24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3461 í B-deild Alþingistíðinda. (3065)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hv. 2. landsk. þm. segir á stundum að ég eigi erfitt með að skilja hvað hann segir. Það fór nú fyrir mér svo í þetta skipti að ég tók ekki eftir því að hann véki nokkuð að því hvort hann vildi svara því tilboði mínu að við mundum í sameiningu athuga um þá lánsumsókn sem hann talaði mest um hér í sinni síðustu ræðu. Þá talaði hann um að fjögurra manna fjölskylda með 90 þús. kr. mánaðartekjur hefði ekki fengið lánsloforð eða fyrirgreiðslu í Húsnæðisstofnun til að kaupa 60 fermetra íbúð. Ég bauð þessum hv. þm. í ræðu minni fyrir helgi að ganga í það með henni að athuga þetta mál sérstaklega ef við fengjum heimild hjá viðkomandi til að athuga hans lánsumsókn. Auðvitað er ekki hægt að segja neitt til um efni hennar nema maður fái að sjá hana því það er trúnaðarmál og yrði trúnaðarbrot af Húsnæðisstofnun ef hún mundi sýna mér þær persónulegu upplýsingar sem fram koma í þeirri umsókn. En ef hv. þm. veit um hvaða einstakling þar er að ræða er ég reiðubúinn að ganga í það með honum að reyna að glöggva mig á því hvernig á þessu kunni að standa og þykist vita að ef málavextir eru jafneinfaldir og hér var skýrt muni leiðrétting fást, en það væri vissulega fróðlegt að fá um það upplýsingar.

Ég verð að biðjast afsökunar á því, herra forseti, að vitaskuld var ekki þinglegt að segja úti í þingsalnum rugl áðan undir ræðu sem hér var flutt, en ástæðan er sú að hv. þm. hélt því fram að svo hefði brugðið við eftir að nýja húsnæðislánakerfið tók gildi að það hefði fækkað umsóknum utan af landi. Nú hef ég í höndum yfirlit um þetta sem hæstv. félmrh. rakti í sinni upphafsræðu. Þar kemur fram, ef maður tekur nýbyggingar og eldri íbúðir í heild, og hér er um að ræða umsóknir sem inn komu frá 1. sept. til 31. des., að af þeim 1486 íbúðum sem höfðu veðstað, þessu er þannig skipt, voru 846 íbúðir eða 56,93% á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík og Reykjanesi, en á þessu landsvæði búa 59,88% íbúanna þannig að þarna er nokkur munur á. 59,88% íbúanna búa á þessu svæði, en þær umsóknir sem gerðu ráð fyrir veðstað, sem tilgreindu veðstað voru einungis 56,93%.

Varðandi Norðurland eystra, sem hv. þm. ræddi sérstaklega, háttar svo til um 12,7% allra umsókna, sem höfðu veðstað, að þær eru úr Norðurlandsumdæmi eystra en íbúarnir einungis 10,72% af heildarfjölda landsmanna þannig að það er greinilegt að þessi lög hafa haft það í för með sér að nokkur kippur hefur komið í fasteignamarkaðinn í Norðurlandi eystra. Það er að vísu rétt að enn liggur hlutur Norðurlands eystra eftir varðandi nýbyggingar. Það eru einungis 6,5% umsókna úr því kjördæmi þar sem sótt er um nýbyggingu, en þó 6,7% sem hafa veðstað. Þetta er þó hærri tala en maður hefði getað vænst miðað við fyrra ástand og ber það með sér að nokkur breyting er í rétta átt. Við skulum vona að framhald verði á því, en þær upplýsingar sem fyrir liggja gefa tilefni til að ætla að þessi breyting hafi valdið því að menn taki frekar við sér úti á landsbyggðinni en ella ef við getum m.ö.o. markað þær umsóknir fjóra síðustu mánuði s.l. árs þar sem veðstaður var tilgreindur. Hitt er auðvitað miklu flóknara mál að fara að giska á hve mikið af hinum umsóknunum séu alvöruumsóknir. Það treysti ég mér ekki til að dæma. Það kemur í ljós síðar, en eftir þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir virðist þetta blasa við.

