24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3385 í B-deild Alþingistíðinda. (3054)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Skýrsla sú sem hér er til umræðu er byggð á áliti svokallaðrar milliþinganefndar um húsnæðismál. Tildrög nefndarstarfsins þarf ekki að rekja frekar hér í umræðum en þegar hefur verið gert og er þeirra auk þess getið í inngangi að skýrslunni og mun ég því ekki fara mörgum orðum um það.

Verkefni nefndar þessarar var eins og þar kemur fram að gera tillögur um nýtt húsnæðislánakerfi. Það var að sjálfsögðu viðamikið hlutverk og var nefndinni ætlað að ljúka störfum haustið 1985 þannig að hægt væri að leggja tillögur um þetta nýja húsnæðislánakerfi fyrir það þing sem þá var að störfum.

Ég held að okkur, sem sátum í þessari nefnd, hafi fljótt verið það ljóst að erfitt yrði að koma fram hugmyndum um algjöra endurskipulagningu húsnæðislánakerfisins í samræmi við þær hugmyndir sem fram komu í erindisbréfi nefndarinnar á svo skömmum tíma sem okkur var ætlað til þessa nefndarstarfs og það hafi verið ljóst strax þá um sumarið eða alla vega á haustdögum að okkur mundi ekki takast að standa við það markmið.

Svo sem fram kemur í þessu nefndaráliti var nefndinni falið nýtt hlutverk þá um haustið, nánar tiltekið með bréfi hæstv. félmrh. 10. sept. 1985, að gera tillögur um ráðstöfun á því fé sem aflað yrði á árinu 1986 með stoð í sérstökum lögum um fjáröflun til húsnæðismála. Og á haustmánuðum 1985 sneri nefndin sér eingöngu að því hlutverki.

Vegna fullyrðinga hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um það að nefndarstörfin hafi gengið hægt fyrir sig og farið seint af stað, en hann gat um það í ræðu sinni fyrr í þessari umræðu að nefndin hafi ekki haldið sinn fyrsta fund fyrr en 25. júlí 1985 og greindi frá þessu með miklu yfirlæti, vil ég minna þann hv. þm. - verst að hann skuli ekki vera hér til að hlusta á það svar - og aðra hv. þingdeildarmenn á að nefnd þessi var ekki skipuð fyrr en 11. júlí 1985 með bréfi hæstv. félmrh. og það getur vart talist að langur tími hafi liðið þó þarna líði hálfur mánuður frá því að skipunarbréfið er dagsett og þar til fyrsti nefndarfundur er haldinn þegar um er að ræða að ná saman þó þetta stórri nefnd um mitt sumar. Ég vísa því alfarið á bug þessum athugasemdum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar.

Fyrsti fundur nefndarinnar var sem sagt haldinn 25. júlí 1985. Nefndarmenn voru sammála um það meginhlutverk nefndarinnar að setja fram tillögur um nýskipan húsnæðismála sem gætu staðið um nokkra framtíð. Starfsáætlun nefndarinnar var miðuð við þetta og fór fram á hennar vegum umfangsmikil gagnaöflun um húsnæðismál hérlendis og erlendis. Haustið 1985 hafði hún aflað margvíslegra gagna um húsnæðismál. Á fundum hennar í september og október það ár var farið yfir þær upplýsingar sem höfðu borist og fyrstu drög að heildarskýrslu nefndarinnar tekin til umræðu. Eftir setningu laga nr. 48/1985, um sérstaka fjáröflun vegna húsnæðismála á árunum 1985 og 1986, sem ég nefndi áðan, og vegna umfjöllunar í þjóðfélaginu um greiðsluvanda íbúðareigenda var því erindi eða hlutverki beint til nefndarinnar að hún legði í starfi sínu sérstaka áherslu á þetta atriði. Nefndin varð við þessum tilmælum hæstv. ráðh. og samþykkti á fundi sínum hinn 7. des. 1985 álitsgerð um greiðsluvanda íbúðareigenda sem send var hæstv. félmrh.

Nefndin gerði þá nokkurt hlé á störfum sínum eftir að hún sendi frá sér álitsgerðina 7. des. og kom aftur saman til fundar 9. jan. 1986 og voru drög að skýrslu nefndarinnar þá tekin til áframhaldandi umræðu. Um svipað leyti fóru fram á milli aðila vinnumarkaðarins samningaviðræður um kaup og kjör. Meðal þeirra atriða sem rædd voru í samningaviðræðunum var róttæk breyting á húsnæðislánakerfinu. Með tilliti til þessa þótti rétt að gera enn hlé á störfum nefndarinnar og sjá hvaða tillögur aðilar vinnumarkaðarins hefðu fram að færa í húsnæðismálum. Vil ég taka fram að öll þessi tilhögun nefndarstarfsins var gerð í fullu samráði við alla nefndarmenn. Þessi frásögn af nefndarstarfinu er nauðsynleg vegna þeirra ummæla hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar sem ég vitnaði til áðan varðandi nefndarstörfin og hvernig þau gengu fyrir sig.

