25.02.1987
Neðri deild: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3528 í B-deild Alþingistíðinda. (3120)

257. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Hér mæli ég fyrir frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá. Þetta er á þskj. 316, mál nr. 257 og flm. auk mín eru þau Jón Baldvin Hannibalsson, Kjartan Jóhannsson og Jóhanna Sigurðardóttir. Á þessu þskj. er vikið að tveimur atriðum úr stjórnarskrá, þ.e. þingrofi og brbl. Aftur er hér á ferðinni, eins og varðandi málið sem ég er nýbúinn að mæla hérna fyrir, mál sem hefur verið áður til umræðu og ég mun þess vegna ekki hafa um það langt mál.

Um þingrofsatriðið vil ég segja að ég tel þingrofsréttinn í höndum forseta vera arf frá þeim tíma þegar mönnum þótti næstum eðlilegt að framkvæmdarvald gæti vísað löggjafarsamkundunni heim og ef í odda skarst á milli þingsins annars vegar og þjóðhöfðingjanna eða ríkisstjórnar hins vegar gátu þeir síðarnefndu rofið þing og þar með ógilt umboð þingmanna sem þó voru kosnir af þessari sömu þjóð. Þessi ákvæði eru alls ekki óhjákvæmilegur þáttur í framkvæmd lýðræðis. Þessi ákvæði hafa t.d. ekki verið í norsku stjórnarskránni og ég tel augljóst að þetta vald samrýmist ekki seinni tíma hugmynd um um samskipti þings og stjórnar, þ.e. að framkvæmdarvald geti vísað Alþingi heim á þennan hátt.

Annað sem þingrofsmöguleikinn gefur okkur er óstöðugleiki. Þjóðlíf og efnahagskerfi er flókið og viðkvæmt og þar er mjög nauðsynlegt að menn geti gert sér góðar framtíðaráætlanir og góðar spár. Slíkar áætlanir eru á hverjum tíma komnar undir því trausti sem menn telja sig geta haft á frambúðargildi stjórnvaldsathafna og ríkisstjórna. Sú vissa um aðgerðir þessara stjórnvalda sem þingrofsmöguleikanum fylgja tel ég að sé óholl fyrir nútíma efnahagslíf.

Um bráðabirgðalagaákvæðið vil ég segja að við leggjum til að það sé afnumið. Þetta er arfur úr löngu liðinni fortíð. Þetta er frá þeim tíma þegar þing starfaði kannske einungis tvo mánuði ári og jafnvel ekki nema annað hvert ár og þess vegna var augljóst að stjórnkerfi gat ekki unnið án þess að ríkisstjórn hefði rétt til að setja brbl., enda hafa ákvæði um þetta verið í stjórnarskrá síðan hún var sett 1874 og við fengum þau frá frændum okkar og þáverandi herrum. Nú eru augljóslega allt aðrar aðstæður til samgangna og samskipta í þessu samfélagi, eins og reyndar sást í janúar s.l. þar sem þing var kvatt saman og það mættu nægilega margir til löglegra samkomustarfa með einungis sólarhrings fyrirvara sem er eðlilegur fyrirvari á því að kalla þessa samkundu saman. Hin gömlu rök fyrir bráðabirgðalagasetningunni eiga þannig augljóslega ekki við lengur. Það er hægt að kalla til starfs hæfa löggjafarsamkundu svo að segja fyrirvaralaust. Hin praktísku rök eru úr sögunni.

Við höfum líka ágætt dæmi um að þarna eru önnur rök, þ.e. við getum sagt rök sem má rekja til lýðræðisins. Við lagasetningu á löggjafinn rétt á að láta rödd sína heyrast fyrir lagasetninguna og á ekki að una því að geta ekki gert það fyrr en á eftir. Þannig sáum við t.d. í að janúar s.l. þegar umræða var um það að setja brbl. var hins vegar ákveðið að kalla þing saman og það leiddi á eftirminnilegan hátt til þess að hætt var við lagasetningu. Þannig sjáum við að það er nauðsynlegt og eðlilegt að þingið sé kallað til þegar lög voru sett, en lög voru ekki sett sem brbl. án aðildar þingsins. Þarna voru áhrifin eftirminnileg.

Ég vil að lokum gera það að tillögu minni að þessu máli verði vísað til allshn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.