28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Frsm. minni hl. utanrmn. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hl. utanrmn. sem ég stend að, en meiri hl. hefur skilað sínu áliti og telur að öll atriði sem rædd voru við fyrri umræðu liggi nú ljós fyrir. Þetta er hans álit, ekki mitt, því að þó að þau efni hafi verið rædd í utanrmn. er langt frá því að farið hafi verið yfir þessi mál á fullnægjandi hátt að mínu mati. Það kemur fram í mínu nál. sem ég mun styðjast við um leið og ég geri grein fyrir áliti mínu sem minni hl. nefndarinnar og bæta þar nokkru við sem snertir málið og kemur ekki fram í nál.

Ég vil í upphafi nefna að það þarf talsvert hugmyndaflug til að ráða í hvaða mál býr að baki þessari þáltill. ríkisstjórnarinnar um fullgildingu samnings milli Íslands og Bandaríkjanna „til að auðvelda framkvæmd varnarsamstarfs ríkjanna“ eins og það heitir. Gátan verður ekki auðleystari þegar lesið er áfram í textann á fskj. 1, sem er samningurinn sem fylgir með þáltill., en þar er vitnað í inngangi í það að ríkisstjórnir lýðveldisins Íslands og Bandaríkja Ameríku taka mið af mikilvægi varnarsamningsins fyrir samskipti Íslands og Bandaríkjanna svo og einstæðu gildi hans fyrir Norður-Atlantshafsbandalagið. En þar kemur þó að rofar til í þessum texta, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. vakti athygli á við fyrri umræðu um þetta mál að væri nokkuð torræður, því að þar viðurkenna ríkisstjórnirnar að sanngjörn þátttaka skipa beggja landanna í vöruflutningum vegna varnarsamningsins muni „treysta samskipti aðilanna og bæta samvinnu á nauðsynlegum sviðum varnarmála“ eins og það heitir. Þarna er kominn kjarni þess samnings sem hér á að fá heimild til að staðfestur verði, þ.e. að samningsbinda það sem hér hefur verið kallað „aronska“, í þessu tilviki að því er snertir hergagna- og vöruflutninga á sjó fyrir bandaríska setuliðið hérlendis.

Talsmenn þessa samnings, þar á meðal hæstv. utanrrh., reyna að sveipa mál þetta í hugsjónir og nota orð eins og „frjáls samkeppni“, „frjálsar siglingar“, „samkeppni og eðlileg viðskipti“ máli sínu til stuðnings, en þegar komið er að kjarna þessa samnings og meðfylgjandi samkomulags liggur fyrir niðurnjörvuð kvótaskipting sem þannig er orðuð í 1. gr. samningsins, með leyfi forseta:

„Þessum markmiðum verði náð með því að Bandaríkin og Ísland komi sér saman um skiptingu farms sem flytja skal sjóleiðis vegna varnarsamningsins milli skipa sem gerð eru út af íslenskum skipafélögum og bandarískra skipa á grundvelli slíkrar samkeppni“, þ.e. kvótaskiptingarinnar.

Þessi niðurstaða um kvótaskiptingu flutninganna í hlutfallinu 65% á móti 35% er mjög í ætt við alkunn helmingaskipti sem hér hafa lengi verið tíðkuð í framkvæmdum fyrir herliðið á Keflavíkurflugvelli undir verndarvæng þeirra flokka sem nú sitja í ríkisstjórn landsins. Það er líka mjög í ætt við skilning forustumanna í Sjálfstfl. og Framsfl. á viðskiptafrelsi að skv. 1. gr. samkomulagsins, þ.e. fskj. 2, er íslenskum og bandarískum stjórnvöldum ætlað að vera með nefið niðri í mati á tilboðum hverju sinni. En lesa má í fskj. 2, með leyfi forseta:

„Ef áður nefnt næstlægsta tilboð er frá íslensku skipafélagi og bandarísk stjórnvöld, sem annast samningagerð, telja tilboðið ósanngjarnt skulu aðilar að samkomulagi þessu ráðgast um hvað sé sanngjarnt farmgjald fyrir flutningana.“

Auðvitað verður allt þetta ráðslag væntanlega undir formerkjum sem ganga eins og rauður þráður í gegnum þau skjöl sem hér liggja fyrir „til að auðvelda framkvæmd á varnarsamstarfi ríkjanna“.