Ég þarf að leiðrétta nokkur orð sem komu frá hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni sem ég kann nú ekki að ávarpa með þinglegum hætti, 5. landsk. þm. Hann sagði áðan að ég hefði verið á móti því í þeirri húsnæðisnefnd sem við störfuðum saman í að greiðsluerfiðleikalán héldu áfram. Þetta er ekki rétt. Ég man ekki betur en við hefðum gert um það samþykkt í nefndinni að taka það inn í okkar álit, en þegar ég fletti því áðan sá ég að það hefur fallið brott. Hins vegar sá ég í sérbókun þessa hv. þm. að hann hafði tekið setningu um það inn í sérálitið, en hann fór aldrei fram á að sú setning yrði sett inn í það heildarnefndaráliti sem kom. Það væri að gera öllum öðrum nefndarmönnum, bæði Kvennalista, Alþýðubandalags, framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum, rangt til að segja að þeir hafi verið þessu andsnúnir þó að það sé að sjálfsögðu bagalegt að slík mistök hafi átt sér stað. Ég verð að harma það, hæstv. ráðh., að svo skyldi hafa til tekist en við allir, nefndarmenn, hljótum að bera á því nokkra ábyrgð. Þessu til rökstuðnings skal ég benda á að í nál. er einmitt tilgreint í sérstakri töflu að þessar beiðnir um greiðsluerfiðleikalán vegna íbúðarkaupa hafa verið að koma inn að mig minnir alveg fram á þetta ár sem sannfærði okkur um það að þörf væri á slíkri fyrirgreiðslu á meðan gamla húsnæðislánakerfið væri í gildi. Ég held að við þurfum ekki að deila um þetta.

Ég verð að segja nokkur orð varðandi leiguíbúðir. Það má auðvitað leggja mér það til lasts að ég skyldi ekki fara mjög rækilega ofan í einstaka þætti allra húsnæðismálanna í minni ræðu fyrr við þessa umræðu og hefði ég kannske átt að gefa mér sæmilegan tíma í það skiptið. Ég vil minna á að á 106. löggjafarþingi 1983 var lagt fram frv. til laga um Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég átti sæti í þeirri nefnd sem samdi þetta frv. Þar var tekinn inn nýr liður við 33. gr. húsnæðislaganna svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Leiguíbúðir sem byggðar eru eða keyptar af sveitarfélögum og stofnunum á þeirra vegum og/eða ríkisins eða af félagssamtökum og ætlaðar eru til útleigu við hóflegum kjörum fyrir námsfólk, aldraða, öryrkja og aðra sem ekki hafa aðstöðu til þess að eignast eigið húsnæði við hæfi.“

Þessi grein var tekin inn við þetta frv. og ég var einn þeirra nefndarmanna sem sömdu frv. Áður hafði það verið svo að einungis sveitarfélög höfðu heimild til þess að fá fé úr Byggingarsjóði verkamanna. Ég held ég fari rétt með þetta. Er þetta ekki rétt munað? Þetta er 33. gr., það er hægt að fletta þessu upp. Í athugasemdum við 33. gr. segir: „Samkvæmt gildandi lögum lánar Byggingarsjóður verkamanna sveitarfélögum til bygginga leiguíbúða. Hér verður einnig gert ráð fyrir að lánað verði til félagasamtaka o.s.frv.“

Það er því alveg ljóst að þessi grein kemur þarna inn og hefur ekki verið inni þegar þessi hv. þm. fór með húsnæðismálin. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að þetta komi fram. Ég vil líka taka undir, og ég hef margsinnis gert það hér á hinu háa Alþingi, þörf á leiguíbúðum fyrir skólafólk. Ég hygg að það hafi meira að segja verið frá mér komið að námsmenn voru teknir inn í þessa 33. gr. Ég held að það sé ljótur ljóður á ráði okkar hversu illa við búum að námsmönnum, ekki síst þeim sem koma utan af landi og sækja nám hér við Háskólann, við Stýrimannaskólann, við Iðnskólann, við Tækniskólann, hversu illa er að þeim búið hér á höfuðborgarsvæðinu, og ég hef verið mjög harður einmitt á því að þessi heimild húsnæðislaganna yrði notuð fyrir námsfólk, fyrir aldraða og öryrkja. Ég hef lagt á þetta ríka áherslu að til þess hafi verið ætlast og ég hef margsinnis talað um það við umræður hér þegar aðrir hafa talað um að rétt sé að veita fé úr Byggingarsjóði verkamanna til t.d. búsetuíbúða, óskilgreint, að nauðsynlegt sé að láta þessa hópa sitja fyrir. Þetta hefur legið fyrir. Ég hef líka haldið því fram að verkamannabústaðirnir séu á eftir leiguíbúðum sveitarfélaga sá kostur sem mér þykir geðfelldastur fyrir það fólk sem illa er statt fjárhagslega. Um þetta höfum við átt margar umræður og ég vil líka vekja athygli á því þegar talað er um þær breytingar sem gerðar voru á húsnæðislögunum s.l. vor að það var komið verulega til móts við þá sem lægst voru launaðir og vildu ráðast í það að eignast sitt húsnæði. Þannig var lánsheimildin upp í 90% fyrir þá sem verst eru settir látin standa, 85% fyrir aðra og til viðbótar kom að mismunurinn, þessi 10% og eftir atvikum 15%, yrðu lánuð til þriggja ára til þess að menn ættu þess kost að flytja inn í verkamannabústað. Þetta var auðvitað gífurlegur munur, gífurleg bót, fyrir þetta fólk. Ég hef spurnir af því að í nýjum verkamannabústað á Akranesi, sem kostaði 2,6 millj. kr., fjögurra herbergja íbúð rúmlega 100m2, hafi þessi heimild verið notuð og viðkomandi fær þá 260 þús. kr. að láni til þriggja ára og þarf ekki að greiða af láni verkamannabústaðanna fyrr en að þeim tíma liðnum. Hin venjulegu lán eru afborgunarlaus þessi fyrstu þrjú ár. (Gripið fram í.) Ja, þessar upplýsingar fékk ég. Ég fékk raunar líka þær að á Sauðárkróki kostuðu þær 4 millj., því var skotið að mér en ég veit ekki um það. Ég tek dæmi sem mér var sagt frá Akranesi um þetta sérstaka tilvik. (JBH: Það staðfestir líka að það er langódýrasta dæmið sem hægt er að segja frá.) Ekki er það vont að þeir byggi ódýrt á Skaganum. (JBH: Nei, það er gott.) Ég held að það sé ljómandi. Ég er bara að segja nýjasta dæmið sem ég þekki og mér finnst réttast að reyna að halda sig við það.

