25.02.1987
Neðri deild: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3526 í B-deild Alþingistíðinda. (3118)

256. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir 256. máli sem er á þskj. 315 og er frv. til stjórnarskipunarlaga. Ég les frumvarpsgreinarnar.

„1. gr. 39. gr. orðist svo:

Hvor þingdeild getur skipað nefndir innandeildarþingmanna til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða. Fastanefndir Alþingis hafa eftirlit með framkvæmd laga.

Nefndir Alþingis hafa rétt til að krefjast hvers konar skýrslna bæði af embættismönnum og einstaklingum. Fundi nefnda Alþingis skal halda í heyranda hljóði.

2. gr. 2. mgr. 48. gr. orðist svo:

Alþingismenn setja lög og hafa eftirlit með framkvæmd laga, en er óheimilt að vinna umboðsstörf í þágu framkvæmdarvalds og stofnana þess.

3. gr. 51. gr. orðist svo:

Ráðherrar eiga samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi, en eiga þar ekki atkvæðisrétt.“ Þetta frv. hefur verið flutt áður á þessu kjörtímabili og ég ætla ekki að fara grannt ofan í grg. þess. Ég ætla hins vegar að draga fram nokkur meginatriði frv.

Í fyrsta lagi er lögð þarna áhersla á eftirlitshlutverk Alþingis. Það er lögð þarna áhersla á að til viðbótar við að setja landinu lög sé það hlutverk Alþingis að fylgjast með framkvæmd laga. Þessi háttur er tíðkaður víða á Vesturlöndum og er sums staðar sívaxandi hluti af starfsemi löggjafarsamkundunnar, t.d. í Bretlandi. Í Bandaríkjunum hefur þetta verið svona lengi.

Við getum tekið nýlegt dæmi þar sem þetta ætti að hafa komið mönnum til umhugsunar. Hér hefur nú á Alþingi í nokkrar vikur geisað mjög fyrirferðarmikil umræða vegna fræðslumála í Norðurlandi eystra. Það sem er athygli vert er að líklega má rekja rætur þess máls að einhverju leyti til grunnskólalaga. Hins vegar hafa menntamálanefndir Alþingis, sem eitt sinn settu þessi grunnskólalög, ekkert fjallað um stöðu þessara mála. Þrátt fyrir alla þessa miklu umræðu og mikla ágreining sem trúlega má rekja að stóru leyti til ákvæða grunnskólalaga um stöðu fræðslustjóra hafa menntamálanefndir þingsins ekki formsins vegna verið kvaddar sérstaklega til umfjöllunar um þetta mál. Það má segja að það hefði verið eðlilegt að menntamálanefndir tækju grunnskólalögin til athugunar, t.d. vegna þessa ágreinings um stöðu fræðslustjórans, svo og vegna upplýsinga sem hafa komið fram um að tilteknum atriðum eða tilteknum ákvæðum grunnskólalaga, eins og í sambandi við sérkennslu, sé ekki framfylgt. Þannig ættu starfsömum þingnefndum á hverjum tíma að veitast fjölmörg tækifæri til að hafa eftirlit með framkvæmd þeirra laga sem þessi samkunda hefur sett, stundum alveg nýlega. Að þessu atriði víkja ákvæði 1. gr. í frv. þar sem stendur og þar sem er kveðið mjög afdráttarlaust að orði um að fastanefndir Alþingis hafi eftirlit með framkvæmd laga og að nefndir Alþingis hafi rétt til að krefjast hvers konar skýrslna bæði af embættismönnum og einstaklingum. Þannig er lagður þessi mikli þungi á þetta hlutverk löggjafarsamkundunnar.

