26.02.1987
Sameinað þing: 56. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3553 í B-deild Alþingistíðinda. (3139)

277. mál, afnám skyldusparnaðar ungmenna

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um afnám skyldusparnaðar ungmenna. Ég játa það að mér hefur alltaf fundist mikil þversögn í því að stjórnarskráin skuli áskilja mönnum þann rétt að þeir séu fjár síns ráðandi er þeir hafa náð vissum aldri, en svo ákveði Alþingi með lagasetningu að flokka þá í hópa sem eru fjár síns ráðandi á þann hátt að vissum hluta þegnanna er ætlað að ástunda skyldusparnað. Og þeir eru ekki dregnir út eftir aldri einum saman. Þeir eru dregnir út eftir því hvort þeir stunda skólagöngu. Þeir eru dregnir út eftir því hvort þeir kvænist. Eftir þessum leikreglum virðist það eiga að fara hvort menn eigi í reynd að vera að fullu fjár síns ráðandi eða ekki. Ég játa það að ég hef sett mikið spurningarmerki við hvort þetta sé eðlilegt.

Hin atriðin, sem rétt er að rifja hér upp, eru þau að á sínum tíma og enn hefur þetta verið frádráttarbært frá skatti. Nú aftur á móti virðist vera ætlunin að standa þannig að málum að þetta verði ekki lengur frádráttarbært frá skatti. Það er verulegt atriði ef þetta er skoðað. Réttlætingin, sem fólst í því að leggja á skyldusparnaðinn á þann hátt að ríkið tæki þátt í skyldusparnaðinum með ungmennunum, var hin fyrsta forsenda og gerði það mun auðveldara að mínu viti að sætta menn við þetta böl. Ég tel að Húsnæðisstofnun hafi einnig á tvo vegu áþreifanlega brugðist því trausti sem á hana var lagt:

Í fyrsta lagi reyndist það svo að verðtryggingin var rangt út reiknuð og menn þannig sviknir um eðlilegar greiðslur. Í annan stað var það ákvæði, sem var í gömlu lögunum, um að menn gætu vænst þess að njóta viss forgangs út á það að hafa sparað, viss forgangs í lántökum, þetta ákvæði kom aldrei til framkvæmda. Þetta var einfaldlega svikið. Það skyldi því engan undra að í dag treysta ungmenni fáu í þessum efnum.

Ég tel að ef ætlunin er að viðhalda skyldusparnaðinum þá sé tómt mál um það að tala að standa þannig að því eins og nú blasir við: Ungmennin séu skyldug að spara, þau muni ekki fá jafnmikla vexti af þessu fé og öðru, þau fái engin forréttindi til lántöku og þau fái enga skattaívilnun í tengslum við þetta. Þetta eru atriðin sem ég held að verði að koma þarna inn. Ef hægt er að fá það viðurkennt að hámark sem tekið verði af ungu fólki séu 35% og skyldusparnaðurinn verði þá hafður innan þess geira, þá er hægt að horfa á þetta sem hagsbótaratriði fyrir æsku landsins. Og við þurfum vissulega að færa fjármagn á vissan hátt til þessara aðila. En ef við ætlum að standa þannig að þessu að ungt fólk sitji uppi með það að fá 50% tekið af sínum launum, þá má spyrja: Eru menn fjárráða?

Ég hef vissulega mikla samúð með þeim málflutningi sem kom hér fram hjá Guðmundi J. Guðmundssyni, 7. þm. Reykv., að þetta hefði orðið ýmsum til gæfu vegna þess að hann hefði ekki haft ella vit á því að varðveita sitt fé. Þetta eru vissulega rök sem hægt er að hlusta á. En ég undirstrika það að í því formi, sem skyldusparnaðurinn er í dag, tel ég að það sé ekki verjandi að halda honum áfram. Ég tel að það sé ekki verjandi að standa þannig að málum.

Það getur vel verið að það verði til þess að Húsnæðisstofnun taki þá afstöðu að veita þeim aðilum, sem hafa sparað, einhvern forgang gagnvart lánum fram yfir hina. Ef það kæmi þarna inn er trúlegt að hægt væri að benda á það sem atriði sem gæti réttlætt þetta. En ég spyr sjálfan mig að því enn og aftur: Er hugsanlegt að þeir sem sömdu stjórnarskrána hafi litið svo á að ef menn ekki mundu kvænast eftir ákveðinn tíma, þá væru það raunverulega mistök að hafa þá fjár síns ráðandi?

Ég veit að það eru skiptar skoðanir um þetta mál. Ég skil það vel að félmrh. þurfi að leggja á það áherslu að það sé sterk staða hjá Húsnæðisstofnun. Og ég fagna þeirri ákvörðun hans að hafa gefið fyrirmæli um að reikna út þau mistök sem átt höfðu sér stað og að þær bætur verði greiddar. En engu að síður staldra ég við og spyr sjálfan mig að því: Er það réttlætanlegt út frá öðrum sjónarmiðum, m.a. því sjónarmiði hvað þetta nálgast það að vera brot á stjórnarskránni? Er réttlætanlegt út frá því sjónarmiði að viðhalda þessu kerfi?

Ég veit að sumir hafa sett það upp rökfræðilega á þann hátt að fyrst ríkið eða þingið hafi heimild til að leggja á skatta og taka til sín fé, þá hljóti því einnig að vera heimilt að skylda menn til að spara. Þetta er þó ekki sjálfgefið.

Herra forseti. Ég hef eytt þeim tíma sem mér er hér ætlaður og sé ekki ástæðu til að ganga á þann rétt og hef þessi orð ekki fleiri.