Nú skulum við aðeins íhuga málið. Um hvað snýst í raun og veru ágreiningur minn við Alþfl.? Það kom fram í ræðu hv. 2. landsk. þm. þegar hann talaði fyrir kaupleiguíbúðunum hér á Alþingi hinn 11. des. s.l. að í huga hans væri verkamannabústaðakerfið svo gengið sér til húðar að rétt væri að það yrði niður lagt. (JS: Vill ekki þm. vitna orðrétt í það sem ég sagði.) Það skal ég gera með mikilli ánægju. Ég veit að hv. þm. hafa gaman af því að heyra hvað hv. þm. hefur til málanna að leggja ef ég má, með leyfi hæstv. forseta, ef honum finnst ég ekki fara út fyrir efnið. Þetta hefst á bls. 1504: Sameinað þing 11. des. 1986, kaupleiguíbúðir, framhald fyrri umræðu, og þá kemur tilvitnunin með leyfi hæstv. forseta:

"Hv. þm. spurði að því“ - og hv. þm. það er hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir - hvort kaupleiguíbúðir ættu að verða til við hliðina á verkamannabústöðum eða hvort þær ættu að koma í staðinn fyrir þær. Í þessu sambandi vil ég nefna að kaupleiguíbúðir hafa ýmsa kosti fram yfir íbúðir í verkamannabústaðakerfinu. Ég nefni þar til að mynda að í kaupleigukerfinu hefur fólk val um leigu eða kaup og í kaupleigukerfinu er ekki um að ræða neina útborgun sem aftur á móti er í verkamannabústaðakerfinu. Fólk þarf ekki að leita lánafyrirgreiðslu til að brúa bilið milli kaupverðs og lána Húsnæðisstofnunar eða standa undir þungri greiðslubyrði vegna skammtímalána í bankakerfinu.

Þegar hv. þm. Kvennalistans, Kristín Ástgeirsdóttir, sem sat hér á þingi fyrir nokkru, mælti fyrir tillögu Kvennalistakvenna um byggingu leiguhúsnæðis kom hún einmitt inn á þennan þátt. Hún sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Eins og efnahagsmál hafa þróast hér á landi á undanförnum árum hefur komið í ljós að það eru allnokkrir sem ekki ráða einu sinni við þau kjör sem verkamannabústaðakerfið býður upp á. Þess eru allmörg dæmi að íbúðir í verkamannabústöðum hafa lent á nauðungaruppboðum nú á undanförnum mánuðum, því miður.“

