26.02.1987
Sameinað þing: 56. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3540 í B-deild Alþingistíðinda. (3131)

276. mál, átak í upplýsingatækni

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 501 flyt ég till. til þál. um átak í upplýsingatækni. Till. er á þessa leið: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja þegar á þessu ári átak á sviði upplýsingatækni. Markmið átaksins verði að hraða svo sem frekast er kostur hagnýtingu upplýsingatækni í almannaþágu og að samstilla í þessu skyni krafta allra þeirra aðila sem geta lagt málefninu lið.

Átakið beinist að eftirtöldum þáttum:

1. aðgerðum á sviði menntunar og fræðslumála,

2. útvegun og þróun tæknibúnaðar,

3. öflun og miðlun þekkingar,

4. vöruþróun og markaðsleit,

5. kynningarstarfi.

Iðnaðarráðuneytið kalli til alla þá aðila sem hlut eiga að máli. Á grundvelli þeirra viðræðna verði síðan unnin heildaráætlun um verkefnið, m.a. um kostnað við framkvæmd þess. Iðnaðarráðuneytið geri síðan við afgreiðslu fjárlaga tillögur um sérstök framlög til verkefnisins.

Við framkvæmdina verði haft víðtækt samráð við opinberar stofnanir, samtök í atvinnulífi og áhugaaðila. Iðnaðarráðuneyti hafi frumkvæði að því að hrinda átakinu í framkvæmd og beri ráðuneytið síðan alla ábyrgð á framkvæmd þess. Að höfðu samráði við fyrrnefnda aðila skipi ráðuneytið sérstaka stjórn til að sjá um framkvæmd átaksins.“

Herra forseti. Hér er hreyft máli sem um nokkurt skeið hefur verið á vettvangi okkar vísinda- og fræðimanna en hefur ekki hlotið sem heild neina umræðu hér á hv. Alþingi. Till. er lögð fram til þess að vekja athygli á þessum mikilvæga þætti í þróun okkar atvinnulífs á komandi árum og áratugum, en þróun upplýsingatækni og tölvutækni hvers konar mun örugglega ráða úrslitum um það hvort lífskjör hér á Íslandi verða á komandi árum sambærileg við það sem er í grannlöndum okkar eða að við drögumst aftur úr.

Rannsóknaráð ríkisins hefur fjallað um þessi mál og m.a. hefur ráðið gefið út bækling um tölvu- og upplýsingatækni á Íslandi. Bæklingurinn var gefinn út í framhaldi af starfi nefndar, sem vann á vegum ráðsins og í áttu sæti Oddur Benediktsson prófessor, formaður nefndarinnar, Hjalti Zóphóníasson, Sigurður Þórðarson í fjmrn., Páll Kr. Pálsson, Þorvarður Jónsson og Þorbjörn Broddason. Jón Erlendsson, forstöðumaður upplýsingaþjónustu Rannsóknaráðs, var ritari nefndarinnar og í ársbyrjun 1985 var Páll Jensson, forstöðumaður Reiknistofnunar Háskólans, fenginn til að ritstýra skýrslu starfshópsins og tók hann því þátt í þeim verkefnum sem þar voru unnin. Sömuleiðis naut hópurinn aðstoðar Sigrúnar Helgadóttur reiknifræðings.

Niðurstöður þessarar nefndar eru birtar í skýrslu Rannsóknaráðs og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa helstu tillögur nefndarinnar um þróun upplýsinga- og tölvutækni á Íslandi. Þar segir:

„Nefndin leggur til að upplýsingatækni verði efld á Íslandi og hún hagnýtt betur í þágu atvinnulífsins. Veitt verði sérstök fjárveiting til þess að byggja upp upplýsingaiðnað, að jafnaði að upphæð 65 millj. kr. á ári í fjögur ár. Áætlunin og upphæðin verði endurskoðuð árlega. Sérstaka áherslu ber að leggja á að tryggja sem besta samvinnu tölvufyrirtækja, Háskóla Íslands, annarra opinberra aðila, svo sem Rannsóknaráðs og Iðntæknistofnunar og fulltrúa atvinnulífsins, svo sem Félags ísl. iðnrekenda.