Annað atriði sem kemur þarna fram er að fundi nefnda Alþingis skuli halda í heyranda hljóði. Nú er það svo að um það hefur ekki verið neinn ágreiningur að fundir Alþingis eru haldnir í heyranda hljóði. Það er náttúrlega til þess að veita þjóðinni aðgang að því að fylgjast með störfum þessarar samkomu sinnar og menn líta á það sem grundvallaratriði að þessir fundir séu fólki opnir. Það má líta svo á að fundir þingnefnda séu engu ómikilvægari hluti af starfsemi Alþingis og þess vegna eigi þingnefndafundir sömuleiðis að vera opnir fólki. Aftur er þessi háttur tíðkaður víða erlendis og þykir sjálfsagt mál. Ef við hugsuðum þennan þanka lengra áfram mætti benda á að úr því að einu sinni er opnað fyrir aðgang almennings að fundum á löggjafarsamkundunni ættu menn að spyrja hvort ekki ætti að útvarpa af fundum samkomunnar þannig að það væri starfandi sérstök útvarpsrás á vegum Alþingis, sem menn geta kallað Alþingisrásina, þar sem sá hluti þjóðarinnar sem ekki á þess kost að mæta upp á þingpalla, annaðhvort vegna vinnu sinnar eða vegna búsetu sinnar fjarri þingsölum, eigi þess kost að fylgjast með störfum samkundunnar eins og þeir aðrir sem í næsta nábýli búa.

Í 2. gr. frv. er enn lögð áhersla á eftirlitshlutverk Alþingis, en um leið tek ég fram að alþm. sé óheimilt að vinna umboðsstörf í þágu framkvæmdarvalds og stofnana þess. Þarna er komið að öðru máli í sambandi við starfsemi Alþingis og í sambandi við stjórnskipun, þ.e. kröfunni um gleggri skil á milli valdþáttanna. Menn hafa fylgt því nokkuð eftir hérlendis að halda valdsviði dómara sæmilega hreinu, þ.e. að dómarar rugli ekki reytum sínum um of saman við svið löggjafans eða framkvæmdarinnar. Að vísu er þetta brotið í þó nokkrum tilfellum. T.d. munu sýslumenn hafa átt sæti á Alþingi o.s.frv.

Hins vegar er samkrullið á milli löggjafans og framkvæmdarvaldsins miklu meira og það er ekkert sérviskumál. Það er raunverulegt álitamál í íslenskum stjórnmálum hvort ekki eigi að taka miklu strangar á því, hvort ekki eigi að taka til athugunar og setja klárari starfsreglur bæði í grundvallarlögin eða stjórnarskrána og önnur lög og aðrar reglugerðir sem af þeim eru leiddar, harðari kröfur um að menn haldi sínu á hreinu hvað þetta varðar þannig að alþm. sé óheimil þátttaka í störfum framkvæmdarvaldsins, t.d. að sitja þar í nefndum eða ráðum, svo sem eins og bankaráðum eða stjórnum stofnana, ef við tökum dæmi, enda er svo sem erfitt að sjá nákvæmlega hvaða erindi alþm. ættu segjum t.d. í stjórn sementsverksmiðju. Ég út af fyrir sig sé ekki hvaða flokkspólitískar línur þarf að leggja við framkvæmd eða framleiðslu sements, svo við tökum þau dæmi. Það er ekkert sem liggur í augum uppi um að hlutföll í alþingiskosningum eða þau hlutföll sem fást þegar þjóðin kýs fulltrúa sína til löggjafans eigi að framlengja inn í hinar ýmsu stjórnir og nefndir.

Í 3. gr. er ákvæði um að ráðherrar skuli samkvæmt embættisstöðu sinni eiga sæti á Alþingi, en eigi þar ekki atkvæðisrétt. Hér er þá um að ræða svipað kerfi og er t.d. í Noregi, að ráðherra í ríkisstjórn, sem er þar með í framkvæmdarvaldi, afsalar sér þingmennsku á þann hátt að hann hefur ekki atkvæðisrétt sem þm. og kallar inn fyrir sig varamann. Þannig er lögð áhersla á aðskilnað þessara valdþátta.

Eins og ég sagði í upphafi hefur þetta mál verið hér til umræðu áður. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að fylgja því neitt sérstaklega eftir núna og ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og allshn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.