Ég hygg því að þm. Kvennalistans hljóti að hafa gert sér grein fyrir því ef þær hafa kynnt sér þessa tillögu um kaupleiguíbúðir náið að þessi tillaga um kaupleiguíbúðir hefur ýmsa kosti fram yfir íbúðir í verkamannabústöðum. Það er mín skoðun að komist kaupleiguíbúðir til framkvæmda geti þær komið í staðinn fyrir íbúðir í verkamannabústöðum. Ég hygg þó að ýmsir í verkalýðshreyfingunni hafi þá skoðun að reynsla verði að komast á kaupleiguíbúðir áður en sleppt er íbúðum í verkamannabústöðum. Og þegar ég mælti fyrir þessari till. í síðustu viku vitnaði ég einmitt í ýmsa forustumenn verkalýðshreyfingarinnar sem tjá sig um þessar kaupleiguíbúðir. Það kemur fram hjá öllum þessum forustumönnum sem tjá sig um þessa till. að þeir eru mjög hlynntir því að kaupleigutilhögun komist til framkvæmda en telja þó, a.m.k. sumir, að rétt sé að verkamannabústaðakerfið verði um hríð við hliðina á kaupleiguíbúðum, a.m.k. á meðan reynsla er að komast á kaupleiguíbúðir. En í mínum huga er það ekki vafamál að ég tel að kaupleiguíbúðir geti tekið við af íbúðum í verkamannabústöðum.“

Svo mörg voru nú þau orð. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en svo að hv. þm. telji með þessu að kaupleiguíbúðirnar eigi að leysa verkamannabústaðina af hólmi og tel ég raunar að þær hafi margt fram yfir verkamannabústaðina. Þannig að um þetta þarf ekki að deila. Menn geta auðvitað haft skiptar skoðanir um það hvað þessar áherslur varaformanns Alþfl. þýða, hversu mikill hugur fylgir þarna máli, en ég held að hv. þm. Magnús Magnússon hljóti að viðurkenna að ég hafi nokkuð til míns máls þegar ég held því fram að í huga varaformanns Alþfl. sé það skýrt að kaupleiguíbúðirnar eigi að taka við af verkamannabústöðunum. Ég held að það verði nú að vera þannig.

Nú er það svo að leiguíbúðir hafa verið byggðar og keyptar af sveitarfélögum og sveitarfélögin hafa orðið að standa undir 20%, ég man það áreiðanlega rétt, af byggingarkostnaði þessara kaupleiguíbúða en fengið 80% lánuð úr Byggingarsjóði verkamanna. Er þetta ekki rétt með farið? Já.

Ég held að það hafi líka komið fram í umræðum sveitarstjórnarmanna að þeir hafa haft sterka tilhneigingu til þess að selja þessar íbúðir, losa það fjármagn sem þeir höfðu bundið í þessum leiguíbúðum sveitarfélaga. (Gripið fram í.) Það var heimilt um skeið og margir sveitarstjórnarmenn vilja hafa þá heimild inni. Það er því alveg ljóst að hugur þeirra stendur ekki til þess að binda fé með þeim hætti í þessum íbúðum. Það liggur því alveg ljóst fyrir að möguleikinn á leiguíbúðum hefur verið í lögum, allrúm heimild nú um nokkurt skeið, og það held ég að liggi líka ljóst fyrir að ekki hefur verið ágreiningur um það hér á hinu háa Alþingi að undir vissum kringumstæðum hljóti að verða að fara þá leið til þess að leysa vanda þeirra sem verst eru settir.

Á hinn bóginn, þegar við erum að tala um húsnæði, um kaupleiguíbúðirnar, er ekki verið að ræða um þá sem verst eru settir einungis. Það sjá menn mjög glöggt ef menn lesa ræðu hv. 2. landsk. þm. þegar hann gerði grein fyrir tillögum sínum um leiguíbúðirnar. Nú sé ég að vísu í hrokkinkollinn á formanni Alþfl. Hann var að tala um það í ræðu sinni áðan að verkamannabústaðirnir væru of dýrir þannig að fólk gæti ekki í þeim búið. Nú hugsar Alþfl. sér afborganir af lánum í þessum svokölluðu kaupleiguíbúðum þannig að þeir sem í þeim búa eiga að standa undir 85% af kaupverðinu með 1% vöxtum sumir og aðrir með 3,5% vöxtum. Hv. 5. þm. Reykv. hefur ekki gert grein fyrir því og alls ekki gefið í skyn að hann hugsi sér að fella niður, svo ég taki dæmi, þegar kaupleiguíbúð er verðlögð, að aðrar reglur verði hafðar um þá verðlagningu en gildir um verkamannabústaðina. Ég hef ekki séð neina útfærslu á því þannig að það er deginum ljósara að þegar metið verður, ef til þess kemur að viðkomandi sveitarfélag þurfi að leysa til sín kaupleiguíbúð, en Alþfl. gerir ráð fyrir í sínum tillögum að til slíks geti komið, er ekki gert ráð fyrir að með það verði farið öðruvísi en með verkamannabústaðina. Alþfl. virðist þannig halda sig algjörlega við það endursölukerfi sem er í verkamannabústöðunum að því leyti.