Samstarfsráði, sem skipað verði fulltrúum þessara aðila og hafi a.m.k. einn starfsmann verði falið að stjórna framkvæmd áætlunarinnar, fylgja henni eftir og hafa eftirlit með framvindu og árangri.“

Síðan eru í tillögum nefndarinnar beinar tillögur um sjö verkefnasvið sem einkum eigi að leggja áherslu á, þ.e.:

Í fyrsta lagi með uppbyggingu þekkingar á sviði upplýsingatækni, sem einkum beinist að Háskóla Íslands.

Í öðru lagi með eflingu íslensks tölvuiðnaðar, m. a. með þróunarstyrkjum og áhættulánum til fyrirtækja sem í þessari grein eru.

Í þriðja lagi með bættu skipulagi upplýsingamála. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir upplýsingaveitum og upplýsingaþjónustu, og ég vil lesa þann kafla, með leyfi forseta, en þar segir:

„Komið verði á fót tölvuneti rannsóknastofnana og þróunarfyrirtækja og tengingu við hliðstæð erlend tölvunet. Hafnar verði tilraunir með upplýsingaveitur og breiðbandsnet í samvinnu Háskólans, Póst- og símamálastofnunar og sveitarfélaga. Styrkt verði þróun gagnabanka og framleiðsla upplýsinga til dreifingar, m.a. í tölvunetum. Efld verði fræðsla um upplýsingamál og öflun upplýsinga.“

Í fimmta lagi gerir nefndin tillögu um sérstaka gæðamiðstöð þessarar iðngreinar og atvinnugreinar. Loks eru sérstakar tillögur um að skipaður verði eftirlitsaðili til þess að fylgjast með að lögum um persónuvernd verði hlýtt í hvívetna við þróun þessarar greinar.

Í skýrslu nefndarinnar koma fram mjög fróðlegar upplýsingar um þróun tölvu- og upplýsingatækni í nágrannalöndum okkar m.a. Þar kemur það t.d. fram að um síðustu aldamót störfuðu um 40% vinnandi manna í þróuðum löndum, svo sem Bandaríkjunum, við fæðuöflun, þar á meðal við landbúnað og fiskveiðar. Hliðstæð tala er nú 3% - en var 40% um aldamót. Nú starfa hins vegar um 25% í iðnaði í þessum löndum, en því er spáð að sú tala verði að 50 árum liðnum komin niður í 5%. Búast má við að sú þróun snúist við á næstu árum, ekki síst vegna tölvutækninnar.

Það kemur fram í skýrslu Rannsóknaráðs að um 1960 unnu innan við 40% starfandi manna í Bandaríkjunum við vinnslu upplýsinga, þ.e. vinnslu og dreifingu upplýsinga í víðum skilningi. Hér er m.a. átt við þá sem starfa við kennslu, rannsóknir, fjölmiðlun, tölvuvinnslu, bókasöfn og þess háttar. Aðeins 20 árum síðar, árið 1980 er þessi tala komin yfir 50% og fer ört hækkandi.

Af þeim tíu starfsgreinum sem U.S. Bureau of Labor Statistics spáir mestri fjölgun í á næstu árum eru sjö svið á sviði tölvutækni. Því er t.d. spáð að kerfisfræðingum og forriturum muni fjölga þar í landi um 70% á þessum tíma. Hér á landi voru þessar starfsgreinar svo að segja óþekktar fyrir 20 árum, en þær töldu líklega tugi manna fyrir 10 árum og telja hundruð manna í dag. Mörg hundruð Íslendingar starfa við þessa grein í dag sem var óþekkt og ekki til fyrir 20 árum eða svo hér á landi.