Atvinnurekendur og samtök launafólks undirrituðu kjarasamningana 26. febr. 1986. Húsnæðismál voru veigamikill þáttur í þessum kjarasamningum. Samkvæmt þeim var gert ráð fyrir stórauknu fjármagni til opinbera húsnæðislánakerfisins frá lífeyrissjóðunum. Nefnd, sem forsrh. skipaði á grundvelli yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar í tengslum við undirritun kjarasamninganna, var síðan falið að semja frv. til breytinga á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, byggt á þessu samkomulagi. Það var sem sagt ekki hlutverk milliþinganefndarinnar að semja þetta frv. svo sem ég hygg að hv. þm. öllum sé kunnugt og ljóst. Milliþinganefndin og húsnæðisnefnd ríkisstjórnarinnar og aðilar vinnumarkaðarins héldu þrjá sameiginlega fundi í mars- og aprílmánuði þar sem farið var yfir frumvarpsdrög og breytingar á húsnæðislánakerfinu. Á þessum fundum komu einstakir nefndarmenn milliþinganefndarinnar á framfæri ábendingum um atriði sem betur mættu fara í frumvarpsdrögunum.

Segja má að kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins í febrúar 1986 hafi valdið straumhvörfum í starfi milliþinganefndarinnar. Með kjarasamningunum var að verulegu leyti brostin forsenda fyrir umfjöllun hennar um það meginviðfangsefni sem henni var í upphafi ætlað að fjalla um, þ.e. framtíðarskipan húsnæðislánakerfisins.

Frá þessum tíma snerust umræður innan nefndarinnar að verulegu leyti um vankanta sem menn þóttust sjá á þeirri skipan sem tekin var upp með lögum nr. 54/1986. Nefndarmenn voru ekki sammála um hvort rétt væri á þessu stigi málsins að gera miklar breytingar á hinu nýja lánakerfi og þegar kom fram í janúarmánuð s.l. var ljóst að nefndin gæti ekki sameinast um tillögur að frv. um breytingar á húsnæðislánakerfinu. Var því ákveðið að freista þess að ná samstöðu um að nefndin setti fram í nál. ýmsar ábendingar og kæmi á framfæri hugmyndum sem hefðu verið ræddar á fundum hennar. Jafnframt var ákveðið að einstakir nefndarmenn kæmu skoðunum sínum og tillögum á framfæri í sérálitum sem fylgdu nál.

Líta verður á nál. þetta og þær tillögur og athugasemdir sem í því eru settar fram í ljósi þess sem ég hef hér greint frá. Og ég vil ítreka að um þetta hafi að lokum verið fullt samkomulag í nefndinni.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hélt því fram í máli sínu að óeining hafi ríkt í nefndarstarfinu. Hann talaði um að stjórnarliðið hafi hvorki haft vilja né burði til að taka á þessum málum. Ég ítreka að það kom hvað eftir annað skýrt fram, bæði í störfum nefndarinnar og eins í viðræðum hennar við þá aðila sem nefndin boðaði á sinn fund, svo sem fulltrúa aðila vinnumarkaðarins sem oft eru nefndir svo, að það væri bæði rétt og eðlilegt að láta þetta nýja kerfi sýna sig, fá af því reynslu áður en gripið yrði til nokkurra breytinga sem heitið gætu á þessum nýju húsnæðislögum. Þeim fullyrðingum hv. þm. að það hafi verið stríðandi öfl innan stjórnarflokkanna í milliþinganefndinni og þar hafi verið einhver sérstakur undirlægjuháttur af hálfu okkar framsóknarmanna vísa ég algjörlega á bug sem órökstuddum staðhæfingum.

Ég taldi það hlutverk mitt sem formanns nefndarinnar að leggja mig fram um að hafa sem best samstarf við alla nefndarmenn og ná sem bestu samkomulagi um það sem við gætum orðið sammála um. Mér var það reyndar ljóst strax á haustdögum og hreyfði því þá í nefndinni að það væru ekki miklar líkur á því að við næðum að setja fram heilsteyptar tillögur í frumvarpsformi, m.a. vegna þess sem ég nefndi hér áðan, að það var ekki vilji til þess, ekki almennur vilji til þess að gera verulegar breytingar á núgildandi lögum. Ég fullyrði enn og aftur að það hafi verið nokkuð gott samkomulag um að nefndarstarfinu skyldi ljúka með þeim hætti sem ég greindi frá áðan.