Ég vil líka segja, og það skýrir afstöðu mína, hvers vegna ég tek verkamannabústaðakerfið fram yfir, að ég tel að verkalýðshreyfingin ásamt sveitarstjórnarmönnum eigi að ráða mestu um það hverjir eigi að njóta hinna félagslegu íbúða, þeirra íbúða sem hið opinbera, ríki og sveitarfélag, greiðir mest til, hinna sérstöku kjara. Ég vil líka segja að ég tel að menn fari betur með sín híbýli ef þeir eiga þau sjálfir fremur en að þeir séu leigjendur.

Svo er einn munur enn og hann er sá að hlutur sveitarfélagsins, þessi 15%, er ekki vaxtalaus heldur falla á hann 3,5% vextir ef íbúa kaupleiguíbúðar dettur síðar í hug að vilja neyta kaupréttarins og kaupa íbúðina. Nú hefur ekkert komið fram um það hjá þm. Alþfl. að maður í kaupleiguíbúð verði að gera upp hug sinn eftir fjögur eða fimm ár eða tíu ár. Hann getur búið í kaupleiguíbúðinni þess vegna sem kaupleiguíbúð í 40 ár eða þangað til hann er búinn að greiða upp þetta 85% lán. Og þá segir hann við þann sem hefur lagt fram 15%: „Nú vil ég kaupa.“ Og þá er reiknað upp. Hvað eru nú 3,5% vextir af þessum 15% í 40 ár? Þá kemur í ljós að 15% eru allt í einu orðin eitthvað í kringum 59,4%. Á meðan maðurinn í verkamannabústaðnum, sem að vísu verður að leggja það á sig að borga 10% á þremur árum, ef hann er illa staddur, að öðrum kosti að reiða af hendi 15% þegar hann flyst í íbúðina, á þó alla íbúðina skuldlausa eftir 43 ár. En maðurinn í kaupleiguíbúðinni, sem búinn er að borga sama lánið í Byggingarsjóði verkamanna eða sama lánið í Byggingarsjóði ríkisins, nema þá tölum við um 20% í staðinn fyrir 15%, í Byggingarsjóði verkamanna standa hlutirnir þannig að hlutur sveitarfélagsins er orðinn 59,4%, eftir að hafa borgað 85% lán á hann 40% af íbúðinni. Þannig litur það dæmi út ef það er reiknað.

Hins vegar væri mjög fróðlegt að fá það frá Alþfl.: Telur Alþfl. rétt að þetta kaupleigutilboð eigi að standa og vara að eilífu? Telur sveitarstjórnarmaðurinn gamli úr Vestmannaeyjum rétt að sveitarfélagið geti unað því að leggja 15% í íbúðina og fá ekki eina einustu krónu í ávöxtun af því fé svo áratugum skipti? Og hvað gerist svo síðan ef maður fer yfir í Byggingarsjóð ríkisins þar sem líka er talað um kaupleiguíbúðir? Þá talar Alþfl. um það að þeir sem njóta 20% framlags frá sveitarfélaginu með þessum góðu kjörum eigi að fá til viðbótar 80% lán úr Byggingarsjóði ríkisins á meðan aðrir fá 70% , og svo vilja þeir lækka niður í 50% hjá þeim sem kaupa notaða íbúð, hjá öðru fólki. Og þá eiga 20% að liggja vaxtalaus. Ef viðkomandi svo sýnist einn góðan veðurdag að borga út þessi 20%, kaupa þau af sveitarfélaginu ef það dæmi reynist þá vera hagkvæmt, hefur hann heimild til að selja íbúðina á frjálsum markaði daginn eftir, ef það sýnist þá vera hagkvæmt. Ef það sýnist vera óhagkvæmt þá auðvitað borgar hann aldrei þessi 20%. Svo einfalt er það mál nú.

Svo langar mig til að spyrja af því að ég hef lengi unnið með hv. 5. landsk. þm. Magnúsi Magnússyni að húsnæðismálum og veit hans skoðanir. Er hann sammála því sem formaður og varaformaður Alþfl. hafa hér sagt við þessar umræður að það sé nauðsynlegt að lækka lánsfyrirgreiðslu Byggingarsjóðs ríkisins til þess að kaupa notaðar íbúðir? Er hann sammála um það? Finnst honum of hátt að þeir sem ekki eiga íbúð fyrir fái 1,9 milljónir til þess að kaupa íbúð? Og finnst honum ástæða til þess að lækka það niður í 1,2? Er þessi gamli húsnæðismálaráðherra sammála því? Er þetta stefna hans sem formaður og varaformaður Alþfl. eru að lýsa? Ég hef ekki heyrt þær tillögur frá honum í húsnæðisnefndinni. Það væri virkilega fróðlegt fyrir okkur sem með honum störfuðu að fá það bara fram. Eða er þetta einhver prívat og einkaskoðun formannsins og varaformannsins sem þeir vilja ekki kannast við í Vestmannaeyjum? Það væri fróðlegt að fá þetta upplýst.

