24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3482 í B-deild Alþingistíðinda. (3068)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Þessar umræður eru orðnar alllangar og eðlilegt að það sé komin þreyta í mannskapinn. (Gripið fram í: Ertu þreyttur?) Nei, nei. Ráðherra er ekki þreyttur.

Ég vil aðeins koma inn á örfá atriði. Vegna þrábeiðni hv. 2. landsk. þm. þykir mér rétt að svara því sem hann hefur verið að klifa á núna og gera kröfur um svör. Ég vil aðeins segja það í fyrsta lagi í sambandi við skýrslu um synjanir sem hér hefur komið fram frá fleiri hv. þm. að það er alveg sjálfsagt, eins og ég tók fram eða þóttist hafa svarað í sambandi við fsp. frá hv. 5. þm. Reykv., að ég tel að þetta eigi ekki að vera neitt leyndarmál. Ráðgjafarstofnunin, sem sér um þennan þátt mála í Húsnæðisstofnun, hefur þann sið að hún gefur upplýsingar á ákveðnum tímabilum um það sem hún er með í meðferð. Mér finnst sjálfsagt að kalla eftir þessari skýrslu fljótlega og láta gefa um það opinbera tilkynningu. Það er alveg sjálfsagt að gera það. Það er ekkert því til fyrirstöðu þannig að fram komi flokkun á tegundum synjana.

Ég hef því miður ekki í fórum mínum neinar tölur um þetta sem ég get birt. Ég veit um að það voru par hundruð bréfa sem fóru frá stofnuninni sem mátti skilja sem synjun, en það var ekki öðruvísi en þannig að það voru atriði sem var beðið um nánari skýringar á. Fólk átti þess kost að gera frekari grein fyrir sínum málum. Úrvinnsla er í gangi hjá ráðgjafarstofnuninni. Ég veit ekki nákvæmlega hvað búið er að synja mörgum, en ég skal kalla eftir því og sjálfsagt að láta það vera opinberar upplýsingar. Mér finnst það vera nauðsynlegt.

Í sambandi við þetta sífellda tal um upplýsingar um biðtíma o.s.frv. Ég vil kalla það afgreiðslutíma. Eins og framkvæmdastjóri Húsnæðisstofnunarinnar hefur skilmerkilega gefið út er þessi biðtími úr sögunni. Það tilheyrir ekki lengur því formi sem Húsnæðisstofnunin vinnur eftir. En ég ítreka að það sem hér er um að ræða er að stofnunin er að vinna í þessum málum og þar eru vinnuskjöl sem hafa verið til meðferðar og farið alla leið upp í húsnæðisstjórn sem trúnaðarmál. Ég hef fengið ljósrit af þessum vinnuskjölum. Jafnframt var skipaður sérstakur vinnuhópur sem er að störfum og m.a. hefur óskað eftir ákveðnum upplýsingum frá félmrh. og fjmrh. í sambandi við þessi mál. Hann er að fara yfir heildarstöðu þessara mála í sambandi við þær umsóknir sem komnar eru. Þær niðurstöður verða lagðar fyrir næsta stjórnarfund og ráðherra. Húsnæðisstofnun mun í framhaldi af því gefa út fréttatilkynningu. Svona er málið einfalt. Það er ekki hægt að rugla því saman við að gera hér kröfu um að heimta upplýsingar um einhver leyniskjöl sem menn tala um. Þetta eru vinnuskjöl sem verið er að vinna úr til að komast að sameiginlegri niðurstöðu sem stjórn stofnunarinnar á síðan að leggja mat á fyrir fréttatilkynningar. (JBH: Á þeim hvílir engin leynd?) Það er ekki rétt að tala um að það séu einhver leyniskjöl í gangi í sambandi við þetta. Það eru ákveðin trúnaðarskjöl sem eru vinnuskjöl stofnunarinnar. Ég tel að stofnunin hafi fullkomið leyfi til að vera ekkert að birta slík vinnuskjöl sem öruggar staðreyndir frá stofnuninni fyrr en hún er búin að fullvinna málið. Er sennilega örstutt í að það verði birt. Ég á von á því a.m.k.

Þriðja atriðið sem hv. 2. landsk. þm. var að spyrja um var um 300 millj. sem var samkomulag aðila vinnumarkaðarins um að leggja til viðbótar við þær 200 millj. sem ákveðið var í ársbyrjun 1986 að láta í greiðsluerfiðleikalán þannig að það yrðu 500 millj. Það var ákveðið að það kæmu gegnum lífeyrissjóðina sérstök kaup sem voru tilgreind 925 millj. kr. Af því átti ríkissjóður að fá 625 millj. vegna sérstakra aðgerða og áttu 300 millj. að renna í Byggingarsjóð ríkisins vegna þessara aðgerða. Af þessari upphæð skuldar ríkið enn 143 millj. kr. Ég skal ekki dagsetja neitt, en þannig er staðan í dag. Þetta gat gengið vegna þess að fjárhagsleg staða Byggingarsjóðs á s.l. ári var nokkuð góð. Eins og ég sagði áðan voru 700 millj. í sjóði um s.l. áramót. Það hefur því ekki verið stíft kallað eftir þessu. En það eru þarna eftir 143 millj. sem eru mismunurinn.