Því til staðfestingar má reyndar vitna til málsgr. undir kaflanum 4.1 Inngangur í skýrslu nefndarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Það er mat nefndarinnar að þær breytingar sem voru gerðar á útlánareglum Byggingarsjóðs ríkisins með lögum nr. 54/1986 geri róttækar breytingar ólíklegar næstu árin á meðan reynsla fæst af hinu nýja fyrirkomulagi.“

Ég tel að hér komi skýrt fram og undirritað af öllum nefndarmönnum að þetta var almennt þeirra álit. Ég tel afar mikilvægt að hv. þm. hafi í huga þessa framvindu nefndarstarfsins og hvaða áhrif kjarasamningarnir í febrúar 1986 höfðu á starfshætti nefndarinnar þegar fjallað er um þann árangur sem varð af starfi hennar.

Í kafla 4.2 í nál. gerir nefndin grein fyrir umfjöllun sinni um greiðsluvanda íbúðareigenda. Þar eru og rifjaðar upp þær hugmyndir sem nefndin sendi félmrh. í álitsgerð sinni eða áfangaskýrslu sem dags. var 7. des. 1985. Ég sé ekki ástæðu til að fjalla hér nánar um þessar aðgerðir. Skýrslu ráðgjafarstöðvar Húsnæðisstofnunarinnar um það efni hefur verið dreift til þm. Ég tel þó rétt að benda á eitt atriði í sambandi við greiðsluvanda íbúðareigenda sem nefndin telur að betur megi fara. Á bls. 4 í þskj. vekur nefndin athygli á því að vorið 1985 hafi verið sett lög um greiðslujöfnun lána hjá Húsnæðisstofnun sem er til hagræðis þegar til lengri tíma er litið. Nefndin varð sammála um að greiðslujöfnunin ætti einnig að ná til lána lífeyrissjóða og annarra langtímalána til húsnæðismála og við útreikning greiðslujöfnunarinnar yrði miðað við vísitölu kauptaxta í stað launavísitölu.

Í kafla 4.3.2 í álitinu er fjallað um umræður sem hafa átt sér stað innan nefndarinnar um fjármögnun húsnæðislánakerfisins. Þar kemur fram að með setningu laga nr. 54/1986 er lánstími nýbyggingarlána hjá Byggingarsjóði ríkisins verulega lengdur eða úr 31 ári í 40 ár og úr 21 ári í 40 ár vegna kaupa á notuðum íbúðum. Út frá því er gengið að lánin verði tengd breytingum á lánskjaravísitölu.

Í 30. gr. laga um Húsnæðisstofnun þar sem kveðið er á um lánskjör segir að vextir skuli vera breytilegir og ákvarðast hverju sinni af ríkisstjórn Íslands. Núverandi ríkisstjórn hefur gefið um það fyrirheit að vextir af lánum úr Byggingarsjóði ríkisins verði ekki hærri en 3,5%. Nefndin vekur athygli á því sem segir í athugasemdum með frv. til laga nr. 54/1986, en þar kemur fram að útreikningar bendi til að verði mismunur á vöxtum á teknum lánum og veittum hjá Byggingarsjóði ríkisins meiri en 2-3 prósentustig til lengdar muni lánakerfið sligast.

Hins vegar bendir nefndin á það í áliti sínu að náðst hafi samkomulag á milli Húsnæðisstofnunar og lífeyrissjóðanna um kjör vegna kaupa á skuldabréfum á árunum 1987 og 1988. Mikilvægasta atriði samkomulags þessa er að skuldabréf keypt á árinu 1987 bera 6,25% vexti og skuldabréf keypt á árinu 1988 bera 5,9% ársvexti með mislöngum lánstíma að vali lífeyrissjóðanna. Það er því ljóst að vextir af skuldabréfum munu lækka. Hvort þeir halda áfram að lækka er auðvitað háð því hvort þjóðin njóti áfram sömu festu í stjórn efnahagsmála næstu árin og hún hefur notið á því kjörtímabili sem senn er á enda. En þessir samningar um þau vaxtahlutföll sem þarna hefur verið samið um eru innan þeirra marka sem bent var á í grg. sem ég vitnaði til áðan.

Rétt er að vekja athygli hv. þm. á því að þau sjónarmið og þær tillögur sem settar eru fram neðst á bls. 7 og fram á bls. 9 í þskj. eru komnar frá einum nefndarmanni en ekki nefndinni í heild sinni eins og svo margt fleira sem getið er um í nál. Einmitt þennan kafla gerði hv. þm. Stefán Benediktsson að umræðuefni í ræðu sinni og það má líta á þessa þætti í nál. eins og reyndar fleiri sem nokkurs konar hugmyndabanka, þ.e. þetta er safn þeirrar umræðu sem varð í nefndinni og nefndin var sammála um að láta koma fram svo sem ég hefur áður greint frá. Hv. þm. Stefán Benediktsson og Kristín Halldórsdóttir gerðu reyndar bæði grein fyrir því í ræðum sínum og bentu á að nefndin hafi þrátt fyrir allt orðið sammála um ýmis atriði sem greint er frá í þessu nál. og vissulega var það svo. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir spurði hvers vegna við hefðum gefist upp við það verkefni að semja frv. með hliðsjón af þessum sameiginlegu niðurstöðum. Hún taldi að það bæri að krefjast frekari skýringa af hálfu nefndarmanna í þessu sambandi. Ég tel að þær komi ljóst fram í nál. og ég hef þegar greint frá því hvernig samkomulag varð um vinnubrögð og ítreka það að í viðræðum við þá aðila sem lögðu drögin að þessu nýja húsnæðislánakerfi kom mjög ákveðið fram að það væri ekki rétt að gera verulegar breytingar á þessu nýja húsnæðislánakerfi fyrr en betri reynsla hefði fengist af því. Þetta vil ég að sé alveg ljóst og sé þá líka svar, a.m.k. af minni hálfu, við þeirri spurningu sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir varpaði fram.