Flutningamagnið var til umræðu í hv. utanrmn. þar sem ég óskaði eftir upplýsingum þar að lútandi og hefur þegar komið fram hjá talsmanni meiri hl. nefndarinnar. Þarna er um að ræða, miðað við tvö ár, 1983 og 1985, u.þ.b. 12 000 tonn að magni til sem flutt eru sjóleiðis. Og samkvæmt upplýsingum sem mér voru veittar og koma frá varnarmálaskrifstofunni, að ég hygg, er flutningskostnaður undanfarin ár pr. tonn á sjóleiðinni milli Íslands og Bandaríkjanna u.þ.b. 800-850 bandaríkjadalir. Þannig hanga á spýtunni um 10 millj. bandaríkjadala eða nálægt 400 millj. ísl. kr. ef þessar tölur um magn og verð eru nærri lagi og er ég ekki að vefengja þær út af fyrir sig. Hins vegar mun það hafa gerst á undanförnum árum að flutningar flugleiðis fyrir „varnarliðið“ munu hafa farið vaxandi.

Utanrmn. fékk vegna beiðni minnar um upplýsingar varðandi staðhæfingu Rainbow-skipafélagsins að það gerði ekki athugasemdir við þennan samning fréttatilkynningu frá Rainbow-skipafélaginu dags. 30. sept. s.l. Þar má lesa m.a. að þótt hergagnaflutningum sé beint til íslenskra skipafélaga, andstætt lögunum frá 1904, bandarísku lögunum, muni þátttaka skipa undir bandarískum fána svo og tekjur og störf haldast að fullu eins og þegar lögin voru í gildi. Það er líka tekið fram í þessum texta frá Rainbow að bandarísk og íslensk stjórnvöld muni ganga fram af góðum vilja, „in good faith“ eins og það heitir á enskunni, til að ryðja úr vegi öllum hindrunum sem gætu staðið í vegi fyrir aðild bandarískra skipa að almennum vöruflutningum á sjó til og frá Íslandi.

Þessar yfirlýsingar frá Rainbow, gefnar 30. sept., benda vissulega til þess að skipafélagið bandaríska hyggist nota þennan samning til að styrkja stöðu sína í samkeppni við íslensk skipafélög um almenna vöruflutninga og hafi fengið vilyrði frá bandarískum stjórnvöldum um að félaginu yrði bættur sá spónn sem það kann að missa úr aski í hernaðarflutningum.

Menn spyrja: Hvernig á þetta að gerast? Ég bið menn um að líta í fskj. 2, tölul. 1, þar sem fjallað er um útfærslu á þessu samkomulagi, þetta er að finna í þskj. 20, en þar er um það fjallað hvernig staðið yrði að málum eftir því hvert næstlægsta tilboðið fari. Það kom fram sá misskilningur við fyrri umræðu, m.a. frá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, að þar gilti alveg það sama fyrir íslenska aðila og bandaríska, alveg það sama, hann var að gera athugasemd við mitt mál þá. En er það það sama? Við lesum í fskj., með leyfi forseta:

„Ef áður nefnt næstlægsta tilboð er frá skipafélagi með skip undir bandarískum fána og bandarísk stjórnvöld, sem annast samningagerð, tilkynna skipafélaginu að þau telji tilboð þess ósanngjarnt skal skipafélagið þó láta í té öll gögn um kostnað þess við flutningana.“ - Og síðan kemur: „Stjórnvöldin skulu kanna gögn þessi og gera síðan samning um réttmætt farmgjald sem tekur viðunandi tillit til kostnaðar skipafélagsins miðað við eðlilega hagkvæmni í rekstri, auk sanngjarns hagnaðar.“ - Auk sanngjarns hagnaðar.

Það er von að menn hristi sig í ræðustól í umræðum um þetta mál og segi: Hvað eru menn að fara? Hvað eru talsmenn Alþb. að fara í sambandi við þetta mál? Eru þeir að gera því skóna að það séu einhverjar milligjafir - einhverjar milligreiðslur þarna á ferðinni í sambandi við þetta? Nei, ónei. Slíkt kemur að sjálfsögðu ekki til greina í tengslum við fagrar hugsjónir sem eru að rætast, hæstv. utanrrh.

