26.02.1987
Sameinað þing: 56. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3551 í B-deild Alþingistíðinda. (3137)

277. mál, afnám skyldusparnaðar ungmenna

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég tel að skyldusparnaður ungmenna í þeirri mynd sem verið hefur hafi margt gott af sér leitt, hjálpað mörgum ungmennum til að eignast sína fyrstu íbúð. Á sínum tíma veitti skyldusparnaðurinn forgang til lána frá Byggingarsjóði ríkisins og í því frv. sem ég lagði fram 1979, um húsnæðismálastjórn, átti sá forgangur að halda áfram varðandi kaup á fyrstu íbúð. Í afgreiðslu laganna 1980 féll þessi forgangur niður, því miður.

Hv. flm., 3. þm. Reykv., vill að afnám skyldusparnaðarins komi ekki niður á útlánagetu Byggingarsjóðs ríkisins, en ég er hræddur um það að sú yrði raunin. Samþykkt þáltill. mundi um nokkurra ára bil skerða lánagetu Byggingarsjóðsins og mundi draga úr sparnaði ungmenna að sjálfsögðu og gera þeim erfiðara um vik að eignast sína fyrstu íbúð. Ég er algjörlega sammála hv. 7. þm. Reykv. um þetta mál.

Þess vegna og með hliðsjón af þeirri skoðanakönnun sem hæstv. félmrh. skýrði frá hér áðan er ég andvígur þessari þáltill. sem hér er til umræðu, efnislega andvígur henni, en ég er auðvitað sammála hv. flm. um það að nauðsynlegt sé að einfalda framkvæmd skyldusparnaðarins og draga úr skriffinnsku.