Það má auðvitað spyrja hvort Alþingi eigi að taka svo mikið tillit til viðhorfa þessara aðila sem drjúgan þátt áttu í þessari lagabreytingu, en með tilliti til þess að stjórnvöld ákváðu á sínum tíma að taka mjög undir það sjónarmið sem fram kom í umræddum kjarasamningum tel ég a.m.k. alveg ljóst og reyndar mjög eðlilegt að það sé áfram tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem ríkja hjá þessum sömu aðilum enn þann dag í dag.

Hv. þm. Stefán Benediktsson gerði í ræðu sinni nokkuð ítarlega grein fyrir þeim atriðum í nál. sem samkomulag náðist um og gæti ég e.t.v. sleppt því úr ræðu minni, en hafði hugsað mér að draga fram nokkra punkta og benda á og mun þrátt fyrir ábendingar hans halda mig við það.

Meðal þess efnis sem nefndin bendir á eru starfshættir Húsnæðisstofnunarinnar. Fram kemur að þeir hafi oft verið til umfjöllunar á fundum nefndarinnar. Hún er sammála um að stofnunin verði að leggja meiri rækt við stefnumótun á sviði húsnæðis- og byggingarmála og upplýsingamiðlun til einstaklinga, félagasamtaka, stofnana og stjórnvalda um þessi málefni. Einnig telur hún nauðsynlegt að Húsnæðisstofnunin bæti þjónustu sína við einstaklinga, félagasamtök og stjórnvöld. Nefndin telur mikilvægt að stofnunin bæti upplýsingamiðlun um lánamöguleika, lánskjör og greiðslubyrði. Nefndin fjallaði um verkefni ráðgjafarstöðvar Húsnæðisstofnunarinnar og telur að hún eigi að leggja megináherslu á almenna upplýsingamiðlun um lánaflokka, lánskjör, greiðslubyrði og fleiri atriði sem varða þjónustu Húsnæðisstofnunarinnar.

Nýja lánakerfið gerir nauðsynlegt að ráðgjöf sé veitt í beinum tengslum við lánsumsóknir. Með markvissu ráðgjafarstarfi má reyna að koma í veg fyrir óraunhæfa fjárfestingu og að fólk leggi ekki út í fjárfestingu sem verður því ofviða. Þetta tel ég að sé mikilvægt hlutverk Húsnæðisstofnunarinnar eða ráðgjafarstöðvarinnar og er því mjög undrandi á þeim ummælum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í umræðunum fyrr þar sem hún gerir lítið úr þessu hlutverki ráðgjafarstöðvarinnar og telur lítilsvirðandi eða jafnvel óviðeigandi þau aðvörunarbréf sem ráðgjafarstöðin hefur sent hugsanlegum íbúðakaupendum eða -byggjendum þar sem þeir eru aðvaraðir um að fyrirhuguð fjárfesting og lántaka geti orðið þeim ofviða og þeir séu e.t.v. að reisa sér hurðarás um öxl. Þetta virðist mér hv. þm. telja nánast óviðeigandi. Ég tel hins vegar að þetta sé mjög mikilvægt hlutverk og geti komið í veg fyrir að menn lendi framvegis í hliðstæðum greiðsluerfiðleikum og þeim sem menn hafa lent í á undanförnum árum.

Nefndin tók einnig til umfjöllunar núgildandi 12. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins. í henni er kveðið á um lánsrétt hjá Byggingarsjóði ríkisins. Nefndin telur að takmarkanir á lánsrétti sem byggja á ófullnægjandi aðild fólks að lífeyrissjóðum séu mjög erfiðar í framkvæmd. Hún beinir þeim tilmælum til lífeyrissjóða og aðila vinnumarkaðarins að þeir taki þessi ákvæði til endurskoðunar. Í þessu sambandi vill nefndin sérstaklega benda á lánsrétt hjóna, sambýlisfólks, námsfólks og þeirra sem eru að afla eftir- og endurmenntunar. Nefndin varar jafnframt við ákvæðum um skilyrðislausa tveggja ára aðild að lífeyrissjóði til að öðlast lánsrétt.

