23.02.1987
Neðri deild: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3331 í B-deild Alþingistíðinda. (3016)

119. mál, umferðarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Því miður eru hér á ferðinni, allt of seint, umræður um þetta frv. og mjög farið að líða að þingslitum. Menn hafa viljað ýta mjög á afgreiðslu málsins og er ekkert óeðlilegt við það, en jafnframt talað fyrir því að málinu verði breytt og segir það sína sögu um það hve skiptar skoðanir manna eru á þeim lagagreinum sem menn vilja að séu í gildi á þessu sviði.

Það fyrsta sem hlýtur að leita á hugann er það hvort þessi lög tryggi það á einhvern hátt að slysum fækki í landinu. Er ekki markmiðið að fækka slysunum? Ég hefði viljað byrja á því að fá að vitna í skýrslu um umferðarslys á Íslandi árið 1985 sem Umferðarráð gefur út. Þar kemur fram á bls. 21 að aldurshóparnir frá 17 til 20 ára eru aðalslysavaldarnir í umferðinni. Óhöppin og slysin sem þessi aldurshópur veldur eru svo yfirþyrmandi að það hvarflar ekki að venjulegum manni þegar hann skoðar þetta að þetta sé með eðlilegum hætti. Hér blasir við að mínu viti annars vegar skortur á því að umferðarkennslan í landinu sé færð til samræmis við það sem er t.d. í Danmörku, en þar fá kennarar, sem sjá um kennslu barna eða ungmenna, verulega tilsögn áður en þeim er falið það verkefni að annast ökukennslu, verulega tilsögn í því að kenna. Ég efa ekki að þeir sem stunda ökukennslu á Íslandi séu fullfærir hvað það snertir að þeir þekki íslensk umferðarlög og að þeir þekki nægilega vel þær hættur sem eru til staðar og að þeir hafi næga þekkingu á bifreiðunum sem slíkum. En eru þetta aðilar sem eru færir um að miðla þeirri þekkingu til nemendanna á þann hátt að nemandinn akti þá miðlun og taki tillit til hennar þegar hann fer sjálfur að keyra? Það bendir allt til þess að svo sé ekki. Og ég vildi nú hvetja menn til að skoða súluritin á bls. 21 í skýrslu Umferðarráðs, skýrslu um umferðarslys á Íslandi árið 1985.

Það má vera að hluti af þessu máli sé agaleysi í þjóðfélaginu, að menn telji að þeir þurfi ekki að taka tillit til yfirvalda eða lögreglu eða hvernig sem menn vilja skilgreina það. Það blasir hins vegar við að þetta er það fyrsta sem verður að taka á. Það verður að taka á því af nægilegri festu að þessum ungmennum sé ljóst að þau eru að leika sér með mannslíf. Þau eru að leika sér með mannslíf með aksturshætti sem kallar yfir þjóðina gífurlegan fjölda umferðarslysa.

Annað atriðið sem verður að taka á í umferðarmálum Íslendinga er það að vegakerfið íslenska er sambland af mjög góðum akvegum, þokkalegum malarvegum og gjörsamlega vonlausum akvegum. (Gripið fram í: Hvar eru þessir mjög góðu?) Mér er sagt að þeir séu yfirleitt á Norðurlandi en það má vera að til séu upplýsingar um eitthvað annað. Okkur finnst, í það minnsta Vestfirðingum, að þegar við erum komnir á akveg með tveimur akreinum með bundnu slitlagi séum við komnir á mjög góðan veg. En þegar kaflar eru inn á milli, eins og nú er, sem hafa kallað á dauðaslys og umferðarslys ár eftir ár, hlýtur að verða að taka upp alveg sérstaka merkingu á þessum vegum og m.a. heimildir til að hafa umferðarhraða þar miklu lægri.

Það er verið að taka ákvarðanir um það, eftir því sem ég best veit, að fara í einn svona kafla sem er í Norðurárdalnum í Borgarfirði. Á leiðinni frá Reykjavík til Ísafjarðar er annar svona kafli fyrir norðan Hólmavík sem þyrfti að merkjast alveg sérstaklega sem stórhættulegt aksturssvæði þar til búið verður að gera þar almennilegan veg.

