24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3488 í B-deild Alþingistíðinda. (3072)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd út af orðum hv. 5. þm. Vesturl. Hann sagði mjög skýrt og skilmerkilega frá þeim atriðum sem snertu áfangaskýrslurnar og ég sé ekki betur en að hann hafi í raun og veru staðfest það að kjarni málsins er sá að úr þessum skýrslum mátti lesa væntanleg áhrif lagabreytinganna frá því í fyrravor á fasteignaviðskipti og þar af leiðandi á lánsfjárþörf. Lögin sem samþykkt voru í fyrravor beina fjármagni í ríkara mæli inn á fasteignamarkaðinn frá nýbyggingamarkaðinum. Það sem áður fór að 70% til nýbyggingamarkaðarins fer núna að 70% beint inn á fasteignamarkaðinn og áhrifin af þessum breytingum hefði mátt lesa út úr þessum skýrslum ef menn vissu að hverju þeir voru að leita. (HBl: Þessar staðreyndir lágu fyrir fyrir mörgum árum.) Mætti ég kannske biðja þá þm. sem þegar hafa talað sig dauða að haga sér samkvæmt því (Gripið fram í: Menn mega nota sér frammíkallsrétt.) og leyfa mér að ljúka máli mínu. Ég hef ekki nema mjög skamman tíma hér vegna þess að ég er líka einn þeirra sem eru búnir að tala sig dauða, er aðeins að gera stutta athugasemd og benda á það að ummæli hv. 5. þm. Vesturl. gera ekkert annað en að staðfesta það sem Stefán Ingólfsson sagði í blaðagrein sinni í Morgunblaðinu.