28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

81. mál, skipan í héraðslæknisembætti á Vestfjörðum

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ef kenningar hv. fyrirspyrjanda ættu að gilda fyrir eftirmenn mína í embætti heilbr.og trmrh. ætti það í stuttu máli að vera þannig að fara ætti í kringum lögin, skipa þá sem séð væri að ekki yrðu á staðnum til þess að uppfylla skilyrði laganna og auk þess að leita neyðarúrræða þegar engin neyð væri fyrir hendi. Ég skil ekki svona röksemdir og ég er ansi hrædd um að hv. fyrirspyrjandi hafi ekki athugað að það bréf sem hann er með í höndum núna er úrelt orðið fyrir lifandis löngu. Í því stendur að vanmetin sé þörf Bolvíkinga fyrir samfellda læknisþjónustu og hafnað sé tilboði sem bjargað hefði þeim í læknisleysi í vetur. Þessu hefur bara alls ekki verið hafnað. Viðkomandi læknir var settur og er settur og gegnir þessu starfi í vetur. Það eina sem skilur á milli er að hann er ekki héraðslæknir. Og þrátt fyrir lagalegar útlistanir hv. fyrirspyrjanda um að það hefði nú bara aldeilis mátt gera viðkomandi lækni að héraðslækni þó að áskilið sé í lögunum að það eigi að skipa hann til fjögurra ára, þó að hann ráðleggi nú að ekki sé eftir þessu farið, verð ég að afþakka þessa ráðleggingu.

Það má náttúrlega segja að það þarf stundum, ef algjör neyð er - hefði enginn skipaður heilsugæslulæknir verið til í héraðinu hefði auðvitað orðið að leita annarra leiða. En þeir voru bara þrír og þar að auki hver öðrum hæfari menn. Og vissulega hefur fráfarandi héraðslæknir gert marga ágæta hluti, en þessi ráðstöfun segir bara ekki nokkurn skapaðan hlut um það. Þetta var mál sem einfaldlega var ekki hægt að afgreiða með öðrum hætti en að skipa nýjan mann. Og ég hef aldrei heyrt það fyrr að talað sé um vanmat á störfum manns þegar hann er skipaður í eftirsótt embætti í höfuðstað Norðurlands og tekinn þar fram yfir ýmsa aðra. Ég hef aldrei heyrt slíkt túlkað sem vanmat á hæfni manns. Mér þykir það einkennilegt viðhorf til Norðlendinga ef það er talið eitthvert vanmat á hæfni manns að vera skipaður í eftirsótt læknisstarf á Akureyri þannig að þetta held ég að sé allt meira og minna á misskilningi byggt, í fyrsta lagi í þeirri grg. sem hv. fyrirspyrjandi las, enda var það svo að mér var í raun og veru aldrei send þessi greinargerð. Ég frétti af henni og þetta er í fyrsta sinn sem ég heyri lesnar glefsur úr henni, enda skiptir það ekki máli. Málið liggur eins kristallsljóst fyrir og tært sem verið getur. Læknismál Bolungarvíkur eru leyst og þetta er einhver skringileg innansveitarkróníka einhvers tiltekins hóps manna þar, eitthvað frá löngu liðinni tíð, sem er bara ekki lengur á dagskrá.