23.02.1987
Neðri deild: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3337 í B-deild Alþingistíðinda. (3020)

119. mál, umferðarlög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans og vilja í þessum efnum eins og hann kom fram. Ég tel það mjög þýðingarmikið að á þessum málum sé tekið og ég held að orðalagið samkvæmt skilgreiningu 2. gr. og torfærutæki þurfi endurskoðunar við vegna þess að það gengur í rauninni gegn ákvæði náttúruverndarlaga.

Ég vil svo vegna ummæla hv. 3. þm. Austurl. benda á að ég held að torfæruhjól leysi ekki þann vanda sem hv. þm. var að gera sér vonir um. Þó að þetta séu tiltölulega létt tæki þá geta þau markað djúp og býsna varanleg spor í viðkvæmt land, ekki síst í votlendi, og einnig þegar frost er að fara úr jörðu og jörð er gleyp. Og ég vil andmæla því að reynt sé að lögleiða slík tæki og notkun þeirra vegna þess að þau séu hentug til björgunar. Það tel ég ekki. Og hvað þá til smalamennsku. Ég held að menn gangi oft fram að ryðja brautina fyrir ýmsan búnað sem betur væri ekki mikið af í landinu vegna þess að það sé hægt að draga úr slysum eða auðveldara sé um björgunarstörf. Auðvitað ber að taka alveg sérstaklega á því máli. En það á ekki að ryðja brautina fyrir óeðlilega notkun tækja sem spilla náttúru landsins.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.