24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3455 í B-deild Alþingistíðinda. (3063)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Þessi umræða er orðin æðilöng og ströng, en það ber m.a. til að það tala hér menn dálítið hver um annan þvert, sérstaklega þegar á að túlka þær upplýsingar sem fyrir liggja í þessu máli. Ég held að þær ásakanir sem komið hafa fram í garð ráðherra um að hann hafi ekki sinnt sinni upplýsingaskyldu eins og vera bar hafi í raun og veru í engu verið hraktar. Ég ætla mér að vitna beint til hans ummæla þar sem hann beindi einna harðast skeytum sínum að hv. 5. þm. Reykv. þar sem 5. þm. Reykv. lagði út af blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu í dag, að ég held. Þar greindi Stefán Ingólfsson frá því hvernig hann taldi að þær áfangaskýrslur, sem hann og fleiri unnu að, hefðu ekki nýst sem skyldi í undirbúningsvinnunni að húsnæðislagafrv. Ég tel ekki að hæstv. ráðh. hafi með sínum gífuryrðum í garð 5. þm. Reykv. í raun hrakið þann málflutning nokkuð.

Fyrst er þar til að taka að það eitt er ekki nóg þó haldnir séu blaðamannafundir um skýrslur, hvaða efni sem þær kunna að innihalda. Skýrslur eru eins og allir vita samansafn ákveðins fróðleiks og upplýsinga og þarf að lesa í þær skýrslur til að vinna úr þeim það efni sem nota þarf hverju sinni. Sumar þessara skýrslna, eins og t.d. fimmta áfangaskýrslan um fjármögnun fasteigna, eru mjög tyrfið efni og ekki nema á valdi mjög sérfróðra manna að túlka innihaldið eftir því hvaða verkefni var verið að fjalla um hverju sinni. Þá á ég við að túlka t.d. innihaldið í ljósi frumvarpsdraganna sem lágu fyrir við gerð húsnæðislaganna nýju. Þó að haldnir hafi verið blaðamannafundir um þessar skýrslur þegar þær voru gerðar til að kynna að sú vinna væri í gangi voru þessar skýrslur aldrei gefnar út. Þeim var að vísu dreift til blaðamanna, en þær voru ekki gefnar út opinberlega. Þeim var líka dreift til milliþinganefndarinnar. Hún fór fram á það. Ráðherra aflaði henni allra þeirra gagna sem fyrir lágu um húsnæðismál og þessar skýrslur fylgdu þar með eins og margt annað. En það þýðir ekki það sama og að nefndin hafi getað gert sér þann mat úr þessum skýrslum sem skyldi því að í henni sátu ekki sérfróðir menn í húsnæðismálum eða um fasteignamarkað nema þá að mjög litlu leyti. Upplýsingaskylda opinberra yfirvalda er ekki eingöngu skylda um að opinbera eða dreifa því upplýsingaefni sem hún lætur vinna. Upplýsingaskyldan felst fyrst og fremst í því að skilgreina þýðingu þeirra staðreynda sem fram koma í slíkum skýrslum. Það er það sem verið er að gagnrýna, hæstv. ráðh.. þegar fullyrt er að frv. sem við erum að fjalla um öðrum þræði meðfram skýrslu milliþinganefndarinnar hafi verið byggt á fölskum forsendum að því leyti að menn tóku ekki t.d. áfangaskýrslurnar og unnu úr þeim þær upplýsingar sem leitt hefðu til þess að menn hefðu getað séð fyrir fram í hvað stefndi. Þegar menn eru að gagnrýna þetta og gagnrýna þá m.a. þá fjárvöntun sem virðist við blasa í lánamálum Húsnæðisstofnunar eru menn að gagnrýna að þessa hluti hefðu menn getað séð fyrir og hefðu þá hugsanlega sparað sér að einhverju leyti stóru orðin þegar frv. var afgreitt.

Ég tel heldur ekki, þó að opinber starfsmaður sé fenginn til þess að kenna á einhverju námskeiði á vegum félmrn. fyrir blaðamenn, að í því hafi falist það að sinna upplýsingaskyldu hvað þessu máli viðvíkur því að ráðherrann veit eins vel og ég veit núna, eftir að hafa kynnt mér það, að þetta efni, sem hér var nefnt og er nefnt í blaðagreininni, var þar ekki námsefni nema í framhjáhlaupi.

