25.02.1987
Neðri deild: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3535 í B-deild Alþingistíðinda. (3124)

310. mál, endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Mér fannst koma fram mikil þröngsýni og reyndar algert skilningsleysi á endurmenntunarmálum í máli síðasta ræðumanns og kemur mér það nokkuð á óvart vegna þess að ég hef yfirleitt átt öðru að venjast frá þessum hv. þm.

Það er út af fyrir sig gott og blessað að það séu ákvæði í frv. sem nú liggur fyrir þinginu um framhaldsskóla þess efnis að það megi efna til endurmenntunarnámskeiða. En það leysir bara ekki það mál sem verið er að reyna að leysa með þessu frv. sem hér liggur fyrir. Við skulum átta okkur á því að endurmenntunarmálum verður að haga með þeim hætti að allt starfsfólk hafi til þess möguleika að sækja slík námskeið. Ég vísa sérstaklega til þess sem stendur í 1. gr. frv., þar er lagt til að lögð verði sérstök áhersla á það að því er endurmenntun varðar að taka fyrir þær atvinnugreinar þar sem atvinnuöryggi starfsmanna er í hættu vegna tæknivæðingar. Og hvaða greinar skyldu það nú vera þar sem atvinnuöryggi er í hættu vegna tæknivæðingar? Ég hygg að það séu ýmsar greinar sem láglaunafólk vinnur nú við, svo sem ýmsar hefðbundnar kvennastarfsgreinar. Og ég held, með allri virðingu fyrir skoðunum hv. síðasta ræðumanns, að þetta fólk hafi hvorki tíma né fjármagn aflögu til þess að sækja sér eftirmenntun eða eftirmenntunarnámskeið með þeim hætti sem gert var ráð fyrir í framhaldsskólafrv.

Ég tel að við ekki síður en hin Norðurlöndin verðum að fara þá leið að skapa fólki möguleika til þess. Og hvernig gerum við það? Jú, fram á það er sýnt í þessu frv. að það þarf að veita fólki möguleika, líka í sínum vinnutíma, að fara á námskeið, 56 vikna námskeið, taka þá frí frá vinnu og það fái laun á meðan. Í þessu frv. er lagt til hvernig að því skuli staðið með framlagi úr Atvinnuleysistryggingasjóði af hálfu ríkisvaldsins og þessu fólki verði greidd laun sem samsvara atvinnuleysisbótum. Síðan er lagt til að leitað verði samráðs við aðila vinnumarkaðarins um það að fólkið fái mismuninn á atvinnuleysisbótum og sínum launum. Ég tel að þetta sé eina færa leiðin til þess að gera því fólki sem helst þarf á því að halda kleift að stunda endurmenntun.

Hv. þm. talar um miðstýrða endurmenntun og að hér sé verið að koma upp bákni. Ég tel að hv. þm. hafi alls ekki skoðað þetta mál með réttu hugarfari og það sé meira í hans kolli að þetta verði eitthvert bákn en að það sé raunveruleikinn. Hér er lagt til að stofnaður verði sjóður og það er alls ekki óeðlilegt í kringum slíkt mikilvægt verkefni sem endurmenntun er. Við höfum það víða fyrir okkur í þjóðfélaginu, einmitt ýmsa sjóði sem eiga að stuðla að framgangi ýmissa mála, þannig að hér er auðvitað ekkert nýmæli á ferðinni. Og það er brýnt að endurmenntunarráð vinni að styrkveitingum og úthlutunum úr þessum sjóði og sjái um að það sé heildarsamræmi og samræming í skipulagi endurmenntunar. Ég veit ekki hvað hv. þm. hefur við það að athuga. Þegar litið er á hvernig skipan þessa endurmenntunarráðs á að vera þá tel ég að með því sem fram kemur í 2. gr. um skipun ráðsins sé leitast við að þeir aðilar verði í þessu ráði sem á einn eða annan hátt ættu að hafa með endurmenntunarmál að gera og skipan þeirra. Þar er bæði um að ræða kennarastéttina og aðila vinnumarkaðarins og að menntmrh., fulltrúi hans hafi aðild að þessu og einnig fulltrúi félmrh. sem verður formaður nefndarinnar.

Ég tel að ef við eigum að koma á einhverju heildarskipulagi og samræmingu á þessi mál, sem ég tel að sé nauðsynlegt, þá sé þetta leiðin. Ég tel að það verði bara handahófskennt ef það á að fullnægja skipulagi á endurmenntun með því ákvæði sem hv. þm. var að vísa í um eftirmenntunarnám sem er einhver ein grein þarna í framhaldsskólafrv.

Við skulum líka átta okkur á því að vissulega eru núna fyrir hendi möguleikar á endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu. Það eru fyrirtæki eins og Stjórnunarfélagið og fleiri aðilar sem hafa beitt sér fyrir mikilvægu átaki að því er þessi mál varðar. Ég hygg að að því er varðar t.d. Stjórnunarfélagið séu það yfirleitt yfirmenn og stjórnendur fyrirtækja sem er gert kleift í sínum vinnutíma á fullum launum að sækja sér nauðsynlega eftirmenntun og endurmenntun (GJG: Og greitt námskeiðsgjald.) og greitt námskeiðsgjald fyrir, segir hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. Ég dreg ekki í efa að það sé greitt að fullu fyrir stjórnendur fyrirtækjanna þannig að þeir missi í engu þegar þeir sækja sér eftir- eða endurmenntun. En hvað með hið venjulega starfsfólk sem vinnur í framleiðslugreinunum? Hefur það sömu möguleika? Getur það ef því dettur í hug sótt sér endurmenntun á fullum launum ef það hugsar til þess að endurmennta sig vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu? Ég hygg að þeir möguleikar séu ekki fyrir hendi og ég held að þeir opnist ekkert frekar með því ákvæði sem hv. þm. var að vitna í.

Ég minni á það, ég tók það fram í minni ræðu hér áðan, að ákvæði þessa frv. væru ekkert heilög. Við flm. þess erum opin fyrir öllum breytingum á því og brtt. sem fram kunna að koma, svo fremi að markmið frv. náist, þ.e. að koma á samræmdri og skipulagðri endurmenntun og starfsþjálfun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu sem allir, líka venjulegir launþegar, hafa möguleika á að taka þátt í til að tileinka sér nýja tækni og tryggja atvinnuöryggi sitt.