Formaður Alþfl. sagði áðan: Það verður að skilyrða lægra útborgunarverð á notuðum íbúðum. Og hann talaði um að það yrði að stefna að því í alvöru að auka hlutdeild hins félagslega kerfis af því að það væri of mikið fé í Byggingarsjóði ríkisins. Þó vill hann ekki aðeins lækka fyrirgreiðsluna til þeirra sem kaupa notað húsnæði niður í 50% heldur vill hann til viðbótar veita forréttindi eins og ég sagði, sumum að þeir fengju 80%. Og ég held ég fari rétt með það að fulltrúi Alþfl. í húsnæðisnefndinni hafi talað um það að þessar kaupleiguíbúðir þyrftu ekki allar að vera nýbyggingar. Það væri líka hægt að hugsa sér það að kaupa á frjálsum markaði íbúðir til kaupleigu. Það væri líka hægt að tala um það og þá á að staðgreiða. Þá á að borga 100% út. En þeir sem ekki njóta fyrirgreiðslunnar verða að láta sér nægja 50%, þeir eiga að vera í sömu sporunum og þetta fólk sem við erum nú að tala um að þurfi á sérstakri fyrirgreiðslu að halda vegna greiðsluerfiðleika. Það væri fróðlegt að vita hvernig hv. 2. landsk. þm., sem var að tala um það að vaxtahækkunin frá húsnæðisráðherra Alþfl., úr 2,5% í 3,5% nú, þýddi 47% rýrnun kaupmáttar, dæmir það ef þetta unga fólk á að fá hálfri milljón minna til kaupa á notaðri íbúð heldur en nú er gert ráð fyrir í lögum.

Ég kann auðvitað vel að meta það þegar hv. 5. landsk. þm. talar um að það eigi að hækka eigið fé eða ríkisframlag til Byggingarsjóðs ríkisins. Ég hef sjálfur verið áhugamaður um það og það má sjá það víða þó að ég hafi ekki alltaf náð því máli fram og menn hafi stundum orðið að haga sér með öðrum hætti við fjárlagagerð. En einmitt til þess að rekja nokkuð þessi mál ætla ég að rifja upp smákafla sem skrifaður hefur verið um þróun Byggingarsjóðs ríkisins. Hann var skrifaður árið 1980 og, með leyfi hæstv. forseta, hljóðar svo:

„Í upphafi s.l. áratugar“ - þá er átt við sjöunda áratuginn - „svaraði framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins til 45-50% af ráðstöfunarfé hans. Hlutfallið lækkaði í 40% árið 1973 en hækkaði aftur með hækkun launaskattsins og var um 50% á árunum 1976-1978. Árið 1979 og 1980 voru skatttekjur sjóðsins skertar samkvæmt heimildum í lánsfjárlögum en eftir gildistöku laga nr. 51/1980 varð framlag ríkissjóðs óbundið og ákveðið í fjárlögum. Við skerðinguna 1979 lækkaði framlag ríkissjóðs sem hlutfall af ráðstöfunarfé sjóðsins úr 49% 1978 í 39% 1979 og þetta hlutfall varð síðan 34% 1980, 16% 1981 og 19,5% 1982.“ Þessi óheillaþróun hún hófst þegar hv. 5. landsk. þm. var húsnæðisráðherra. Þá var fyrsta stökkið niður á við.

Ég ætla ekki að halda því fram að þessi hv. þm. hafi ekki meðan hann var ráðherra viljað efla eigið fé Byggingarsjóðs ríkisins. Það ætla ég ekki að segja en ég tel nauðsynlegt samt sem áður að þetta komi fram. Ég vil líka að það komi fram, einmitt vegna þess að Alþýðuflokksmenn hafa talað hér mikið um það hversu illa hin verðtryggðu lán Byggingarsjóðs ríkisins hafi farið með launafólk þegar kaupmáttur hefur verið versnandi, þá skulum við líka rifja upp hvenær það var sem full verðtrygging á húsnæðislánum var tekin upp. Ég vil gjarnan fá að lesa hér örlítið frekar upp úr þessari skýrslu, herra forseti, til þess að það megi líka ljóst vera hver þá Lilju kveðið hefur. Með leyfi hæstv. forseta:

„Lán til 26 ára veitt á tímabilinu frá miðju ári 1975 til 1. maí 1978 eru verðtryggð að 4/10 og bera 9,75% nafnvexti og bera á sömu forsendum jákvæða meðalraunvexti sem nema um 2,5%. En 26 ára lánin sem veitt voru frá 1. maí 1978 til miðs árs 1979 og eru verðtryggð að 6/10 bera raunvexti sem eru að meðaltali 5-5,5% á ári yfir allan lánstímann miðað við 3040% árlega verðbólgu. Frá 1. júlí 1979“ - við munum hver var félmrh. þá - „var hins vegar farið að verðtryggja lánin að fullu miðað við byggingarvísitölu og nafnvextir ákveðnir 2% auk 0,25% þóknunar.“

Það er þess vegna alveg ljóst að það var ráðherra Alþfl. sem fór með húsnæðismálin þegar full vísitölutrygging var sett á. Ég man ekki betur en einmitt sá hópur Alþýðuflokksmanna sem myndaði þá ríkisstjórn 1978 hafi verið háværasti hópur sem talað hefur hér í þessum sölum um háa raunvexti. Það hafa engir þm., frjálshyggjumenn eða aðrir, talað jafnháum rómi um raunvexti og þessi hópur þm. sem kosinn var af Alþfl. 1978, enginn. Svo eru þeir að tala um það núna Alþýðuflokksmenn, m.a. formaður Alþfl., að það að kaupgjaldsvísitalan var tekin úr sambandi 1. júní 1983 hafi valdið því að menn gátu verr staðið við greiðslur vegna þess að lánskjaravísitalan var látin leika lausum hala, sagði hann, eins og sú breyting hafi orðið þá. Ég veit ekki betur en þessi misvísun milli lánskjaravísitölu og kaupgjaldsvísitölu hafi byrjað mun fyrr. Hún var mjög veruleg á árinu 1982. Hún var fram í septembermánuð 1983. Síðan hélst kaupmáttarstig nokkuð á sömu nótum og lánskjaravísitalan um einhver misseri, það var svona mánaðamunur á hvor hafði betur, lánskjaravísitalan eða kaupmátturinn. Síðan aftur á s.l. ári, ég tala nú ekki um eftir að kaupmátturinn óx jafnmikið og raun bar vitni, hefur þetta aftur leiðréttst. Þetta skildi ekki varaformaður Alþfl. Hann hélt að kaupmáttarstigið hefði ekkert að segja með greiðslubyrði af lánum. Auðvitað gefur það auga leið nú þegar tekjur heimilanna eru hærri en nokkru sinni fyrr. Auðvitað eru verðtryggðu lánin léttbærari launafólki en áður. Þessu held ég að menn hljóti að geta gert sér grein fyrir.

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði áðan í sambandi við kaupleiguíbúðirnar, að nauðsynlegt er að þær séu betur skilgreindar og menn geri sér grein fyrir því að hverju þeir stefna ef þeir á annað borð vilja halda þeirri hugmynd til streitu. Formaður Alþfl. talaði um það áðan að lífeyrissjóðir lægst launaða fólksins gætu fest peninga í slíkum kaupleiguíbúðum, lagt 15% í slíkar kaupleiguíbúðir vaxtalaust. Við vitum auðvitað hvað það þýðir. Það þýðir að þessir sjóðir lægst launaða fólksins verða ekki jafnvel undir það búnir og vera mundi að greiða lífeyri fyrir sitt fólk. Slík meðferð á sjóðum hinna lægst launuðu hlyti að valda því að þeir yrðu verr í stakk búnir en ella til að greiða lífeyri. Það þýddi það að ellilífeyrir lægst launaða fólksins yrði af þeim sökum lægri en ella mundi. Það getur ekki verið stefna sem menn vilja í alvöru koma fram. Ég held að það geti ekki undir neinum kringumstæðum átt sér stað.

Ég veit ekki við þessa umræðu hvað maður á að halda þessu lengi áfram. Formaður Alþfl. hafði orð á að vaxtafóturinn ætti að vera lægri af því að það væri engin eignamyndun á móti í kaupleiguíbúðunum. Síðan sagði hann rétt á eftir: Síðar, þegar efnahagurinn batnar, getur viðkomandi keypt íbúðina eða leitað út úr þessu kerfi. Hann reiknar með öðrum orðum með því að menn eigi að njóta vaxtakjara Byggingarsjóðs verkamanna jafnvel þótt efnahagurinn verði allt allt annar og betri og virðist geta sætt sig við það ástand til langframa. Eins og hann orðaði sínar hugmyndir var greinilegt að það var ofarlega í hans huga. Nú gengur þetta alveg þvert á það sem verkalýðshreyfingin er að velta fyrir sér. Verkalýðshreyfingin er þvert á móti að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að fólk sem býr við gerbreyttar heimilisaðstæður geti notið þeirra vildarkjara sem Byggingarsjóður verkamanna býður upp á. Ég man eftir því að einn fulltrúi verkamannabústaðanna í Reykjavík tók einmitt dæmi af fráskilinni konu hér í borg sem hafði gifst ungum lækni og duglegum sem hafði mjög miklar tekjur. Hann var einmitt að tala um að það væri óeðlilegt að maður með slíka framfærslumöguleika skyldi geta notið kjara Byggingarsjóðs verkamanna til langframa og sloppið við að greiða nema 1% vexti af sínum fasteignalánum. Þess vegna kom sú umræða upp hvort það gæti verið skynsamlegt að vextir byggingarsjóðanna væru breytilegir. Ef afkoma batnaði verulega væri kannske ástæða til að viðkomandi greiddu nokkuð hærri vexti og á móti kæmi þá að það fólk sem yrði fyrir miklu áfalli en hefði orðið að sæta lánum úr Byggingarsjóði ríkisins gæti þá notið betri kjara í staðinn. Þessi umræða kom upp en hún er víðs fjarri þeim hugmyndum sem Alþfl. hefur verið að reifa hér.

