26.02.1987
Sameinað þing: 56. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3559 í B-deild Alþingistíðinda. (3143)

315. mál, varnir gegn mengun hafsins við Ísland

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka flm., hv. 2. þm. Reykn. og meðflutningsmönnum hans, þessa mjög svo góðu og þörfu till. Og ekki vil ég síður þakka hv. 2. þm. Reykn. Gunnari Schram fyrir ákaflega greinargóða og upplýsingagefandi ræðu um þetta mjög svo alvarlega mál. Eins og kom fram í hans máli er ljóst að þó að allir eigi mikið undir því að hafið verði ekki mengað þá yrði það náttúrlega algert hrun fyrir íslenskt þjóðlíf og íslenska þjóð ef hafið mengaðist svo í kringum Ísland að fiskistofnarnir mundu eyðast. En jafnframt því sem ég ítreka þakkir mínar til hv. 2. þm. Reykn. fyrir hans góðu ræðu hér og ábendingu um að halda um þetta ráðstefnu, það hefur oft verið talin ástæða til að halda ráðstefnu um minna, þá vil ég geta eins atviks, sem ég fékk upplýsingar um en minnist hvergi að hafi komið í fjölmiðlum, og mér gengi nú sennilega illa að sanna, en ég veit að er rétt. Þannig hagar til - og lítur nú hv. þm. Tryggvi Gunnarsson upp - að dýptarlínan fyrir Suðurlandi eða landgrunnið nær mjög skammt það er ekki nema svona eitthvað 8 mílur út af Dyrhóley þegar komið er niður úr 1000 metra mörkunum. Hins vegar er yfir 2000 metra dýpt á hafinu svona 50-70 mílur suð-suðaustur af Hjörleifshöfða, Skarðsfjöru, er mér sagt. Á þessu svæði, þar sem er yfir 2000 metra dýpt á sjó, hefur a.m.k. tvisvar sinnum sést skip sem ekki hefur verið á beinni siglingaleið, hefur verið í svona krókasiglingum fram og aftur. Í báðum tilfellunum sem mér er kunnugt um voru þetta skip ekki óáþekk þeim sem tíðkast við olíupallana í Norðursjó. Þau höfðu engan áfangastað, hvorugt skipið sigldi í beina átt, voru á siglingu þarna fram og aftur og það leikur sterkur grunur á því að þarna væri verið að losa úrgangsefni í hafið langt innan við fiskveiðilögsögu Íslendinga.

Eins og fram kemur í þessari ágætu till. er vitað að það er ekki síður hætta af losun eitur- og úrgangsefna í hafið, eins og átti sér stað fyrr á árum á milli Íslands og Noregs, og sérstök alþjóðastofnun sem á að sjá um takmarkanir á því. Þessi alþjóðastofnun er í London og það á að tilkynna henni um öll úrgangsefni sem munu vera mest frá Þýskalandi, Hollandi, Belgíu o.s.frv. Það er yfirleitt losað vestur af Biskayaflóa, á miklu dýpi þar. En það eru ákaflega mikil vanhöld á að þessar upplýsingar séu gefnar. Þessi alþjóðastofnun á að sjá um að úrgangsefnin séu í umbúðum sem þola nokkur hundruð ára geymslu. Í kringum þetta er mjög farið, ekki einungis að þessi eiturefni séu losuð víðar, það er rökstuddur grunur um að það hafi átt sér stað, ekki í stórum mæli en einhverjum mæli, 50-70 mílur suður af Skarðsfjöru, sem er nokkuð suðaustur af Hjörleifshöfða að mér er sagt. Þeir sem þurfa að losna við þessi eiturefni sækjast eftir að losa þau annars staðar en á hefðbundna svæðinu til þess að vera ekki bundnir þeim stífu ákvæðum sem gilda um umbúðir um þau. Þess vegna sækja þeir annað, þar sem dýptin er 2000 metrar eða svo.

Ég held að það sé ákaflega mikil þörf á því að sú góða stofnun sem við höfum og nýtur alþjóðaviðurkenningar, Hafrannsóknastofnun, taki sýni af sjó á misjöfnu dýpi suður af landinu. Þetta er eitt af því sem þyrfti að ræða á ráðstefnunni vegna þess að straumarnir þarna - hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gæti lýst þessu nánar, hann þekkir hafsbotninn alveg að Rockall - liggja suður og vestur með landinu og svo austur með Norðurlandi.

Nokkrir skipsfarmar af eiturefnum frá verksmiðjum geta haft óhugnanleg áhrif. Ég tek þetta bara sem örlítið dæmi um að hve mörgu er að hyggja og hvað þetta er þörf till. Það skyldi nú aldrei vera að við, sem getum stært okkur af því og beinlínis blómstrum á erlendum mörkuðum af því við erum með ómengaðan sjó og ómengaðan fisk, að við séum þegar komin inn á hættusvæðið, m.a. vegna skorts á eftirliti?

Ég fagna þessari till. og vona að félmn., sem ég á reyndar sæti í, afgreiði þetta fljótt og jákvætt frá sér. Það er brýn þörf, sómi Alþingis að efna til þessarar ráðstefnu og þjóðin á mikið undir því að við séum vakandi í þessum efnum.