Reglur um veð og veðhæfni íbúðarhúsnæðis komu einnig til umræðu í nefndinni. Í 3. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins er fjallað um að lán eða lánshlutar skuli að fullu fylgja breytingum á vísitölu byggingarkostnaðar. Nefndin er þeirrar skoðunar að almenna reglan um veð og veðhæfni skuli vera sú að lán skuli ekki vera hærri en 70% af brunabótamati en þó aldrei hærri en 90% af kaupverði.

Af gefnu tilefni fjallaði nefndin um verðtryggingu lánveitinga og leggur áherslu á þá afstöðu sína að lán og lánshlutar séu verðtryggð lögum samkvæmt fram til greiðsludags án tillits til þess hvort um sé að ræða lán til nýbyggingar eða íbúðarkaupa.

Þá fjallaði nefndin um lánsrétt námsmanna. Í nál. kemur fram að ljóst sé að námsmenn, sem greiða ekki einhverra hluta vegna samfleytt til lífeyrissjóðs á meðan á námi stendur, eiga ekki lánsrétt er námi lýkur. Það er álit nefndarinnar að kveða þurfi skýrar á um þennan lánsrétt. Hún er sammála um að lánsréttur þeirra sem stunda fullt nám eigi ekki að rofna vegna sumarleyfa eða hliðstæðra ástæðna. Nefndin telur að jafnframt þurfi að hyggja að rétti þeirra námsinanna sem ekki taka námslán og greiða þar af leiðandi ekki í lífeyrissjóð.

Í nál. kemur fram að við endurskoðun og breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins vorið 1986 virðist fyrst og fremst hafa verið miðað við að breyta lánskjörum einstaklinga. Nefndin er sammála um að lánskjörum félagasamtaka þurfi að breyta til samræmis við þau kjör sem einstaklingum er nú boðið upp á.

Þá tók nefndin til umfjöllunar reglur um stærðarmælingar íbúðarhúsnæðis. Í nál. kemur fram að Iðntæknistofnun hafi samþykkt að staðallinn ÍST-50 verði notaður við stærðarmælingar frá og með 1. des. s.l. Nefndin mælir eindregið með því að Húsnæðisstofnun ríkisins noti þennan staðal. Hún vill jafnframt vekja athygli á því að stærðarreglur voru felldar úr gildi 1980 vegna þess að talið var að þær hefðu óæskileg áhrif á byggingarhætti þegar reynt er að sniðganga reglur. Nefndin telur nauðsynlegt að athuga hvort núgildandi reglur geti haft slíkt í för með sér.

Nefndin tók til umfjöllunar lánsrétt þeirra sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð og nýta sér lánsrétt sinn ekki til fulls. Hún er sammála því að næsta umsókn frá umsækjanda, sem hafi fengið lán sem er lægra en 70% af hámarksláni vegna þess að keypt er lítil og ódýr íbúð, skuli hljóta sömu meðferð og umsóknir frá þeim sem eru að kaupa eða byggja í fyrsta skipti, þó ekki varðandi forgangsröð í tíma þar sem viðkomandi hefur þó húsaskjól eða á íbúð. Með þessu móti telur nefndin að tryggt sé að hver húsnæðiskaupandi eða -byggjandi eigi eitt sinn kost á fullu láni og þar með sé ekki lengur fyrir hendi sú óbeina hvatning sem sumum virðist vera í því að nýta sér lánsrétt sinn til fulls með því að kaupa dýrari og stærri íbúðir en e.t.v. er þörf á eða ástæða er til þegar ungt fólk er að festa sér húsnæði í fyrsta skipti.

Nefndin telur nauðsynlegt að vekja athygli á heimildarákvæði um skerðingu á lánsrétti sem var í 5. málsgr. 13. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 60/1984. Samkvæmt henni var húsnæðismálastjórn heimilt að hafna eða skerða lánveitingar til umsækjenda sem áður hafa fengið fullt lán hjá Byggingarsjóði ríkisins eða Byggingarsjóði verkamanna og eiga íbúð sem talist getur fullnægjandi að dómi húsnæðismálastjórnar. Í núgildandi lögum er þessi heimild til skerðingar felld niður á þetta atriði vildi nefndin benda sérstaklega.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom einnig nokkuð inn á þetta í ræðu sinni fyrr í þessari umræðu. Mitt álit er að hér sé veruleg hætta á því að Húsnæðisstofnunin þurfi að veita lán lögum samkvæmt því fólki sem í mörgum tilfellum hefur ekki brýna þörf fyrir slíka fyrirgreiðslu af opinberri hálfu.

Hér held ég að sé nauðsynlegt að líta á málið og kanna hvort ekki sé ástæða til að gera á þessu breytingar. En ég ítreka að um þetta atriði eins og svo mörg önnur sem rætt var um við húsnæðisnefnd ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins, sem samdi frv. að núgildandi lögum, varð ekki samkomulag. Það varð ekki samkomulag um að breyta þessu atriði eins og ég hygg þó að ýmsir hafi bent á, m.a. fulltrúar úr milliþinganefndinni, þegar við áttum sameiginlega fundi með henni.

