24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3442 í B-deild Alþingistíðinda. (3059)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Nokkur orð í tilefni þess sem fram kom hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. og hv. 2. þm. sama kjördæmis.

Það kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að sveitarfélögin hefðu ekki mikinn áhuga á kaupleiguíbúðum. Það er rétt að tveir fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga komu á fund nefndarinnar og sýndu ekki mikinn áhuga fyrir þessu máli en tóku það jafnframt fram að þeir hefðu alls ekki kynnt sér það. Meira var nú ekki að marka það. Þeir vildu auðvitað helst fá mikil og löng lán til bygginga leiguíbúða, helst 95% með 1% vöxtum til 40 ára. Rökin voru þau helst að sveitarfélögin verði að sinna þeim sem eru of tekjulágir og of eignalitlir til að geta notfært sér kjör verkamannabústaðakerfisins. Það er út af fyrir sig rétt, en leigjendur sveitarfélaga eru þó af ýmsum toga, a.m.k. sveitarfélaga úti á landi. Það eru ekki allir sem eru svona illa á sig komnir.

Um bréfið, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. gat um frá Verkakvennafélaginu Framsókn, Starfsmannafélaginu Sókn og Verkakvennafélaginu Framtíðinni í Hafnarfirði, er það að segja að það var aldrei lagt fyrir nefndina. Ég hafði þó spurnir af þessu bréfi og spurði formanninn um það á fundi hvort það hefði borist. Þá kannaðist hann við það og kannaðist við efni þess í grófum dráttum en sjálfur hef ég ekki fengið að sjá það eða aðrir nefndarmenn fyrr en nú í kvöld. Ég fékk ljósrit af því. Hitt er annað mál að hv. þm. gaf mér nokkuð fullnægjandi skýringu á því hvernig þetta hafði farið, alla vega er það ekki hæstv. félmrh. að kenna.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. kom víða við. Ég er ánægður með að heyra það að hann viðurkennir nú að meira þurfi að gera fyrir greiðsluerfiðleikahópinn svokallaða en gert var s.l. vetur og s.l. vor. Það viðurkenndi hann ekki í milliþinganefndinni og vildi alls ekki standa að neinni tillögu í þá átt.

Hv. þm. gerði mikið úr erfiðleikum sveitarfélaga við að fjármagna kaupleiguíbúðir. Því er til að svara að sveitarfélögin hafa nú þegar verulegan kostnað af íbúðarbyggingum og íbúðareignum auk þess sem gert var ráð fyrir því í þáltill. að sérstök lánafyrirgreiðsla verði veitt sveitarfélögunum fyrstu tvö ár gildistíma laganna. Þar við bætist, eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv., að gert er ráð fyrir að margir aðrir aðilar komi inn í myndina, samstarfsaðilar sveitarfélaga. Það geta t.d. verið stéttarfélög, starfsmannafélög, lífeyrissjóðir, byggingarsamvinnufélög o.s.frv. Og auðvitað minnkar fjármögnunarþörf sveitarfélaganna að sama skapi.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. spyr um afstöðu aðila vinnumarkaðarins, hvort ekki sé verið að brjóta samninga á þeim o.s.frv. með tillöguflutningi um kaupleiguíbúðir og yfirleitt um breytingar á núverandi lögum. Hann hefur alltaf haft það sem afsökun eða notað það sem átyllu til að neita öllum tillögum að verið væri að brjóta samninga. Því er til að svara að mínu mati að við gerð samninganna í febrúar í fyrra var félagslega kerfið, sem svo er kallað, skilið eftir að mestu leyti. Ætlunin var, það heyrði ég hjá mörgum verkalýðsforingjum a.m.k., að skoða það kerfi betur í heild, betur en þá var tóm til vegna skorts á tíma.

Könnun, sem hæstv. félmrh. lagði fyrir Alþingi nú fyrr í vetur, sýnir að þörf sé á 2500-3000 leiguíbúðum fram til ársins 1990. Hv. 2. þm. Norðurl. e. neitar að ræða lausn þessa máls, hvað þá að fallast á tillögur til úrbóta. Hann neitar að ræða þetta. Hv. þm. segir að Alþfl. hafi lagt til að verkamannabústaðakerfið verði lagt af. Það er ekki rétt. Hins vegar býst ég við að ýmsir vilji vera með í kaupleiguíbúðum sem annars eiga rétt til þátttöku í verkamannabústaðakerfi þannig að þess vegna muni draga úr eftirspurn eftir íbúðum á grundvelli verkamannabústaðalaganna. En hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur neitað að ræða félagslega kerfið og ber fyrir sig aðila vinnumarkaðarins.

