24.02.1987
Sameinað þing: 54. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3344 í B-deild Alþingistíðinda. (3033)

349. mál, dýralæknisembætti

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef vissulega hugleitt að flytja frv. til breytinga á dýralæknalögum og setja þar inn skýrari ákvæði um veitingu dýralæknisembætta og ég hef mjög styrkst í þeirri trú að það sé rétt eftir að hafa hlustað á hæstv. landbrh. lopa upp úr sér svari sem ég að öðru leyti þakka honum fyrir eins og venja er.

Það eru mér engar fréttir að hæstv. landbrh. fari að lögum þegar hann veitir dýralæknisembætti. Að sjálfsögðu gerir hann það, enda er það einfalt og auðvelt því lögin eru ákaflega opin hvað þetta varðar. Ég tel að það hljóti að koma til skoðunar, m.a. í framhaldi af þessari umræðu, að breyta lögunum þannig að inn í þau komi bundin ákvæði um starfsveitinganefnd með aðild Dýralæknafélagsins a.m.k. sem fari yfir og hafi lögbundinn umsagnarrétt um umsækjendur til embætta héraðsdýralækna.

Ég mótmæli því að svonefnd starfsaldursregla hafi ekki haft nein áhrif hvað varðar það að menn hafi komið heim úr námi til að taka að sér dýralæknisstörf í afskekktum héruðum. Ég fullyrði að það hefur hún gert. Það hefur verið skilningur þessa fagfélags, Dýralæknafélags Íslands, að með því að hún væri höfð til hliðsjónar væri viss trygging fyrir því að þeir menn sem legðu á sig að þjóna í afskekkt

um og tekjurýrum héruðum hefðu betri möguleika en ella til að færa sig um set í auðveldari og betri embætti þegar þeir hefðu þjónað um nokkurra ára bil í slíkum héruðum. Þess vegna er mjög alvarlegt að mínu mati þegar það hefur gerst að þessi regla hefur algerlega verið sniðgengin og tekinn umsækjandi sem var einna lægstur í uppröðun Dýralæknafélagsins úr hópi nokkurra manna og gengið fram hjá mönnum með umtalsverða starfsreynslu, hæfum dýralæknum með umtalsverða starfsreynslu í afskekktum héruðum sem búnir eru að vinna þar við erfið skilyrði og leggja þar á sig ýmiss konar óhagræði og eiga það að sjálfsögðu öðrum fremur skilið að komast í hæ ari embætti. Það er það sem er þarna alvarlegt. Ég óttast að þó jafnvel ekki komi til uppsagna vegna þess fordæmis sem hér hefur verið gefið verði það til þess að þeir sem eiga möguleika á störfum í öðrum löndum t.d. komi síður heim til að leggja á sig að þjóna í erfiðum og afskekktum héruðum. Það er einmitt þetta sem ég veit að forráðamenn Dýralæknafélags Íslands hafa miklar áhyggjur af.