En Rainbow-skipafélagið segir annað og því hentar að greina frá því í opinberri fréttatilkynningu og það stendur í fskj. með þessum samningi. Að vísu er ég að lesa íslenskan texta sem ekkert formlegt gildi hefur og hef ekki farið ofan í þýðinguna að þessu leyti, en þarna stendur að bandarísk stjórnvöld eigi að semja þarna um sanngjarnt verð, sanngjarnan hagnað til Rainbow eða við bandarískt skipafélag annað sem þarna kæmi við sögu. En varðandi íslenska aðila segir:

„Ef áður nefnt næstlægsta tilboð er frá íslensku skipafélagi og bandarísk stjórnvöld, sem annast samningagerð, telja tilboðið ósanngjarnt skulu aðilar að samkomulagi þessu [þ.e. íslenskir og bandarískir] ráðgast um hvað sé sanngjarnt farmgjald fyrir flutningana.“

Þá eru það tveir, Ísland og Bandaríkin. Hitt er sjálfdæmi Bandaríkjanna, hvað þau meta að þurfi að greiða í milli til þess að Rainbow-skipafélagið eða önnur bandarísk félög fái sanngjarnan hagnað og uni sínu og láti ómótmælt þessum þyrni í holdi íslenskra stjórnvalda í sambandi við samskiptin við herinn. Svo er það mál út af fyrir sig hvernig að þessu er staðið hér innanlands. Hæstv. utanrrh. hefur farið bónarveginn að aðilum, bæði íslenskum skipafélögum eins og til dæmis Eimskip og bandarískum stjórnvöldum: Í öllum bænum gætið þið þess nú að það verði ekki breyting á því, sem verið hefur síðustu árin, að þessu verði skipað upp í Njarðvíkurhöfn. En hæstv. ráðh. og íslensk stjórnvöld hafa enga vissu um hvernig þau mál muni þróast svo að menn geta vel átt eftir að sjá að þessi farmur, þessi væntanlegi meinlausi farmur því að allir lyklar liggja nú víst fyrir vel læsilegir fyrir íslensk tollvöld eftir því sem hv. 4. þm. Norðurl. v., talsmaður meiri hl. utanrmn., upplýsti áðan, geti farið í gegnum Reykjavík og byggðarlögin landleiðis suður á Keflavíkurflugvöll.

Þetta eru þýðingarmikil atriði við þetta mál sem ekki þurfti að fjalla um nema á tveimur fundum utanrmn. og engin í rauninni marktæk gögn sem þar voru lögð fram nema umsögn frá Baldri Möller fyrrv. ráðuneytisstjóra, sem ég á eftir að fjalla um á eftir, um spurninguna hvort ætti að leggja mál þetta fyrir Alþingi.

Kem ég þá að 4. gr. samningsins á fskj. i. Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að vitna í þessa grein vegna samhengis. Hún hljóðar svo:

„Ákvæði samnings þessa og sérhvers samkomulags um framkvæmd hans sem gert er skv. 1. gr. skulu ganga fyrir ákvæðum hvers kyns eldri ósamrýmanlegra laga eða reglugerða lýðveldisins Íslands eða Bandaríkja Ameríku.“

En í athugasemdum með till., staðhæfir ríkisstjórnin sem leggur till. fram: „Er hér átt við bandarísk lög frá 1904, Cargo Preference Act, en á Íslandi er ekki um að ræða ósamrýmanleg lög.“ Þið tókuð eftir því, hv. þm., að talsmaður meiri hl. utanrmn. staðhæfði að hér væri ekki um nein eldri íslensk lög önnur ósamrýmanleg að ræða. Það hlyti að vera komið fram ef svo væri. En það var engin könnun gerð á þessu máli á vegum utanrmn. Við höfðum a.m.k. ekkert skriflegt frá utanrrn. um athugun á því máli, ekki nokkuð. En meiri hl. tekur allt saman trúanlegt sem hér kemur fram um þetta atriði og ég er út af fyrir sig ekki að vefengja að það hefur gildi fyrir málið. Nógu veikt er það samt fyrir þá sem ætla að fara að gera þennan samning að meiri hl. nefndarinnar hefur þann skilning og trú að þarna séu engin eldri ósamrýmanleg íslensk lög. En það er bara þeirra trú. Athugun hefur ekki farið fram á vegum nefndarinnar.