Þá er það sem kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv. Ég er ekki sáttur við endurtekna framsetningu hv. þm. þrátt fyrir skýrar upplýsingar þar sem hann var að klifa á því að skýrslur hefðu ekki komið fram sem unnar voru af nefnd á vegum ráðuneytisins í sérstökum tilgangi í sambandi við upplýsingar um fasteignamarkaðinn á árinu 1985 og síðasta skýrslan var afhent milliþinganefnd í febrúar 1986. Þessar skýrslur voru allar opinberar eins og ég tók fram skilmerkilega og allar þessar skýrslur voru í höndum milliþinganefndar og laganefndarinnar sem samdi frv. að þeim lögum sem við höfum verið að vitna hér í. Laganefndin fór yfir þau gögn sem hún kærði sig um. Hún var eins og allir vita undir forsæti Hallgríms Snorrasonar hagstofustjóra og í þessari nefnd voru aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar sem ríkisstjórnin skipaði í sambandi við þessi mál og þar á meðal var fulltrúi frá félmrn. sem hafði aðgang að öllum þessum plöggum og núverandi forstjóri Þjóðhagsstofnunar. Það er náttúrlega útilokað að halda að félmrh. hafi ráðið þeirri stefnu sem kom fram í þessum lögum. Þetta var byggt á allsherjarsamkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar um það hvernig þetta yrði sett fram.

Vegna þess sem hér hefur komið fram í viðbót í sambandi við ýmsa þætti þessara mála sem menn vildu hafa öðruvísi vil ég geta þess sérstaklega að ráðuneytið og Húsnæðisstofnun hafa unnið í sameiningu að þessu máli frá því að lögin voru samþykkt hér á hv. Alþingi á s.l. ári eftir því sem úrvinnslan kom fram og mótað var verklag í sambandi við framkvæmd laganna, að koma fram með ýmsar hugmyndir að breytingum sem þyrfti að gera á frv. Ég, sem ráðherra, lét vinna þetta skipulega þannig að allar slíkar hugmyndir voru ýmist lagðar fyrir milliþinganefndina og þaðan fyrir laganefndina sjálfa undir forsæti hagstofustjóra. Ég taldi nauðsynlegt og sjálfsagt að fara ekki að koma fram með neinar breytingar á frv. öðruvísi en í samráði við þessa aðila. Þess vegna var það að það sem kom fram í frv. til laga sem er til meðferðar hér í hv. deild er einvörðungu það sem allir gátu verið sammála um að þyrfti að lagfæra. Það er ýmislegt tæknilegt eða, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni í kvöld, sumt af því leysir gífurlega mörg vandamál og m. a. eitt af því sem hv. þm. Magnús H. Magnússon var að nefna áðan. Menn fá e.t.v. núna synjun eða verri afgreiðslu en þeir hafa vænst einmitt vegna þess að það þarf að laga svona atriði, eins og t.d. mismunandi aðstöðu inn á vinnumarkaðinn eða tímabundið inn á vinnumarkaðinn og eins afleiðingar þess að stytta tímann, lífeyrissjóðstímann, í 20 mánuði innan 24 mánaða. Þetta hefur gífurlega mikið að segja og leysir svona ýmis tæknileg atriði sem skipta miklu máli. Þess vegna legg ég enn á ný mikla áherslu á að þetta nái fram að ganga því það leysir úr mörgum vandamálum sem Húsnæðisstofnun ræður ekki við vegna laganna sjálfra. Auðvitað er ýmislegt sem þarf að laga. En hitt atriðið sem hefur borið mjög á góma, með þá aðila sem eru að sækja inn á lánin en eiga miklar eignir o.s.frv., það er ekkert auðvelt mál. Það verður að koma lagabreyting til og aðilar vinnumarkaðarins í þessari laganefnd, sem ég nefndi áðan, hafa ekki verið tilbúnir að fallast á það vegna þess að, eins og ég sagði hér fyrr í ræðu minni í kvöld, það hafa allir rétt til að sækja um lán sem fullnægja þeim skilyrðum sem lögin gera ráð fyrir. Það er ekki ætlast til þess að þeim sé mismunað þegar út í framkvæmdina kemur ef þeir að öðru leyti uppfylla þau skilyrði sem fram eru sett.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þetta lengur. Ég vil bara þakka fyrir þessar miklu og ágætu og löngu umræður. Menn hafa skipst hér á skoðunum um þetta mikilvæga mál og margt hefur komið fram en aðalatriðið er það að við hljótum að vera sammála um það sem ég vil leggja áherslu á a.m.k. um sinn að verja þetta kerfi og reyna að treysta það í sessi.