Sumt af ábendingum nefndarinnar sem ég hef hér á undan gert grein fyrir og nefndin varð sammála um er þegar komið fram í frv. hæstv. félmrh. til breytinga á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það er óþarfi að tíunda þau atriði frekar. Um það geta menn lesið sér til í frv. Þar er þó fyrst og fremst um að ræða nokkrar tæknilegar lagfæringar sem allir voru sammála um að yrðu að koma fram. En ég ítreka það enn og aftur að í viðræðum við þá aðila sem lögðu drög að þessu nýja húsnæðislánakerfi í kjarasamningunum fyrir u.þ.b. ári var ávallt varað við því að gera verulegar breytingar á lögunum á þessu stigi. Það hefur enn komið fram frá þeim aðilum að þeir vilja fyrst og fremst að gerðar séu þær breytingar sem menn telja tæknilega nauðsynlegar en ekki neinar stórvægilegar eða verulegar efnisbreytingar fyrr en frekari reynsla hefur fengist af framkvæmdinni.

Það er ljóst af nál. að verulegur skoðanamunur var innan nefndarinnar varðandi félagslega hluta íbúðalánakerfisins. Beinar tillögur nefndarinnar um þennan hluta húsnæðislánakerfisins eru fáar. Nefndin tekur þó undir sjónarmið sem fram koma í tillögum Þroskahjálpar og telur að endurskoða þurfi lagaákvæði í því sambandi. Í nál. kemur fram að meginkrafa fulltrúa Þroskahjálpar er að þeim einstaklingum sem eru fatlaðir verði gert kleift að búa á eigin heimili við aðstæður sem séu sambærilegar við heimili annarra um íbúafjölda og aðgengi.

Nefndin kynnti sér aðrar tillögur Þroskahjálpar varðandi húsnæðismál fatlaðra. Meðal þess sem þar kemur fram er að fötluðum verði gert kleift að stofna húsnæðissamvinnufélög um sambýli. Óskað er eftir því að ákvæði um hámarkslán í félagslega húsnæðislánakerfinu gildi einnig um kaup á eldra húsnæði sem uppfylli eðlilegar gæðakröfur. Þá er sett fram það markmið að stefnt skuli að því að húsnæði fatlaðra verði fjármagnað 100% með opinberum lánveitingum á sömu kjörum og gilda um félagslegt íbúðarhúsnæði.

Einnig fjallaði nefndin um þarfir öryrkja og aldraðra fyrir húsnæði. Í nál. kemur fram að hún er þeirrar skoðunar að fatlaðir og samtök þeirra skuli hafa möguleika á lánum á bestu mögulegum kjörum. Í því sambandi telur nefndin rétt að ítreka álit meiri hluta félmn. sem húsnæðismálastjórn hefur tekið undir með bókun dags. 26. maí 1986, en þar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Byggi félagasamtök eða sveitarfélög verndaðar þjónustuíbúðir fyrir aldraða eða öryrkja í skipulögðu hverfi eða háhýsi en í tengslum við þjónustu- og öryggismiðstöð skal Byggingarsjóður verkamanna lána til slíkra íbúða svo sem gert er til verkamannabústaða. Skilyrði slíkra lána er að íbúðir þessar verði notaðar fyrir elli- og örorkulífeyrisþega á meðan sjóðurinn á veð í viðkomandi íbúð.“

Herra forseti. Ég hef hér gert nokkra grein fyrir ýmsum atriðum í áliti milliþinganefndarinnar um húsnæðismál. Í áliti nefndarinnar er fjallað ítarlega um starf hennar og þær tillögur sem hún hefur orðið sammála um að setja fram og hér hafa verið tíundaðar. Einnig eru reifaðar hugmyndir sem komu fram innan nefndarinnar um einstaka þætti húsnæðismála. Þar eru kynntar nokkrar hugmyndir og tillögur í sambandi við fjármögnun húsnæðislánakerfisins. Á sama hátt eru einnig kynntar hugmyndir um félagslega hluta íbúðarlánakerfisins, t.d. búseturéttaríbúðir og kaupleiguíbúðir. Þessir þættir eru, eins og ég hef áður sagt, hugmyndir einstakra nefndarmanna sem ræddar voru í nefndinni og samkomulag varð um að láta koma fram í nál. þó að þær væru ekki skoðaðar sem sameiginlegt álit nefndarinnar í heild.