Við skulum nú víkja að hæstv. utanrrh. Matthíasi Á. Mathiesen sem lét þau ummæli frá sér fara, það hefur líklega verið annan hvorn sólarhringanna 24. eða 25. sept., það er erfitt að staðsetja það nákvæmlega vegna tímamunar milli Íslands og Norður-Ameríku, en hæstv. ráðh. var þá staddur á meginlandi Norður-Ameríku að því er ég hygg, og þau ummæli eru eftir honum höfð í íslensku ríkisfjölmiðlunum, að samning þennan þyrfti ekki að leggja fyrir Alþingi og þá skoðun endurtók ráðherrann í umræðum 14. okt. s.l. Ég mótmælti þessum sjónarmiðum strax í blaðaviðtali 25. sept., hygg ég að það hafi verið, og taldi það með fádæmum ef svo ætti að ganga fram. (Utanrrh.: Það var 20. sept.) 20. sept. Það leiðréttist hér með. Það hefur þá verið áður en hæstv. ráðh. undirritaði samninginn ásamt Shultz utanríkisráðherra Bandaríkjanna, en það mun hafa verið 24. sept. Hann hafði þetta allt á hreinu fjórum dögum fyrir undirritun. En við þetta gerði ég athugasemd eins og ég gat um. Hér vil ég ítreka að ég tel að það hefði verið óhæfa að leita ekki staðfestingar Alþingis á gjörningi eins og þessum þar sem m.a. er kveðið á um, eins og greinir í 4. gr., að samningurinn gangi fyrir ákvæðum hvers kyns eldri ósamrýmanlegra laga eða reglugerða lýðveldisins Íslands. Og það er mikil spurning, á því vek ég athygli, hvort ekki ber að veita samningi sem inniheldur slíkt ákvæði formlegt lagagildi en ekki láta sitja við þál. eina.

Utanrrh. ber fyrir sig umsögn Baldurs Möllers, virðulegs fyrrv. ráðuneytisstjóra, sem hefur veitt utanrrh. slíka umsögn 25. sept. svo að ekki virðist ráðherrann hafa haft hana handa á milli 20. sept. þannig að hann fær þessa skriflegu umsögn frá ráðuneytisstjóranum fyrrverandi sem hann byggði svo á í umræðunum um daginn 14. okt., eftir á. Þessi umsögn ber heitið „Hvenær er skyldugt að leggja milliríkjasamninga fyrir Alþingi?" Höfundurinn, Baldur Möller, vitnar þar m.a. í 21. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir - og nú styðst ég við þá greinargerð sem utanrmn. fékk ljósrit af:

„Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi og ef þeir horfa til breytinga á stjórnarlögum ríkisins nema samþykki Alþingis komi til.“

Ég leit aðeins í stjórnarskrána eins og ég á hana í sérprenti frá Alþingi. Þar er ekki talað um stjórnarlög ríkisins, hæstv. utanrrh. Þar er talað um stjórnarhagi ríkisins. "... ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins nema samþykki Alþingis komi til.“

Nú vil ég ekki fara að túlka þær missagnir sem koma fram í umræddri greinargerð frá ráðuneytisstjóranum og sem stuðst hefur verið við af utanrmn., en mér þykir mjög miður að það skuli hafa verið í gangi við meðferð þessa máls rangar tilvitnanir í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, talað um stjórnarlög í staðinn fyrir stjórnarhagi. Það er verkefni fyrir lögspaka menn að kynna sér hvort þarna eigi hið sama við varðandi það mat sem síðan kemur fram hjá ráðuneytisstjóranum og meiri hl. utanrmn. hefur gert að sínu með hæstv. utanrrh. í fararbroddi, en í umsögn sinni segir Baldur Möller síðan m.a.:

„Meira tvímælis getur orkað um til hverra atriða nái fyrirvarinn um að samþykki Alþingis þurfi til ef samningur horfir til breytinga á stjórnarlögum ríkisins.“ Og enn er misræmi í tilvitnun í stjórnarskrána.

