt fiskverð og á sér stað á þeim mörkuðum sem við þekkjum mætavel vegna þess að Íslendingar hafa nýtt þessa markaði sér til hagsbóta í áratugi.

Það var m.a.s. svo að viðmælendur okkar, sem eru að undirbúa og byggja upp fiskmarkað, - ja, ég má ekki segja að þeir hafi verið með mikla glýju í augunum, en þeir lýstu fyrir okkur markaði í Hollandi og töluðu reyndar um aðra markaði og töldu að hér þyrfti að gera eitthvað svipað. Þessi hollenski markaður var þó að hálfu leyti síldarmarkaður. Það var fyrirmyndin sem var verið að sækja. Vitaskuld, eins og ég sagði áður, var þetta fyrst og fremst heildsölumarkaður fyrir þá sem seldu beint á neytendamarkaðinn.

Ég hef fullan hug á því, virðulegi forseti, að klára ræðu mína fyrir sjö þó ég sé með þetta mikið af pappírum fyrir framan mig.

Við höfum fengið, eins og ég sagði, margar umsagnir og ég held að engin þeirra hafi verið neikvæð, hafi verið á þann veg að ekki væri rétt að gera þessa tilraun. En flestar umsagnirnar voru á þann veg að þetta væri tilraun og hér væri verið að fara út í eitthvað sem menn vildu ekki taka fullkomna ábyrgð á. Manni fannst einhvern veginn að vegna þess að umræðan í þjóðfélaginu væri á þann veg að það væri nauðsynlegt að koma þessu á ætti að gera þessa tilraun. Ég get alveg tekið undir þessa skoðun. Ég held að það sé nauðsynlegt að koma á þessum markaði til að lofa þeim sem um hann hafa verið að tala og gera sér miklar vonir um að hann skili einhverju jákvæðu til íslensks sjávarútvegs að sjá það. Ég hef aftur á móti þá skoðun, eins og ég lýsti í 1. umr., mín tilfinning er sú að að miklu leyti sé þessi umræða, sem átt hefur sér stað á undanförnum mánuðum og á sér stað enn þá, fyrst of fremst dúsa upp í þá sem gera sér grein fyrir því hvað sjávarútvegurinn íslenski er illa farinn undir þeirri stjórn sem hefur verið á undanförnum árum. Það er verið að dreifa umræðunni. Það er verið að tala um eitthvert lausnarorð og að markaður, hvort sem hann heitir markaður eins og hér er verið að tala um að verði byggður upp eftir þessum lögum eða einhver fjarskiptamarkaður, sé eitthvert lausnarorð í sambandi við íslenskan sjávarútveg, það sé möguleiki til að laga og rétta eitthvað af að fá markað. Ég er á þeirri skoðun að markaðurinn muni gera okkur óskaplega lítið gagn. Hann mun ekki gera okkur ógagn, en ég hef trú á því að miðað við uppbyggingu á okkar fiskvinnslutækjum séu mjög litlar líkur fyrir því að eitthvert verulegt magn fari á þennan markað þannig að hann sýni okkur eitthvað, þannig að hann skili okkur einhverju. Fiskvinnslustöðvarnar, hvort sem þær heita Grandi, Heimaskagi eða Jökull, munu halda sínum viðskiptaskipum eins lengi og þær telja sig þurfa þess. Þær munu ekki skila afla af sínum viðskiptaskipum inn á markaðinn fyrr en svo er komið að það er ekki fyrirtækinu í hag að taka við meiri afla en þeim býðst þennan eða hinn daginn. Meðan við setjum ekki meginhluta þess afla sem fiskast á ákveðnu svæði á markaðinn verður þessi markaður meira og minna, því miður, markleysa. Þá erum við að gera það sem ég var að segja áðan. Þá erum við aðeins að samþykkja frv., sem er nauðsynlegt, til þess að staðfesta að þetta sé ekkert framfaraspor, það sé fyrst og fremst verið að sýna fram á það að við breytum ekki stöðu íslensks sjávarútvegs í einu eða neinu þó við fáum markaðinn. En ég er á þeirri skoðun að þetta spilli engu heldur. Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbær fá að láta nokkrar milljónir í þetta. Eins og kom fram í umræðunni er nauðsynlegt að við fáum á þetta reynslu. Það er kannske of stutt að hafa leyfið til eins árs. Það þarf að vera jafnvel 2-3 ár til að fá örugga reynslu. Þegar upp verður staðið verður breytingin engin, en við verðum búnir að ljúka kosningum í vor og við verðum kannske búnir að setja á aðra ríkisstjórn og það verða kannske einhverjir svo trúaðir á þennan markað að þeir trúi því að sú fiskveiðistefna sem við höfum búið við undanfarandi ár og afkoma fiskvinnslustöðva og margra annarra aðila í útvegi batni eitthvað við að það komi enn einn nýr aðili til að sinna því hlutverki að taka á móti fiski á Íslandi. Það er yfirlýst stefna þeirra manna sem standa að uppbyggingu þessa markaðar að honum er ekki ætlað að vera milliliður í sambandi við útflutning. Þetta er fyrst og fremst markaður til að sinna því að skipta upp fiski milli aðila hér heima.

Ég á eftir að sjá að Grandi og önnur góð fyrirtæki, Heimaskagi og fleiri sem ég nefndi, komi til með að láta afla sem þau hafa á milli handanna inn á markað á komandi árum og þar af leiðandi verði þessir markaðir ekki mikið meira en það sem einn viðmælandi okkar taldi: „Ég mun láta á þennan markað þann fisk sem ég hef látið fisksalana í Reykjavík hafa á undanförnum árum.“ Það er mjög hætt við því að það verði það sem kemur út úr þessari markaðsuppbyggingu. En reykvískir skattborgarar og hafnfirskir eiga kannske eftir að sjá eftir þeim milljónum sem þeir láta í uppbygginguna ef reynslan verður sú að þessir hlutir verði ekki meiri umleikis en ég spái hér.

Ég er á því að við eigum að samþykkja þetta frv. og ég styð þetta frv. að öðru leyti en því að mér finnst allt of mikið miðstýringaryfirbragð yfir því. Ef við erum að tala um frelsi eigum við að láta það heita og vera það. En það á að gera þessa tilraun til að sýna að þetta er því miður ekki mikið meira en dúsa.