Ég veit ekki hvort ástæða sé til að hafa þessi orð mikið fleiri. Formaður Alþfl. vitnaði hér í skoðanakönnun og sagði að þar hefði komið fram að tæpur helmingur skólanema, ef ég tók rétt eftir, teldi að nauðsynlegt væri að fjölga leiguíbúðum. Ég held að það sé áhugaefni allra sem í skóla eru að reyna að komast sem ódýrast út úr húsnæðismálunum meðan svo varir, en það fólk er ekki að hugsa um verustað til frambúðar. Eins og ég sagði áðan er nauðsynlegt að koma myndarlega á móti þörfum þess fólks, en hitt er jafnljóst að skoðanakannanir hafa sýnt það, þær sem ég hef séð, þegar fólk er spurt hvernig það vilji standa að sínum eigin íbúðarmálum þegar fram í sækir, að yfir 90% Íslendinga eru þeirrar skoðunar að þeir vilji eiga sínar íbúðir sjálfir. Þetta sýnir reynslan okkur, þetta sýna skoðanakannanir sem gerðar eru og þetta sýnir líka sá mikli fjöldi umsókna sem þegar er kominn inn í Byggingarsjóðinn.

Af því að ég var hér með skýrsluna stendur þar á einum stað, með leyfi hæstv. forseta: „Það er mat nefndarinnar [þ.e. húsnæðisnefndarinnar] að þær breytingar sem voru gerðar á útlánareglum Byggingarsjóðs ríkisins með lögum nr. 54/1986 geri róttækar breytingar ólíklegar næstu árin meðan reynsla fæst af hinu nýja fyrirkomulagi.“

Nú spurði ég sérstaklega um það í húsnæðisnefndinni hvort allir nefndarmenn væru þessu sammála og lét bóka að sérstaklega hefði verið um það spurt þannig að ljóst er að þetta er sameiginlegt álit allra þeirra sem í húsnæðisnefndinni voru. Nú veit ég ekki hvort hv. 5. landsk. þm. Magnús H. Magnússon telur það róttækar breytingar á Byggingarsjóði ríkisins ef sú breyting yrði gerð annars vegar að hluti lántakenda fengi 80% lán meðan aðrir yrðu að sætta sig við 70 og enn aðrir 50. Ég veit ekki hvort hann telur þetta róttæka breytingu. Ég tel það mjög róttæka breytingu að menn sitji ekki við sama borð að þessu leyti, þeir sem eru að eignast sína fyrstu íbúð, og hefði þess vegna gaman af því að vita hvort hann stendur þá fast við það, hvort hann vilji að sumir fái 80% lán úr sjóðnum, aðrir 50, sem eru að eignast sína fyrstu íbúð, eftir því hvað íbúðin heitir en ekki eftir því hvort íbúðin er ný eða gömul því að í því sem kallað er kaupleiguíbúðakerfi er gert ráð fyrir að kaupa notaðar íbúðir og þá er gert ráð fyrir því í þeim skýringum sem gefnar hafa verið við kerfið að um sé að ræða 40 ára lán með 3,5% vöxtum og sveitarfélögin leggi fram 20%. Þetta er nauðsynlegt að komi fram.

Ég mun síðan marka það á svörum hv. þm. Suðurlands hvort hann er sama sinnis og formaður og varaformaður Alþfl. að vera á móti almennum úrbótum í húsnæðismálum. Það hefur komið fram hjá þeim að þeir sætta sig illa við að menn sitji við sama borð og vilja með öllum ráðum reyna að koma aftan að fólki að því leyti. Þess vegna þætti mér fróðlegt að vita hvað hv. þm. Suðurl. hefur um það mál að segja.