Ég skil að vísu ekki alveg orðalagið hjá ráðuneytisstjóranum í þessari grein, en hann heldur áfram:

„Fræðimenn telja að hér sé frekast haft í huga að samningur valdi því að breyta þurfi gildandi lögum, jafnvel mikilvægum lagaatriðum, til þess að efnisatriðum samnings yrði fullnægt. Væri því að þeirra dómi öruggast fyrir handhafa framkvæmdavalds“ takið eftir „að leggja til grundvallar þann skilning að leggja beri fyrir Alþingi alla samninga er valdi því að lögum þurfi að breyta vegna efnis þeirra. Það sýnist ljóst að samningur þessi breytir ekki stjórnarlögum ríkisins“, eins og vitnað er til 21. gr. að því er virðist ranglega, „með neinum skilgreinanlegum hætti. Það er því niðurstaða þessarar athugunar að ekki beri skylda til að leita samþykkis Alþingis á þessum samningi.“ Tilvitnun í ráðuneytisstjórann fyrrv. lýkur og er það meginniðurstaða hans. Hins vegar segir hann þrátt fyrir þessa niðurstöðu sína eftirfarandi: „Þess skal getið að þar sem hinn undirritaði samningur inniheldur ákvæði um fullgildingu ber að sjálfsögðu að leggja hann fyrir forseta Íslands til staðfestingar.“

Samkvæmt þessu er alveg ljóst að það hefur verið ásetningur hæstv. utanrrh. við undirritun samningsins, og fyrir undirritun samningsins eftir því sem hann upplýsti áðan, að leggja samninginn ekki fyrir Alþingi en ætlast samt til þess að forseti Íslands staðfesti hann án þess að þjóðþingið hefði um hann fjallað.

Ég hefði ekki viljað vera í sporum forseta Íslands að staðfesta slíkan samning án þess að þjóðþingið hefði um hann fjallað og skal ég þó ekkert segja með hvaða hætti forseti Íslands, hver sem því embætti gegndi, brygðist við slíkri málaleitan af hálfu framkvæmdavaldsins.

En ég tel rétt, herra forseti, að vekja hér athygli á eftirfarandi viðhorfi dr. Ólafs Jóhannessonar lagaprófessors sem kemur fram í riti hans „Stjórnskipun Íslands“, II. hluti, bls. 374, undirbúið til útgáfu m.a. og sérstaklega af hv. 2. þm. Reykn. Gunnari G. Schram sem undirbjó þennan texta að riti hins lærða lagaprófessors til útgáfu. Þar segir:

„Í milliríkjasamningi kunna að vera ákvæði sem ósamþýðanleg eru íslenskum lögum, venjulegri löggjöf eða stjórnarskrárákvæðum. Slíkum lagaákvæðum er réttast að breyta“ - hæstv. utanrrh. leggur væntanlega við hlustir - „áður en fullgilding samningsins fer fram. Sé samþykki Alþingis veitt í lagaformi gætu þau lög jafnframt veitt samningnum lagagildi og yrðu þá eldri lagaákvæði, er brytu í bág við hann, að þoka. Séu nauðsynlegar lagabreytingar eigi gerðar áður en samningur er fullgildur er spurning hvernig fari.“

Og áfram heldur prófessor Ólafur Jóhannesson: „Hafi Alþingi heimilað samninginn með þingsályktun fullnægir samningurinn fyrirmælum 21. gr. stjórnarskrárinnar og er því gildur að þjóðarétti, en felist í samningnum ákvæði, sem andstæð eru landslögum, skortir hann að því leyti gildi að íslenskum lögum. Slík samningsákvæði fá hér ekki lagagildi fyrr en búið er að breyta íslenskri löggjöf til samræmis við samninginn, sbr. l. nr. 5/1969, um framkvæmd fyrirmæla Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.“

Og áfram má vitna í prófessor Ólaf þessu til stuðnings og vísa ég til greinargerðar þar að lútandi, grg. minni hl. utanrmn.

Þetta álit prófessors Ólafs Jóhannessonar rennir frekari stoðum undir það viðhorf minni hl. utanrmn. að ótækt hefði verið að leggja samningana ekki fyrir Alþingi og það hefði fremur átt að gerast í formi lagafrv. en þáltill., sbr. ákvæði 4. gr. samningsins.

