23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3319 í B-deild Alþingistíðinda. (3007)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Frsm. sjútvn. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt. Í fyrsta lagi var það að í umræðunni í dag spurði hv. 11. þm. Reykv. hvernig stæði á því að það væri aðeins til eins árs sem þetta leyfi væri veitt. Það er rétt að þetta er svona í 1. gr., að leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar skal leyft til eins árs í senn og er leyfishafa jafnframt skylt að reka markað allt leyfistímabilið. Þetta er dálítið óljóst, en það skýrist strax ef við flettum upp í athugasemdunum á bls. 3. Í 2. mgr., þar sem talað er um 1. gr., segir að leyfi skuli aðeins veitt til eins árs í senn og ákvæði þetta sett í því skyni að starfsmenn hvers markaðar fái endurskoðun árlega. Það er ekki meiningin með þessu að svipta þá leyfinu. Það á að gilda til ársloka 1989. Hins vegar kemur til kasta Ríkismats o. fl. um búnað á markaðshúsum og öðru að það þarf starfsleyfi á hverju ári og að þeir fullnægi því. Það er skýringin á því að talað er um eitt ár í 1. gr.

Ég þakka ágæta ræðu hv. 4. þm. Vesturl. Við eigum ágæta samvinnu þarna í nefndinni og ég fagna því að hann skuli vera að þokast æ meira til frjálsræðis og út úr miðstýringarvitleysunni. Það endar með því að hann kemur vel yfir fyrir rest. Ég fór kannske í minni framsöguræðu dálítið mikið inn á að spá í hvað mundi ske með þennan markað. Ég sá ekki að það væri til að meiða einn eða neinn þó ég talaði um hvernig þetta mundi þróast. Mín skoðun er sú að svokallaður fjarskiptamarkaður verði miklu sterkari þegar til kemur en uppboðsmarkaðurinn. Ég er sammála hv. þm. um að það eru ekki öll skip sem geta landað á uppboðsmarkaði.

En eitt ætla ég að benda á aftur, eins og ég sagði í minni framsögu, að ég held að hvort sem fyrirtækin heita Heimaskagi eða Jökull eða Grandi verði það viðmiðunarverðið á uppboðsmarkaðnum sem verður ráðandi verð á þessum stöðum meira og minna. Það verður sótt fast bæði af sjómönnum og útgerðarmönnum að spyrjast fyrir um hver markaðurinn var í dag og ef hann er hagstæður vilja þeir fá það verð fyrir sinn afla.