Ljóst er að með þessum breytingum, sem nú hafa verið gerðar á húsnæðislánakerfinu, hefur verulega dregið saman með byggingarsjóðunum, þ.e. Byggingarsjóði ríkisins annars vegar og Byggingarsjóði verkamanna hins vegar. M.a. af þeim ástæðum hafa komið fram hugmyndir um einn byggingarsjóð með auknum sveigjanleika til að takast á við þau verkefni sem Húsnæðisstofnuninni ber að sinna. Ég held að slíkt fyrirkomulag gæti leitt til mikillar einföldunar og hagræðingar og auðveldað alla starfsemi stofnunarinnar. Það er ekki með því verið að segja eða gefa í skyn að draga eigi úr byggingu fyrir þá sem lökust hafa kjörin eða að með þessu sé verið að ráðast á nokkurn hátt á félagslega íbúðarlánakerfið heldur lít ég svo á að með þessu móti væri hægt að koma við auknum sveigjanleika. Það ætti t.d. að taka upp heimild til að breyta vaxtaákvæðum þannig að íbúð sem eitt sinn er lánað út á með 1% vöxtum þurfi ekki að vera svo um alla framtíð eða svo lengi sem lánstíminn varir heldur séu heimildir til að hækka vextina í þá upphæð sem almennt gildir um lán úr Byggingarsjóði ríkisins ef aðstæður breytast hjá lántakendum.

Hvað hugmyndir um kaupleiguíbúðirnar varðar virðist mér að áhugi sveitarstjórnarmanna á þeim hugmyndum sé fremur takmarkaður. Nefndinni bárust bréf frá nokkrum sveitarstjórnum með athugasemdum sem þær vildu koma á framfæri við nefndina, en ég minnist ekki í nokkru tilviki að þar hafi verið lýst sérstökum áhuga eða undirtektum við hugmyndir um kaupleiguíbúðir. Þar var hins vegar bent á að þörf væri fyrir leiguíbúðir í hinum ýmsu sveitarfélögum og auðvitað kemur það einnig fram í þeirri könnun á þörf fyrir leiguhúsnæði, sem Húsnæðisstofnunin stóð fyrir síðari hluta s.l. árs og hefur verið gefin út í skýrsluformi, að það þarf að byggja leiguhúsnæði til að fullnægja íbúðaþörf víða á landinu.

Varðandi fsp. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um hvort nefndinni hafi borist bréf frá starfsmannafélaginu Sókn, verkakvennafélaginu Framsókn og Framtíðinni í Hafnarfirði, þar sem m.a. sé mælt með byggingu kaupleiguíbúða og því beint til milliþinganefndarinnar að leggja til við félmrh. að þetta kaupleigufyrirkomulag verði tekið upp, skal því svarað að þessa ályktun hafði nefndin undir höndum og greint var frá því á nefndarfundi að þessi ályktun hefði borist. (JS: Var hún lesin?) Það þori ég ekki að fullyrða, hv. þm., að hún hafi verið lesin upp, en hún var alla vega lögð fram. Ályktun þessi er ódagsett og henni fylgdi ekkert sérstakt bréf til nefndarinnar og ég verð að játa það hreinskilnislega að það er ekkert sem segir til um það hvaðan þetta bréf barst nefndinni, hvort það kom sem afrit frá ráðherra til nefndarinnar eða hvort það kom frá einhverju þessu félagi sem stóð að þessari ályktun, því að það fylgdi þessu ekkert tilskrif. Það kann að vera að umslagið, sem þetta bréf var í, hafi verið merkt einhverju félaginu, en því miður hef ég ekki haldið því til haga og get þess vegna ekki gert nánari grein fyrir því hvaðan bréfið barst. Reyndar skiptir þetta ekki öllu máli.

Nefndinni bárust bréf og upplýsingar frá ýmsum aðilum sem lögð voru fram sem fylgiskjöl og skráð á skjalaskrá nefndarinnar og það var auðvitað hverjum og einum nefndarmanni frjálst að taka þau upp eða taka þau til sérstakrar umfjöllunar á fundum nefndarinnar hafi hann haft áhuga á slíku, en ég man ekki eftir því að slíkt hafi komið upp hvað þessa ályktun varðar sérstaklega, utan þá áherslu sem einn ágætur nefndarmaður sérstaklega lagði á kaupleiguíbúðaformið almennt.

Þeir hv. þm. sem tekið hafa þátt í umræðunni hér á undan gerðu sumir að umræðuefni nál. félmn. Nd. Alþingis og þau tilmæli sem í því áliti var beint til milliþinganefndarinnar. Ég fullyrði að í þessu nál. og í þeim punktum sem ég hef rakið úr nál. er tekið á mörgum þeim atriðum sem beint var til nefndarinnar og afstaða nefndarinnar kemur ljóslega fram hvað flesta þessa þætti varðar. Ég minni einnig á að nú þegar hefur verið lagt fram frv. til laga um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins hvað ýmsa þessa sömu þætti varðar.

Um þær fullyrðingar, sem komu fram hjá einstökum hv. þm., að það hefði verið einhver kvöð á þessari milliþinganefnd að hún ætti að skila tillögum til ráðherra á s.l. hausti svo fljótt að hægt væri að leggja fram frv. fyrir þetta þing vil ég aðeins segja það að slík tilmæli geta aldrei orðið nein skylda og ég ítreka það enn og endurtek að það hafi verið samkomulag í nefndinni um hvernig að þessum málum skyldi staðið þó svo að einstakir nefndarmenn kunni að hafa viljað ganga þannig frá að nefndin semdi drög að lagafrv. En það er minn skilningur að ekki sé hægt að skikka nefnd, sem er að störfum, til að skila tillögum um lagafrv. sé hún alls ekki sammála um að leggja slíkt frv. til.