Það má nefna það líka m.a. í þessu samhengi að áfangaskýrslurnar og innihald þeirra bentu til að áhrif frv. yrðu m.a. þau að breyta mjög lánastefnu sjóðsins að því leyti að hingað til hefur lánsfé sjóðsins aðallega beinst til nýbygginga, en í dag beinist það að miklum meiri hluta til inn á fasteignamarkaðinn sjálfan, þ.e. til kaupa á notuðu húsnæði. Það er staðreynd að þeir menn sem um málefni lánasjóðsins fjalla hafa miklu minni þekkingu á þeim viðskiptum en þeir höfðu á nýbyggingum. Því gerir hver maður sér grein fyrir að það þarf allt aðra þekkingu og allt öðruvísi sérfræðinga til að fjalla um málefni fasteignaviðskipta en þarf til að fjalla um málefni nýbygginga.

Í sem allra stystu máli má taka þetta saman í það að í þeim skýrslum sem hér eru til umræðu var einfaldlega falin vitneskja sem ekki verður séð nema við lestur sérfróðra manna og ráðuneytið eða ráðherrann brugðust skyldu sinni í að leiða þessar staðreyndir fram í dagsljósið þegar verið var að fjalla um frv. á þingi. Til að mynda veit ég að sá maður sem þessa grein skrifaði, sem hér var til umræðu, Stefán Ingólfsson, var ekki kallaður til viðræðna við nefndir þingsins fyrr en að tilhlutan hv. 2. landsk. þm. þegar málið var hér í nefnd.

Ég held að menn þurfi ekki að deila um að það hafa komið miklu fleiri gallar fram á þessum nýju lögum en þeir sem ráðherrann ætlar að leiðrétta í frv. sem lagt hefur verið fyrir þingið og er 318. mál Nd. Þeir smávægilegu tæknilegu ágallar sem því frv. er ætlað að leiðrétta skipta ekki sköpum um framtíð lánasjóðsins eða framtíð lánamála húsnæðis hér á landi. Aftur á móti er greinilegt af ræðu ráðherra að hann mun ekki á neinn hátt sjá sig knúinn til að skoða lögin með tilliti til að sníða af þeim þá alvarlegu vankanta sem þegar eru komnir í ljós öðruvísi en til komi krafa verkalýðshreyfingarinnar og aðila vinnumarkaðarins. Hann leggur svo mikla ofuráherslu á að þetta frv. og þessi lög séu samin af aðilum vinnumarkaðarins og eingöngu nánast flutt á þingi af ríkisstjórn og ráðherrum að það er bersýnilegt að hann mun ekki láta sér segjast fyrr en aðilar vinnumarkaðarins og þá sérstaklega verkalýðshreyfingin krefjast þess að leiðréttir verði þeir stóru gallar sem þegar hefur verið bent á.

Það er vissulega gífurlega stór galli á þessum lögum þegar ljóst verður að þeir sem standa undir lánasjóðnum eiga ekki jafnan rétt til lána á við aðila sem jafnvel alls ekki eiga neina aðild að þessum lánasjóði, ekki nema að mjög litlu leyti, alla vega að hverfanda hluta til miðað við hinar stóru hreyfingar t.d. Verkamannasambandsins og Iðjufólks. Það hlýtur að verða einhvern tíma í mjög náinni framtíð athugað mjög gaumgæfilega hjá verkalýðshreyfingunni hvort ekki verði að fara fram á breytingar á þessum hlutum.