Mér þykir það líka athyglisvert að nýjar brýr sem verið er að setja á vegi eru ekki samræmdar á þann hátt að á sama veginum megi treysta því að maður sé að aka eftir brúm sem hægt er að mætast á, heldur séu menn að aka um veg þar sem til skiptis er brú sem hægt er að mætast á og svo önnur sem ekki er hægt að mætast á. Og þetta eru nýjar brýr. Hönnun mannvirkja á þennan hátt býður beinlínis heim dauðaslysum í umferðinni. Það eru alveg hreinar línur.

Ég held að allt of lítið sé hugsað út í það að hönnun veganna er það sem oft og tíðum ræður úrslitum um það hvað gerist í umferðinni úti á landi þegar íbúar þéttbýlisins streyma í stríðum straumum eftir þjóðvegum landsins eins og umferðarslysin bera með sér í júlímánuði og ágústmánuði. Þá lenda menn í því að vegakerfið, sem getur verið þjóðvegur nr. 1 þess vegna, er svo misjafnt að gæðum og það er engin sérstök áherslumerking þó að menn séu að yfirgefa mjög góðan veg og fara yfir í gersamlega vonlaust aksturssvæði. Það er kannske skilti sem bendir til þess að það sé bugðóttur vegur, lítið skilti sem menn taka kannske varla eftir í rykkófinu.

Það vakna líka ýmsar spurningar þegar maður sér nýhönnuð vegamót þar sem fleiri, fleiri bílar hafa skemmst og hópur bíla hefur hafnað út af, eins og er t.d. með vegamótin við Brú í Hrútafirði. (Gripið fram í.) Þar hefur verið gerð breyting á vegamótunum á þann veg að flutningabílar, sem ætla t.d. norður á Ísafjörð, þurfa stundum að grípa til þess ráðs að keyra fyrst yfir í Húnavatnssýslur og snúa þar við því þeir eru ekki í aðstöðu til að ná beygjunni. Þar hefur verið komið fyrir kerum. Það er búið að brjóta mörg af þessum kerum af því að bílarnir hafa hafnað á þeim og aðrir hafa hafnað niðri í skurði. Auðvitað hljóta menn, þegar ákveðnir staðir verða að sérstökum slysagildrum, að reyna að ná einhverju samstarfi á milli lögreglu sem hefur eftirlit með vegunum og þeirra sem vinna að því að hanna þessa vegi til þess að draga úr hættu á svona stöðum.

Ég er þeirrar skoðunar að umferðarslysin á Íslandi séu eitt af því alvarlegasta sem við búum við. Og ég held að það þurfi að leggja á það mikla áherslu að reyna að draga úr þeim. Alþingi Íslendinga ber á því fulla ábyrgð að hafa skammtað allt of litið fé til þessara mála. Mér finnst að þegar talað er um þessi mál, oft og tíðum, séu það þessi stóru aðalatriði sem blasa við í öllum þeim skýrslum sem fyrir liggja um þessi mál. Það er annars vegar það að okkur hefur gjörsamlega mistekist að sannfæra íslensk ungmenni um þá ábyrgð sem fylgir því að aka bíl eða að okkur hefur mistekist að kenna þeim að aka bíl þannig að þau séu fær um að leysa það af hendi án slysa og hins vegar að við höldum áfram að starfa að þessum málum eins og ekkert samband sé á milli löggæslunnar í landinu sem hefur eftirlit með umferðinni og hönnun mannvirkjanna og merkingu hættulegra vegsvæða.

Ég hef t.d. stundum spurt sjálfan mig að því á sólheitum sumardögum hér í Reykjavík þegar verið er að vinna að lagfæringu á gatnakerfinu á Stór-Reykjavíkursvæðinu og allt í einu standa venjulegir vegfarendur frammi fyrir því að það er búið að loka flestöllum aðalæðunum í borginni, það er alls staðar verið að gera við samtímis, og svo dynja umferðaróhöppin yfir, ég hef oft spurt mig: Skyldi raunverulega aldrei vera reynt til hlítar, þegar svona ákvarðanir eru teknar á milli þessara sveitarfélaga hérna, að samræma aðgerðir og ákveða það hvað hugsanlegt sé að loka að hámarki miklu samtímis af gatnakerfinu, aðalæðum svæðisins?