Á hinn bóginn tel ég að í þessu nál. séu margar hugmyndir sem geta komið til góða þegar og ef menn telja nauðsynlegt að gera frekari breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og margvíslegum upplýsingum hefur verið safnað sem ættu að vera tiltækar handa þeim sem þá kunna að vinna slíkt verkefni. Því fullyrði ég að nefndarstarf þetta hafi þrátt fyrir allt verið til mikils gagns. Og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka mínum meðnefndarmönnum öllum fyrir ágætt samstarf og vilja til að vinna sem best að þessu verkefni og geri ég þar engan greinarmun á fulltrúum stjórnar eða stjórnarandstöðu þó svo að einstaka hv. þm. hafi reynt að draga hér fram og skerpa þar skil á milli með málflutningi sem mér fannst meira líkjast því að hv. þm. væru komnir á kosningafund heima í sínum kjördæmum.

Hvað varðar umræður þær sem hér hafa spunnist um fjárhagslega stöðu húsnæðislánakerfisins og þá miklu eftirspurn sem óneitanlega er nú eftir lánum hlýt ég að verða að láta það álit mitt koma fram að stórhækkað lánshlutfall hefur vissulega haft áhrif til verulega aukinnar eftirspurnar eftir lánum svo og aukin bjartsýni í þjóðfélaginu, bættur þjóðarhagur og aukinn kaupmáttur einstaklinga. Allt hefur þetta verkað á þann veg að það eru miklu fleiri aðilar sem nú eru tilbúnir til þess að takast á við það verkefni að byggja eða kaupa sér íbúðir. Þessar ástæður hafa eðlilega leitt til þess að umsóknum hefur fjölgað mjög verulega og stórhækkað lánshlutfall, úr 15-30% í 60-70% af kaupverði íbúða, hlýtur einnig að leiða til þess að nú um sinn þrengist um fjárhag Húsnæðisstofnunarinnar og biðlistar lengjast. Á móti verður hins vegar að hafa í huga að lánsloforðin eru bindandi með ákveðnum dagsetningum og verðtryggð þannig að auðveldara er fyrir væntanlega lántakendur að gera áætlanir fram í tímann sem eiga að geta staðist.

Ég álít hins vegar að þetta muni leita jafnvægis aftur. Það er auðvitað erfitt að ætla að byggja upp húsnæðiskerfi sem getur svarað þeim toppum sem hugsanlega kunna að koma eins og nú hefur ljóslega orðið. Við þurfum auðvitað að setja okkur eitthvert markmið í því efni, hvað t.d. eigi að byggja margar íbúðir á einu ári, og gera ráð fyrir því að hið opinbera húsnæðislánakerfi geti svarað þeirri þörf sem teljast verður eðlileg. En að leyfa sér að fullyrða að húsnæðislánakerfið sé sprungið nú þegar, þó að svona toppur komi og gangi yfir okkur, finnst mér vera óábyrgt og algjörlega út í hött og aðeins sett fram af þeim hv. þm. sem þannig tala til að ala á tortryggni, úlfúð og óánægju og til að skapa sér einhverja pólitíska stöðu til að koma höggi á hæstv. félmrh. og gera lítið úr þeim margvíslegu lagfæringum og breytingum sem hann hefur komið fram til úrbóta á húsnæðislánakerfinu og til bóta fyrir húsnæðiskaupendur og húsnæðisbyggjendur sem svo sannarlega eiga eftir að njóta þessa nýja kerfis á næstu árum.

Ég vil að lokum segja það, herra forseti, vegna spurningar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um álit aðila vinnumarkaðarins og þörf á reynslu af nýja húsnæðislánakerfinu áður en gripið yrði til róttækra breytinga, þessari spurningu varpaði hv. þm. reyndar ekki eingöngu til okkar nefndarmanna eða hæstv. ráðh. heldur einnig til hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, að það er alveg ljóst að þannig var álit þessara aðila þegar þeir komu sem viðmælendur til milliþinganefndarinnar. Fulltrúar stjórnarflokkanna í milliþinganefndinni lögðu áherslu á að ný lög um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem sett voru í apríl 1986, voru sett í framhaldi af kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins sem undirritaðir voru í febrúar það ár. Nýjar útlánareglur tóku gildi 1. sept. s.l. og með gildistöku þeirra stórhækka lán til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði og lánstími lengist verulega. Það er því skoðun fulltrúa stjórnarflokkanna að nauðsynlegt sé að fá nokkra reynslu af hinu nýja útlánakerfi áður en lagt er til að því verði breytt í veigamiklum atriðum.