Mestum hluta spurninganna sem hv. þm. lagði fram er svarað í þáltill. Alþfl. eins og kom fram hjá hv. 2. landsk. þm. Þar er þessum spurningum öllum svarað svo annaðhvort hefur hv. þm. ekki lesið plaggið sem hann er nú alltaf að rífast út af, eða þá hann er búinn að steingleyma því. Þar er talað um áætlaðan fjölda íbúða, þar er talað um áætlaða fjármögnun o.s.frv. Auðvitað er ekki um nettóaukningu fjárþarfar til byggingarlána að ræða. Þar er fyrst og fremst um aukna valkosti fólks að ræða og aukna möguleika fyrir hundruð manna, tugi eða hundruð manna og kvenna sem hafa fengið eða koma til með að fá neitun um lán hjá húsnæðismálastjórn ríkisins vegna þess að tekjur og eignir eru ekki taldar duga fyrir afborgunum og vöxtum af lánum. Þessu fólki verður að liðsinna öðrum fremur og þar koma kaupleiguíbúðirnar mjög sterklega inn í myndina.

Herra forseti. Ég læt í ljós miklar áhyggjur af stöðu húsnæðislánakerfisins til frambúðar. Það hefur margoft verið sýnt fram á að bein framlög ríkissjóðs verði að vera minnst 33% ef við ætlum ekki að éta okkur út á gaddinn. Til þess þyrfti að auka framlög ríkissjóðs á þessu ári um 400 millj. Í reynd eru nákvæmlega sömu rök nú og voru 1984, þegar þáverandi lög voru sett, um nauðsyn þess að framlög ríkissjóðs verði aldrei minni en 40% af útlánum. Það er nú sami vaxtamunur og þá á veittum og teknum lánum og til þess þyrftu, ef við ætlum að miða við þessi 40% sem voru sett í lög 1984, framlög ríkissjóðs í ár að hækka um 700 millj. kr.

Ef ekki tekst í mesta góðæri Íslandssögunnar að standa við slík takmörk, hvað þá í venjulegu árferði, að maður ekki tali um krepputíma? Hæstv. félmrh. hefur sagt að engin ástæða væri til að ætla að ekki verði á næstu árum stórhækkun ríkisframlaga til að ná þeim mörkum sem ég var að tala um til húsnæðislánakerfisins. Á næstu árum, bara ekki nú. Sama segir hæstv. samgrh. í vegáætlun, í hafnaáætlun, í flugmálaáætlun. Eintómar ávísanir á framtíðina og það í þessu mikla góðæri.

Hæstv. ráðh. sagði að Alþfl. hafi ekki komið með tillögur um fjármögnun kerfisins. Það er ekki rétt. Alþfl. hefur hvað eftir annað á undanförnum árum lagt fram ítarlegar tillögur í þessum efnum og reyndar verið skammaður fyrir af formanni Sjálfstfl. Alþfl. er reyndar eini flokkurinn sem hefur lagt fram slíkar tillögur og hefur gert það mörgum sinnum á undanförnum árum.

Hæstv. ráðh. sagði að ýmsir kratar hafi unnið að áætlunum um þörf fyrir leiguíbúðir og vildi meina að þess vegna væri ekki að marka niðurstöður þeirrar áætlunar sem hann sjálfur lagði fram á hinu háa Alþingi fyrir nokkrum mánuðum. Hæstv. ráðh. virðist sjá krata í hverju horni og er það mér mikil ánægja.

Það hefur verið sagt um þá kynslóð sem nú er á miðjum aldri að hún hafi étið upp sparifé foreldra sinna með neikvæðum vöxtum. Nú er þessi sama kynslóð einnig að éta börnin sín út á gaddinn með því að velta yfir á þau uppsöfnuðum vanda vegna vaxtamismunar tekinna og veittra lána húsnæðislánakerfisins og það í mesta góðæri Íslandssögunnar.

Að lokum, herra forseti. Mér finnst það mjög miður að milliþinganefndinni skyldi ekki takast að skila af sér heildstæðum tillögum um fjárhagsgrundvöll til frambúðar, um félagslega kerfið, um viðunandi lausn fyrir greiðsluvandahópinn svokallaða og margt fleira. Mér þykir það mjög miður að nefndinni skyldi ekki takast betur en raun varð á að gera það sem hið háa Alþingi fól henni.