Kem ég þá að einu af mörgum endemum við þennan samning, en það er sú staðreynd að samningurinn er gerður í tvíriti á ensku. Þeir skiptust á enskum textum, hæstv. ráðherrar Shultz og Mathiesen, vestur í New York 24. sept. eins og tekið er fram í lokagrein samningsins. Hinir íslensku ábekingar samningsins hafa vissulega vakið á þessu verðskuldaða athygli. Má segja að þeir hafi riðið á vaðið að því leyti hér á Alþingi þegar þeir voru að fjalla um þýðinguna og reyna að svara ýmsum aðfinnslum, bæði hér og í utanrmn. varðandi þessa þýðingu sem flestir munu hafa reynt að notast við þegar þeir voru að kynna sér efni þessa hugsjónamáls ríkisstjórnarinnar að bæta um samvinnu á nauðsynlegum sviðum varnarmála með þeim hætti sem hér er lagt til.

Það er óhætt að fullyrða að það er leitun að hliðstæðum sem þessari í samningum milli ríkja þar sem þjóðir mæla á ólíkum tungum og það í samningum milli ríkja sem telja vilja sig fullvalda. Talsmaður meiri hl. utanrmn. átti ekkert í vandræðum með að skýra þetta áðan. Jú, þetta væri nú lakara. En það lá svo mikið á því að það gátu einhverjir dollarar dottið undir borðið ef þetta ekki gengi fram, það gátu einhverjir dollarar tapast, bandaríska þingið farið í frí og eitthvað þess háttar, og því varð Ísland að beygja sig fyrir hinum bandaríska utanríkisráðherra, beygja sig kurteislega, takk. Enski textinn ... Ég skil hann. Síðan er þetta sull lagt fyrir Alþingi Íslendinga í þýðingu sem stjórnarliðar ganga hvað harðast fram í að gagnrýna, eins og kom fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. e. Ingvars Gíslasonar.

Góðir alþm. Við erum hér í raun að fjalla um enskan texta. Við erum að fjalla um enskt plagg. Íslenski textinn hefur ekki neitt gildi sem slíkur. Og hann er skotheldur eins og vakin hefur verið rækilega athygli á. T.d. er það sniðgengið að þýða „military cargo“. Það er það fyrsta sem menn hnutu um í þessum texta. Það hefur ekki passað að halda því til haga. Og virðulegur forseti Nd. Ingvar Gíslason talaði réttilega um, eins og hann orðaði það, „ýmiss konar vandræðalegt orðalag“ í umræðunum 14. okt. En það er raunar það lengsta sem Framsfl. hefur gengið í að finna þessum samningi eitthvað til foráttu.

Og þm. Alþfl., sem hlupu hér upp, það var hv. 3. þm. Reykn. Kjartan Jóhannsson, í umræðunum 14. okt., hlupu upp eins og skjaldsveinar fyrir hæstv. utanrrh., komust það lengst í aðfinnslum varðandi þetta gagnmerka plagg, sem á að „auðvelda framkvæmd varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna“, að benda á eina prentvillu í enska textanum. Það var formaður þingflokksins sem gerði það. Hv. 3. þm. Reykn. hafði ekki komið auga á hana eða haldið henni til haga. En að öðru leyti var allt gullslegið í þessum textum að mati þm. Alþfl.

Þrátt fyrir að menn viðurkenni ónákvæma og klúðurslega íslenskun á þessum samningi, einnig talsmenn samningsins hver eftir annan, sá meiri hl. utanrmn. ekki ástæðu til að bæta þar um á sínum vegum því það er enskan sem blífur. Hv. 4. þm. Norðurl. v. upplýsti okkur að vísu um að það væri ásetningur utanrrn. að yfirfara þennan texta eitthvað áður en send yrði vestur um haf með kveðju íslensk þýðing þessa plaggs, hvort sem það er gert fyrir málvísindamenn vestur í Washington eða af einhverjum öðrum ástæðum. Það er nokkuð óljóst til hvers á að senda endurbætta íslenska þýðingu á þessum samningi vestur um haf því að ekkert gildi hefur hún. Það hlýtur að eiga að fara í arkíf þar vestra til að færa mönnum heim sanninn um að menn geti nú tekið sig á hér uppi á Íslandi á eigin máli.

