26.02.1987
Sameinað þing: 56. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3561 í B-deild Alþingistíðinda. (3145)

315. mál, varnir gegn mengun hafsins við Ísland

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil færa flm. þessarar till. sérstakar þakkir fyrir að koma með þetta fram og sérstaklega þakka ég hv. 2. þm. Reykn. ágæta framsögu. Það er reyndar fátt sem ég hef við þetta að bæta. En þó er það aðeins eitt. Ég held að ef við mundum sæta svipaðri mengun, í álíka magni og hefur gengið yfir Norðursjó og Eystrasalt, á þessu svæði okkar hér, þessu kalda norðursvæði þar sem lífríki allt er miklu viðkvæmara, þá þyrfti, eins og ég held að hv. 2. þm. Reykn. hafi nefnt í ræðu sinni, það þyrfti ekki um þetta að binda frekar. Þetta væri dauðadæmt, a.m.k. fyrir þær kynslóðir sem nú væru hér uppi, ef við yrðum fyrir álíka slysi.

Ég þakka einnig hv. 7. þm. Reykv. fyrir ágæta kennslu sem hann veitti mér í hafdjúpinu hér í kringum okkur og straumfræði líka. Ég er hér með kort fyrir framan mig á fskj. 2 með þskj. 557, þar sem sýndir eru helstu straumar, þyngstu straumarnir. En ég hef séð önnur straumkort en þetta og þar liggja straumar ekki nákvæmlega svona, það koma ýmsar greinar út frá þessu og það fer ekki alveg þessa leið allt saman. Þetta eru hringstraumar og það eru þverstraumar og alla vega straumar á þessu svæði. Og þeir liggja miklu meira upp að landinu, þessar smágreinar brotna á Færeyjahryggnum, sem liggur frá Íslandi um Færeyjar og allt til Skotlands, að vísu smááll á milli Hjaltlands og Færeyja sem meginstraumurinn fer í gegnum. En hann brotnar samt þessi straumur upp að Íslandsströndum. Að það taki 4-6 ár að koma þessari svívirðingu sem þessir mengunarvaldar ausa þarna út frá sér það held ég að sé sá tími sem við getum ekki ætlað því að vera þá leið. Ég tel að það taki miklu skemmri tíma, ég þori ekki að segja hvað langan tíma, en hitt er víst að það mundi vera miklu skemmri tími.

Eitt verð ég þó nefna í lokin. Það eru ekki einasta straumarnir sem ég er hræddur um að geti flutt þetta, heldur geti sýktar fiskitegundir sem rása á milli, þar er nú selurinn einn og það eru jafnvel botnfiskar, djúpsjávarfiskar sem við erum að fá upp af suðlægum slóðum, sem villast hér upp að landinu, hver veit nema þeir geti flutt okkur þennan voða frá þessum stöðum?

Hv. 7. þm. Reykv. minntist hér á einhver torkennileg skip. Þetta hef ég aldrei heyrt, að þessi skip væru svona nærri okkur, en ég veit að hann er ekki að segja þetta út í loftið. Það er uggvænlegt að heyra þetta, ef slíkt getur verið á ferðinni innan landhelgi okkar, að þeir skuli leyfa sér slíka svívirðu.

Að lokum, herra forseti, þá nefndi hv. 2. þm. Reykn. að ýmsir stofnar gætu verið í hættu, þar á meðal selastofninn. Þarna er ég honum andvígur. Ég held að hann mætti nú minnka dálítið.