14.10.1986
Sameinað þing: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég skal leitast við að svara því sem hér hefur fram komið, sérstaklega hjá hv. 10. landsk. þm. sem ekki hafði talað áður og það er eðlilegt. Það skarar dálítið það sem hv. 5. þm. Austurl. kom hér með og spurði um. 1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Flutningaþjónusta á sjó milli Íslands og Bandaríkjanna með farm vegna varnarsamningsins skal látin í té af bandarískum skipum og skipum, sem íslensk skipafélög gera út, skal látin í té af skipum sem íslensk skipafélög gera út.“ Ef menn lesa ekki setninguna og greinina áfram þá stendur, að það skuli þvinga skipafélög til þess að láta í té flutningaþjónustu. Síðan kemur áframhaldið og ef menn ekki vilja skilja þá er auðvitað ekkert hægt að svara mönnum. Menn geta komið upp í ræðustólinn endalaust og spurt. Sé málsgreinin lesin og hún skilin eins og hún þar stendur, þá kemur skýrt fram að flutningaþjónusta á sjó skal látin í té „á grundvelli samkeppni“. Það er mergurinn málsins. (SvG: Og ef ekkert íslenskt skipafélag býður.) Nú þá hvað? (SvG: Þá hvað? Það er best að ráðherrann svari því.) Þá liggur auðvitað varningurinn eftir, ef enginn býður, er það ekki alveg ljóst?

Síðan kemur hv. 5. þm. Austurl. og spyr um hvað þetta sé í dollurum. Hann langaði til að vita hvað þetta væri í dollurum, já. (Gripið fram í.) Ég verð bara að segja hv. þm. það að ég hef ekki hugmynd um hvað þetta er í dollurum. Ég hef ekkert verið að hugsa um það. Ég hef verið að hugsa um að koma fram því réttlæti sem þessi samningur gerir ráð fyrir og það er á þeim grundvelli sem málið er hér flutt en ekki á einhverjum grundvelli dollara sem hv. þm. spurði um.

Svo kemur hv. 10. landsk. þm. og víkur að 4. gr. Við verðum að gera okkur grein fyrir því hvað er verið að semja hér um. Er verið að létta af einhverju varðandi íslensk skipafélög hér í þessu landi? Það er síður en svo. Það eru engin lög sem banna íslenskum skipafélögum að gera eitthvað. Við verðum að gera okkur grein fyrir því hvað um er verið að semja þegar hér er talað um 4. gr., ég er kannske ekki eins vel að mér í enskri tungu og hv. þm., (Gripið fram í.) en ég tel þó að þeir, sem þetta hafa þýtt, séu það. Það, sem hér er verið að tala um, að „ákvæði samnings þessa og sérhvers samkomulags um framkvæmd hans, sem gert er skv. 1. gr., skulu ganga fyrir ákvæðum hvers kyns eldri ósamrýmanlegra laga“ - það eru engin ósamrýmanleg lög til hér á Íslandi í sambandi við það að banna skipafélögum. Að tala um kjöt. Hvað eru menn að tala um? Menn eru að tala um tollafgreiðslu. Menn eru að tala um að það sé komið með varning sem óheimilt sé samkvæmt öðrum lögum að taka inn til landsins. Þetta er allt annað. Við getum rætt um varnarsamninginn og við getum rætt um lögin frá 1928 og hver önnur lög í sambandi við tolla og innflutning. En hér er verið að ræða um siglingar á milli tveggja landa. (HG: Með eitthvað.) Að sjálfsögðu með eitthvað. En ef önnur lög segja að varningurinn, sem um borð er, megi ekki koma í land, nú þá hefur enginn bannað siglinguna. Ef sá sem vill sigla með varninginn gerir sér ekki grein fyrir því að hann fær ekki að koma í land, þá er það hans. Við verðum að skilja um hvað við erum að tala áður en settar eru fram slíkar spurningar.