Auðvitað er líka réttlætismál fyrir landsbyggðarfólk að það geti raunverulega gengið til jafns að lánum í þessum sjóði við aðra landsmenn. Auðvitað er engin hæfa að horfa upp á það að helmingur af lífeyrissjóðsgreiðendum úti á landsbyggðinni fer nánast varhluta af útlánum sjóðsins miðað við útlánafjöldann. Það er greinilegt að um helmingur lífeyrissjóðsgreiðenda úti á landi stendur beint undir um 25% af nýjum útlánum í Reykjavík. Þau nýtast þeim ekki. (GJG: Þetta er alrangt hjá þm.) Það er alls ekki alrangt. (GJG: Það er rangt.) Nei, langt frá því. (GJG: Þetta er ósæmilegt.) Það er alls ekki ósæmilegt. Ósæmilegt er þegar menn ekki ná til jafns rétti sínum hjá stofnun eins og húsnæðislánasjóði. (GJG: Hver er mismunurinn?) Hver er mismunurinn? Ég er að tala um að þau lög sem við erum að fjalla um hérna hafa haft þau áhrif t.d. á fasteignamarkaðinn að fasteignir fólks úti á landi eru nánast óseljanlegar og þar með eiga menn ekki í raun og veru innkomu í sjóðinn þegar þeir ekki geta notað rétt sinn til að kaupa eða selja. (GJG: Þetta er bara rugl.) Það er ekki rugl. (GJG: Algert rugl.) Hafið þið ekki fylgst með skýrslum sem komið hafa fram um það hvað hefur verið byggt og selt úti á landsbyggðinni undanfarið? Það má kannske skilja það hjá hv. 7. þm. Reykv. að hann viti það ekki. Hann er Reykvíkingur. En það er algerlega óskiljanlegt þegar hv. 2. þm. Norðurl. e. er sér gersamlega ómeðvitandi um hve litlar hreyfingar hafa verið bæði á fasteignamarkaði og í nýbyggingum úti á landi, sér það ekki í neinu samhengi við þessa nýju löggjöf sem núna liggur fyrir. Auðvitað er þar samhengi á milli sem menn geta ekki afneitað. Náttúrlega bera þessir menn svo mikla ábyrgð á þessu samhengi, á þessum afleiðingum að þeir vilja ekki kannast við það. (HBl: Það er allt rugl.) Það er afskaplega einfalt, hv. 2. þm. Norðurl. e. að kalla allt það sem menn segja rugl. En ég gæti ef ég vildi og sérstaklega ef ég hefði gleraugun mín með mér náð í þá ræðu sem hv. 2. þm. Norðurl. e. hélt við upphaf þessarar umræðu. Ég er ekkert í vafa um að það mundu margir menn gefa henni sömu einkunn og hann er að gefa mínu máli hér. En ég ætla ekki að fara í orðaskak við hann á þeim grundvelli eða á því plani. (GJG: Ég segi sjaldan rugl, en þetta er algert rugl.) Ég held að hv. 7. þm. Reykv. hafi alveg aðstöðu til þess og möguleika að koma í ræðustól og hrekja það að sú löggjöf sem við erum að tala um hérna hafi gersamlega fryst byggingar- og fasteignaviðskiptaástand úti á landi og að þeir fjármunir sem þar ættu að vera á ferðinni í þeim viðskiptum eru á ferðinni hér í Reykjavík og koma því fólki þar ekki á nokkurn hátt til góða. Því miður var þessu ástandi spáð þegar þetta frv. var hér til umræðu, að slíkt mundi gerast, og þá kölluðu menn það líka rugl.

Ég vil að lokum, herra forseti, taka undir orð hv. 2. landsk. þm. Ég tel það mjög mikinn ábyrgðarhlut ef það er satt og ef það er rétt að innan Húsnæðisstofnunar, í stjórn Húsnæðisstofnunar sé á ferðinni einhver skýrsla um ástand húsnæðismála sem við megum ekki líta augum og sem þeim fulltrúum, sem kjörnir eru á löggjafarþingi af okkur, þeim fulltrúum sem við berum ábyrgð á, er gert að halda sem trúnaðarmáli og mega ekki sýna eða láta þm. í té, þeim mönnum sem bera ábyrgð á setu þeirra í þessari stjórn. Ég skora á hæstv. ráðh. að lyfta leyndinni af þessu plaggi. Ég trúi því ekki að þær staðreyndir sem þar eru á ferðinni séu svo ljótar að það sé ekki hægt að birta þær okkur og almenningi og létta þar með líka af því mjög svo óeðlilega ástandi að það fólk sem kosið er af okkur og við berum ábyrgð á þurfi að halda hlutum leyndum fyrir okkur sem við eigum alveg jafnmikinn rétt á og allir aðrir landsmenn að fá að sjá og heyra.