En það verður að segja, herra forseti, að þessi samningur, sem ríkisstjórnin lagði svo mikið kapp á að fá samþykktan og forseti Bandaríkjanna sjálfur hafði í vasanum þegar hann kom hingað í heimsókn um daginn til að hitta Gorbatsjoff á Íslandi, er einn af fáum tilburðum núverandi stjórnvalda hérlendis til að hafa aðra skoðun á samskiptum við Bandaríkin en stjórnin í Washington. Ég rakti það við fyrri umræðu þessa máls hvernig þar er staðið í ístaðinu þegar um er að ræða viðhorf á alþjóðavettvangi, afvopnunarmál, kjarnorkusprengingar og annað sem lýtur að örlögum mannkyns. Þá standa fulltrúar Íslands að fyrirmælum utanrrh. landsins eins og þvörur á alþjóðavettvangi með hendur í skauti. Þó að öll Vestur-Evrópa lyfti upp hendi í atkvæðagreiðslum og Norðurlöndin önnur en Ísland situr Ísland með hendur í skauti. En hér byrstir sig hæstv. utanrrh. Íslands og hefur jafnvel látið liggja að því að það hafi fallið ónotaleg orð í kaffiboðum í tengslum við þetta mál áður en því var kippt í liðinn og tryggður eðlilegur hagnaður til Rainbow og annarra bandarískra skipafélaga eftir duldum leiðum ef marka má orðalag í þessum samningi. Og kveikjan, hugsjónin á bak við þetta mál, er ósköp einföld. Hún er sú að íslensk fyrirtæki eigi að hafa sem mest upp úr veru erlends herliðs í landinu. Það er málið sem hér er verið að bera fram. Í því sé ekki síst fólgið mikilvægi varnarsamningsins fyrir samskipti Íslands og Bandaríkjanna. Þar enda hugsjónirnar þegar að buddunni kemur. Og það er athyglisvert að þegar kemur að afstöðu annarra flokka en flokks hæstv. utanrrh. hér á Alþingi, Framsfl., liggja fyrir ummæli hér, m.a. frá hv. 9. þm. Reykv., um að hann hafi ekki nokkrar athugasemdir við þetta mál að gera, ekki nokkrar. Framsfl. eins og hann leggur sig hér á Alþingi virðist ætla að ganga fram til að greiða atkvæði með þessari kristaltæru aronsku sem hér á að bera upp helst í dag á Alþingi. Engin athugasemd. Jú, endurskoðun „varnarsamnings“ einhvern tíma, en þá bara með góðu samkomulagi allra aðila, sagði hv. 9. þm. Reykv. í umræðunum um daginn. Ef þeir yrðu búnir að koma sér saman, höfðingjarnir sem ekki náðu saman í Höfða um daginn, skulum við rísa upp, framsóknarmenn, og sýna okkar styrk í þessu máli varðandi herstöðina og dvöl herliðsins, sýna hvað í okkur býr. Og þingflokkur Alþfl. Við reiknuðum svo sem ekki með að það kæmi mikið frá honum, en hann uppgötvaði þó eina prentvillu í textanum og benti á það. Það er sjálfsagt þakkarvert að því skyldi haldið til haga. Svo sem ekki búist við miklu meira.

Herra forseti. Alþb. hefur lýst öndverðri skoðun í þessu máli við þá flokka sem þarna hafa talað og ég hef verið að ræða um. Kvennalistinn átti fulltrúa í umræðunum um daginn og ég skildi málflutning þm. þess þingflokks svo að þar væri ekki stuðningur við þetta mál, en aðrir þingflokkar virðast ætla að styðja það.

Alþb. hefur lýst öndverðri skoðun og leggur áherslu á að á meðan því marki er ekki náð að herinn hverfi á brott eigi að leitast við að einangra herstöðvarnar og draga úr efnahagslegum tengslum og öðrum samskiptum við hið erlenda herlið. Jafnframt þurfi þjóðin að sameinast um öflugt átak til eflingar atvinnulífi á þeim svæðum sem einkum hafa byggt á vinnu fyrir Bandaríkjaher.

Með skírskotun til þess, sem ég hef hér sagt og fram kemur í nál. minni hl. utanrmn. varðandi þessa till., geri ég ráð fyrir að henni verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Þar eð fyrirliggjandi samningur milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkja Ameríku til að auðvelda framkvæmd varnarsamstarfs ríkjanna mun torvelda Íslendingum enn frekar en orðið er að taka afstöðu til veru erlends hers í landinu án tillits til efnahagslegra hagsmuna vísar Alþingi þáltill. á þskj. 20 frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir áliti mínu sem minni hl. utanrmn.