28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

81. mál, skipan í héraðslæknisembætti á Vestfjörðum

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég má til með að fá að gera örstutta athugasemd þegar mér er lagt það út sem skilningsleysi á þörf landsbyggðarinnar fyrir læknisþjónustu og fyrir þjónustu hæfra manna að sú skipan mála er nú eins og hún er. En þannig er málum farið að hinn nýi héraðslæknir er þaulreyndur læknir með mjög mikla þekkingu og hefur mjög góðan orðstír. Á Bolungarvík er settur heilsugæslulæknir sá hinn sami læknir og hv. fyrirspyrjandi er að ræða um og í vor þegar hinn fyrrv. héraðslæknir fer frá Bolvíkingum, skv. hans eigin ósk, tekur þar við ungur maður, sérmenntaður í faginu, einmitt sami maðurinn, að því er ég best veit, og núv. settur heilsugæslulæknir, sem sagt fyrrv. héraðslæknir, vildi helst fá sem eftirmann sinn. Ég vil að þetta sé ljóst. Það má vera að hv. þm. telji að þetta sé skilningsleysi. Svo er að sjá sem hann skilji ekki staðreyndirnar í málinu.