Í skýrslu Rannsóknaráðs er m.a. bent á það að fyrstu tölvurnar komu til Háskóla Íslands og til Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurborgar fyrir aðeins 20 árum. Í skýrslunni er rakin þróun þessara mála hér og þar er m.a. bent á að þessi tæknigrein muni ráða úrslitum um atvinnuþróun á komandi árum, en hér segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að upplýsingatæknin er kjarnasvið næstu áratuga. Þetta kemur best fram í þeirri áherslu sem tæknivæddar þjóðir leggja á að efla og þróa hana. Frægasta dæmið er svonefnt fimmtu kynslóðar verkefni Japana, þ.e. í stuttu máli risavaxið átak hins opinbera og iðnaðarins til að tryggja Japönum forskot í tölvutækni á næstu árum og áratugum. Einkum er þar lögð áhersla á svonefnd þekkingarkerfi og öflugar tölvur fyrir rökræna vinnslu upplýsinga. Aðrar þjóðir, m.a. Bandaríkjamenn, hafa einnig tekið kröftuglega við sér og stóraukið fjárveitingar til rannsókna og þróunar á sviði upplýsingatækni. Í ýmsum ríkjum Evrópu hafa stjórnvöld sett fram áætlanir til 3-5 ára og leggja til að háum fjárhæðum verði veitt til eflingar upplýsingatækni. Nefna má í þessu sambandi Bretland, Svíþjóð og Danmörk.“

Í þeim töflum sem birtast síðan í skýrslu Rannsóknaráðs kemur fram að öll þessi lönd, sem athuguð eru, verja þegar verulegum fjármunum til upplýsingatækni á komandi árum. Þannig er t.d. gerð grein fyrir því að Danmörk ver sem svarar 595 ísl.kr. á íbúa á ári til þróunar upplýsingatækni. Svíþjóð ver í þessu skyni 300 kr. á íbúa á ári. Yrði tillaga Rannsóknaráðs um ca. 100 millj. kr. í þetta verkefni á ari samþykkt mundi framlag Íslendinga verða um 280 kr. á íbúa á ári sem er um helmingurinn af því sem það er í Danmörku og talsvert minna en það er í Svíþjóð.

Í þessu sambandi er kannske rétt að taka fram að hér á landi hafa oft verið býsna sérkennilegar deilur um það hver ætti að vera hlutur ríkisins í atvinnulífinu. Ætla ég ekki að hefja þá umræðu hér, en ég ætla að benda á að t.d. í Danmörku, þar sem er hægri stjórn við völd, stjórn Schlüters, hefur verið varið meira fé til þróunar upplýsingatækni en í nokkru öðru landi Norðurlandanna á undanförnum árum. Og það segir sína sögu að við Íslendingar skulum fyrst um þessar mundir vera að taka þetta verkefni á dagskrá hér á Alþingi Íslendinga þegar það hefur þegar verið á dagskrá stjórnvalda í grannlöndum okkar um margra ára skeið. Hafa verið gefnir út ítarlegir bæklingar og leiðbeiningar um þessi verkefni í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, gögn sem ég hef undir höndum og gæti afhent þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar.

Vissulega hefur talsverð þróun átt sér stað í þessum efnum hér á landi, einkum og sér í lagi í þeim greinum sem tengjast okkar frumframleiðsluatvinnuvegum, einkum sjávarútvegi, og er nærtækasta dæmið þróun tölvuvoga til notkunar í fiskiðnaði. Tvö innlend fyrirtæki hafa þróað og framleitt tölvuvogir um árabil og hafinn er útflutningur á þeim fyrir nokkru. Af þessu ætti m.a. að vera ljóst að mögulegt er að byggja upp rafeindaiðnað hérlendis sem gæti í framtíðinni orðið hluti af öflugum útflutningsiðnaði á hátæknisviði. Einkum er talið að verulegir möguleikar séu í hugbúnaðariðnaði í þessum efnum. Rannsóknaráð segir m.a. um það efni í skýrslu sinni:

„Þróun hugbúnaðariðnaðar hefur að undanförnu verið mjög ör hér á landi sem annars staðar. Talið er að heimsmarkaður fyrir hugbúnað vaxi um 25-40% milli ára.“

Í skýrslunni er fjallað um hugbúnaðariðnað sem útflutningsiðnað framtíðarinnar á Íslandi og það er fróðlegt fyrir okkur, sem höfum einkum lifað á því að flytja út matvæli, flytja út fisk, þjóð sem hefur verið að leita að leiðum til þess að styrkja sínar útflutningsgreinar og gjaldeyrissköpun, fróðlegt fyrir þessa þjóð að velta því fyrir sér hvaða möguleika hún hefur einmitt varðandi útflutning á hugbúnaði, en um það segir í skýrslu Rannsóknaráðs:

„Sérsmíðaður íslenskur hugbúnaður er oft notaður í séríslenskum greinum atvinnulífsins, svo sem fiskvinnslu, í tengslum við rekstur hitaveitna og virkjana þar sem erlendur hugbúnaður er annaðhvort mjög dýr eða jafnvel ekki fáanlegur. Ýmsir hafa bent á að einmitt á þessum sviðum hugbúnaðarþróunar ættu möguleikar okkar til útflutnings að vera mjög miklir.“

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara mikið ítarlegar yfir efni þessarar tillögu eða forsendur hennar, en ég er fyrir mitt leyti alveg sannfærður um það að hér er komið að kjarnaatriði í sambandi við þróun íslensks atvinnulífs á komandi árum. Við Íslendingar þurfum að fara að skilja það að mikilvægasta útflutningsgrein framtíðarinnar er sú vara sem við framleiðum á grundvelli þekkingarinnar. Að breyta þekkingu í útflutningsvöru hlýtur að vera okkar höfuðverkefni í atvinnumálum á komandi árum. Þar á ég bæði við tölvugreinar, upplýsingatækni auðvitað, en ég á líka við hvers konar vöruþróun og markaðssetningu, þar sem við höfum í raun og veru staðið okkur vel á ýmsum sviðum en hefur hætt við að halda þannig á hlutunum að málin hafa viljað staðna í höndunum á okkur þegar vel hefur gengið um nokkurt skeið.

Ég held að ekki sé ástæða til þess, herra forseti, að fara mikið ítarlegar yfir efni þessarar tillögu, en ég bendi á að lokum hvílíkar breytingar geta orðið á þjóðfélagi okkar og þjóðfélagi Vesturlanda á komandi árum ef tölvutæknin fær að þróast og njóta sín til fulls. Það eru breytingar sem munu ekki aðeins hafa áhrif á atvinnulífið heldur líka á heimilin sjálf, líf fjölskyldnanna í þessu landi. Og það er fróðlegt að velta því fyrir sér að hve miklu leyti vinnan, að hve miklu leyti störfin, að hve miklu leyti námið getur flust inn á heimilin með þróun tölvutækninnar á komandi árum. Í þessum efnum hafa fjölmargar þjóðir varið stórfelldum fjármunum í þessu skyni. Við höfum setið eftir. Við höfum ekki tekið á þessum verkefnum og það er beinlínis hættulegt. Við erum að dæma okkur til afturfarar og lakari lífskjara en aðrar þjóðir ef við ekki tökum okkur tak í þessu efni og tryggjum það að samfélagsvaldið, ríkið, hafi þarna frumkvæði í samstarfi við samtök atvinnurekenda og atvinnulífsins og þær rannsóknastofnanir og þróunarstofnanir sem við eigum til hér á landi. Ég tel að í umræðunni um þessi mál hafi sljóleikinn einkennt viðbrögð okkar allt of mikið.

Ég vona, herra forseti, að þessi till. fái góðar undirtektir hér á hv. Alþingi og legg til að henni verði vísað til framhaldsumræðu að lokinni þessari umr. og til hv. atvmn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.