Ég hygg að menn veigri sér almennt við því að ræða um það sem staðreynd að hönnun gatnakerfisins og gjörbreytt gatnakerfi, eins og t.d. með því að byggja yfir vegi sem hefur verið gert hér í Kópavogi og í Reykjavík, slíkar aðgerðir, skilar náttúrlega alveg stórkostlegum hlutum til öryggis. Þessar breytingar kosta peninga. Umræðan hefur hins vegar snúist miklu meira um það hvort menn eigi að sekta einhvern fyrir að vera ekki með bílbelti, hvort við eigum að hafa ljós allan ársins hring eða ekki, hvort við eigum að setja það í lög að menn eigi að keyra á 70, 80 eða 90 km hraða. Þegar vitað er að þungaumferðin úti á vegum landsins er búin að vera í mörg ár á bilinu 90-100 km á þeim vegsvæðum þar sem akstursskilyrði eru góð, þá er óraunhæft að tala um að aksturshraðinn sé minni. Ég er nefnilega stundum að spyrja sjálfan mig að því hvort það sé staðreyndin að vegna þess að við höfum ekki viljað leiðrétta suma hluti og menn hafi vanið sig á það að brjóta umferðarlögin, vegna þess að þeir hafi talið þau svo vitlaus að það væri ekki hægt að fara eftir þeim, séum við með því móti raunverulega að stuðla að því að menn beri sem heild miklu minni virðingu fyrir lögunum.

Ég gladdist t.d. yfir því og taldi það eitt af afrekum Íslendinga þegar við skiptum úr vinstri umferð yfir í hægri umferð hversu vel tókst til. Það var þjóðarátak og menn voru harðákveðnir í því að ná þeim árangri að breytingin kostaði þjóðina ekki mörg mannslíf og við náðum þeim árangri. En svo er eins og umræðan hafi dofnað. Það er eins og heildaryfirsýn yfir þessi mál hafi ekki verið til staðar. Menn hafa kannske verið að berja á hinum smáu atriðum en stóru atriðin hafa orðið út undan, eins og t.d. að það verður alveg kalt og ákveðið að ná umferðinni á mjög lélegum köflum niður í 50 km hraða sem hámark á sama tíma og það er ekkert óeðlilegt við það þó að umferðarhraðinn á góðum vegi fari í 90. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að okkur hefur alls ekki tekist að koma ökumönnum á aldrinum 17-20 ára til þess að standa sig í umferðinni.

Aldurinn 21-24 ára, sem er sýndur hér líka í súluriti, er með að meðaltali um helmingi færri, meira en helmingi færri umferðarslys. Og þó er hann, þó er aldurinn þar fyrir ofan, 25-64 ára, allur sá aldurshópur er með miklu færri umferðarslys en hitt sex ára tímabilið hjá hinum báðum aðilunum lagt saman. Miklu, miklu færri.

Hér verður að taka á málum. Á að gera það með því að skírteini sem gefin eru út séu með punktum þannig að menn séu búnir að tapa sínu skírteini ef þeir lenda í tveimur umferðaróhöppum og fái skírteinið ekki aftur fyrr en eftir sex mánuði? á að gera þetta með sektum? Hvað er til ráða? En það gengur bara hreinlega ekki að líða þetta ástand eins og það er. Það bara gengur ekki.

Ég tel að það hafi heldur ekki verið tekið inn í þessa umræðu sem skyldi að það er hreinlega stórhættulegt, þó ekki sé meira sagt, af Alþingi Íslendinga að slaka á varðandi áður gerðar samþykktir þessa þings um fjármagn til vegagerðar. Sú ákvörðun að hægja á uppbyggingu veganna mun þýða fleiri, fleiri dauðaslys, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, því að bifreiðunum fjölgar með ári hverju og það er alveg tómt mál um að tala að íslenskir vegir séu færir um að taka við þeim umferðarþunga sem á þeim er.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara út í umræðu um einstakar greinar. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fjallar um þetta frv. og veit að hún mun strax í fyrramálið fara að starfa að því að fara yfir þetta, en mér þykir það miður hversu seint þetta mál kemur til nefndarinnar vitandi það að það er allt útlit fyrir að Nd. leggi til breytingar á vissum greinum og málið fari aftur til Ed. og þess vegna spurning hvort það vinnst tími til að gera þetta frv. í meginatriðum að lögum.