02.03.1987
Efri deild: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3566 í B-deild Alþingistíðinda. (3153)

18. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. kosningalaganefndar (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. kosningalaganefndar um frv. til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 52 14. ágúst 1959, með áorðnum breytingum.

Nefndin hefur rætt frv. og umræða hennar og umfjöllun mótaðist af því að nú er langt liðið á þingtímann og afgreiðsla þessa máls þolir vart bið lengur.

Nefndin kallaði Þorkel Helgason prófessor til viðræðu en hann hefur manna mest unnið að undirbúningi þessarar lagasetningar. Að öðru leyti beindist starf nefndarinnar einkum að þeim atriðum sem varða framkvæmd kosninga þann 25. apríl n.k. eins og ákveðið hefur verið með ákvæði til bráðabirgða í frv. eins og það kom frá Nd. Það reyndist nauðsynlegt vegna þessa að breyta ákvæðum um kærufresti og fresti varðandi auglýsingu listabókstafa. Eru fluttar brtt. um þessi atriði á sérstöku þskj. Þá flytur nefndin eina breytingu við úthlutunarákvæðin. