25.02.1987
Efri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3495 í B-deild Alþingistíðinda. (3081)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Það er frekar sjaldgæft að mikil umræða sé um lagafrv. við 3. umr. en að því hlaut að leiða, þau vinnubrögð sem voru í deildinni á síðasta fundardegi að framsöguræða fyrir nál. var flutt um þetta mál og aðeins einn af þeim sem höfðu gefið sig fram á mælendaskrá talaði við þá umræðu, síðan var málinu frestað til þess að koma útvegsbankamálinu á dagskrá. Og þegar útvegsbankamálið dugði ekki til umræðu alveg út fundartímann þá nýtti forseti, sem ósköp eðlilegt var, ég vil undirstrika það, þann tíma til að halda áfram umræðu um fiskmarkað. Ég taldi mig nokkurn veginn vita það að þeir hv. þm. sem hér hafa talað, aðrir en frsm. mundu vilja komast inn í þessa umræðu sem raunin hefur líka orðið á. Þess vegna er nú þessi umræða hér við 3. umr. Ég tel þess vegna nauðsynlegt að endurtaka svolítið af því sem ég sagði við umræðuna hér í fyrrakvöld og benda á það hvernig þetta mál hefur verið undirbúið og hvernig staðan er í kringum þessa markaðsuppbyggingu í dag.

Ég benti hér á það, og endurtek það sem hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir var að nefna hér áðan og reyndar hv. þm. Karl Steinar líka, að fyrirmyndin að þessari markaðsuppbyggingu er sótt til markaða, kannske ekki eingöngu markaðsins í Bremerhaven, sem er rekinn með halla og er opinbert fyrirtæki fylkisins, Bremerhaven-fylkis, nokkurs konar BÚR eða BÚH sem ég hef nefnt hér. Það var ekki leitað fyrirmynda til þeirra svæða sem eðlilegt var, þ.e. til framleiðslusvæðanna eins og ég hef nefnt hér, Norður-Noregs eða Nýfundnalands, sem eru svipuð framleiðslusvæði og er hér hjá okkur. Það voru byggðar upp hugmyndir um og, eru byggðar upp hugmyndir um fiskmarkað hér á Íslandi á svipuðum grunni og þeir markaðir eru byggðir upp sem hafa neytendamarkað fast við hliðina á sér. Ég held að þarna sé ansi mikil blekking og þar af leiðandi geri menn sér vonir um það að þessi markaður skili allt, allt öðru en að líkur eru fyrir að hann skili. Þetta er ekki sett í beint eðlilegt samband.

Í öðru lagi benti ég hér á að menn hafa verið með það nokkuð á lofti að hið frjálsa framtak, og hið frjálsa fjármagn líka sjálfsagt, væri tilbúið að koma með peninga til að byggja upp þessa markaði og þess vegna væri náttúrlega sjálfsagt að leyfa þeim það. En reyndin er að verða önnur. Reyndin er að verða sú að ef þessir markaðir eiga að byggjast upp þá verða þeir að byggjast upp af opinberu fé. Og ekki aðeins það. Ef við eigum að fá reynslu af starfsemi þessara markaða, sem ég held að sé nauðsynlegt að verði a.m.k. tvö ár, þá eru ekki miklar líkur fyrir því að þeir sem hafa verið að tala um það að þeir væru tilbúnir að koma með fj ármagn og vilja ekki koma með fjármagn nú í uppbygginguna, þeir standi undir mjög trúlegum hallarekstri meðan verið er að gera tilraunir með þessa aðferð í verðlagningu á fiski hér á Íslandi.

Staðreyndin er nefnilega sú að Borgarsjóður Reykjavíkur eða Hafnarsjóður Reykjavíkur stendur að meira og minna leyti undir þeirri markaðsuppbyggingu sem á sér stað hér í Reykjavík. Það er sem sagt verið að endurbyggja BÚR. Ég er ekki að hafa gegn því og lýsi frekar stuðningi við að þannig sé staðið að málum. En þá er verið að byggja á allt öðrum grunni en verið er að tala um hér í hv. deild og verið er að tala um úti í þjóðfélaginu.

Það virðist nokkuð svipað vera að gerast í Hafnarfirði. Þar segja þeir sem hafa boðið hlutafé í þetta: Við þurfum að fá meiri peninga. Og þeir biðja Bæjarsjóð Hafnarfjarðar um peninga til þess að gera meira úr þessu fyrirtæki en núna er innan seilingar. Og þeir biðja um húsnæði frá Hafnarfjarðarbæ. Þetta er nú grundvöllurinn að þessu frjálsa fiskverði og frelsi og því að losna úr viðjum einhverra opinberra afskipta af þessum hlutum.

Ég undirstrika það líka, sem hér hefur einnig komið fram í ræðum þeirra hv. þm. sem ég nefndi áðan, að öll sú binding og þvingun sem á sér stað um leyfisveitingar í sambandi við stofnsetningu markaða, um það vald sem sjútvrh. er falið í öllu þessu frelsi, og öll þau höft sem hann getur sett á eðlilega þróun og vilja manna til þess að koma upp markaði, vilja annarra sveitarfélaga en Hafnarfjarðar og Reykjavíkur til að gera slíka hluti sem verið er að tala um hér. Það er ósköp eðlilegt að ef þetta fer í gang þá vilji menn reyna að halda sínu heima eins og kostur er og ef markaður hér á Reykjavíkursvæðinu lukkast að þeir vestur á Snæfellsnesi vilji gjarnan koma sér upp markaði. Að það sé endilega þá undir valdi ráðherra komið hvort þar megi setja upp markað eða ekki! Það vald ráðherra er þannig núna að hann úthlutar ákveðnum aðilum t.d. við Breiðafjörð rækjuleyfum, ákveðnum byggðum, en sumar byggðir fá það ekki. Eigum við endilega að þurfa að búa undir slíku veldi þegar við erum að fara hér inn á nýja braut? Mér finnst það alveg fráleitt. Þó að svo fari að ég standi frammi fyrir því hér við afgreiðslu málsins og er þegar búinn að greiða atkvæði um þetta, að við samþykkjum þetta vegna þess að ég lít á þetta fyrst og fremst sem tilraun. Fyrst og fremst sem tilraun. En ef hér á að vera að leggja grunn að því sem framtíðin á að bera í skauti sínu, þá hafna ég því.

Hv. 3. þm. Vesturl., frsm. og formaður sjútvn., fjallaði í framsöguræðu sinni og hér aftur áðan um þann þátt sem markaðurinn gæti haft í ákvörðun verðs á fiski. Ég er nú á þeirri skoðun, ég vildi ekki fara að fjalla um það hér í fyrrakvöld á stuttum tíma, að það sé nú ein skýjaborgin, það sé nú ein draumsýnin að láta sér detta það í hug eða trúa því að markaður hér í Reykjavík verði gildandi sem verðviðmiðun á mikið stærra svæði en bara hér í nánasta nágrenni. Ég efast m.a.s. um að það muni hafa mikil áhrif á verðlag á fiski á Akranesi hvernig þessi tilraunamarkaður kemur út hér í Reykjavík með verð vegna þess að á meðan þetta er á tilraunastigi gefur það auga leið að markaðurinn verður ekki fullkomlega marktækur. Í fyrsta lagi af því að það eru líkur fyrir því og allt bendir til þess að inn á þennan markað komi tiltölulega lítill fiskur. Og eins og ég nefndi hér á fyrri fundi. þá sagði einn viðmælandi okkar, sem er stóraðili hér á þessu svæði, þegar við spurðum um það hvað hann mundi láta mikinn fisk frá sínu fyrirtæki inn á þennan markað: „Ja, ætli það verði ekki svipað og við höfum látið fisksalana hafa hingað til.“

Á slíkum markaði gerist engin raunveruleg verðmyndun. Þar af leiðandi er það alveg fráleitt að tala um að það geti átt sér stað einhver viðmiðun úti um land út frá þessum markaði. Ef svo aftur hitt mundi nú gerast að stóru fyrirtækin hér í Reykjavík færu að landa inn á þennan markað þá mundi hann í mörgum tilfellum vera ansi mettaður miðað við það að þetta væri fyrst og fremst þjónustumarkaður fyrir framleiðslusvæðið hér og einn togari ofan af Akranesi, sem bættist í togarahópinn hér í Reykjavík, inn á markaðinn, gæti haft þau áhrif að verð félli. Ég hef ekki trú á því að þeir á Snæfellsnesi mundu taka mikið mark á slíkri verðlagningu og mundu frekar vilja halda sig í gamla kerfinu sem þeir hafa núna. (Gripið fram í: Þeir þiggja nú háa verðið ef það býðst.) Ég hef ekki trú á því að það mundi nokkur samþykkja háa verðið t.d. uppi á Akranesi þegar hér kæmi lítið meira á markaðinn en það sem fisksalarnir hafa fengið hingað til. Það væri óraunhæft verð. Það mundu allir viðurkenna það, jafnt þeir sem væru að afla fiskjarins og þeir sem væru að kaupa hann.

Það sem er aðalatriðið í sambandi við þetta mál, við skulum ekki gera okkur neinar gyllivonir í kringum markaðinn, en það er mjög mikið atriði að þessi markaðstilraun fái að heppnast og það byggist kannske fyrst og fremst á því að borgarstjórn Reykjavíkur verði það frjálslynd að hún haldi áfram að láta peninga í þetta fyrirtæki. Tryggi það að þetta fyrirtæki skili árangri og að það komi reynsla á það hvort við þær framleiðsluaðstæður sem við búum, þ.e. hvort fiskveiðiþjóðin Íslendingar geti búið til markað á heimavelli og að hann virki eftir því sem verið er að búa til myndir af hér í umræðunni. Og þá held ég að við séum komin ansi langt frá því sem umræðan hefur snúist um fyrst og fremst, að þetta væru nú markaðshyggjumennirnir, mennirnir með peningana og fjármagnið milli handanna, sem væru að bjóða upp á það að þeirra möguleikar nýttust nú í verðlagningu á fiski. Við erum bara það lítil eining, Íslendingar, og ég vil segja sem betur fer. Þegar við þurfum að gera svona hluti þá getum við aldrei treyst á fjármagnið og þeim sem hafa ráð yfir fjármagninu. Við þurfum að treysta á það að geta stillt okkur saman og unnið sameiginlega að því að leysa ákveðin markmið. Til þess notum við ríkiskassann og borgarkassann og bæjarkassana. En það er náttúrlega ansi nöturlegt að þurfa að gera það fyrst og fremst undir þeim kringumstæðum þegar ekki eru miklar líkur fyrir því að það sé til annars en að borga. Það séu litlar líkur fyrir því að það skili í eðli sínu neinum arði til þeirra aðila sem eru að láta þessa peninga út eins og því miður gerist stundum, og gerist oftar, að opinberir aðilar, ríkið og sveitarfélög grípa inn í þegar undan hallar. Og nú á að byrja á þeim vettvangi og verður tekinn upp sá vettvangur að láta sameiginlega sjóði standa undir upphafstilraun. Vonandi tekst þetta vel.

Ég vænti þess að núna eftir þessa umræðu og eftir samþykkt hér í deildinni fái þetta frv. greiða leið í gegnum hv. Nd. þannig að tilraunin um svokallaðan frjálsan fiskmarkað á Íslandi geti hafist.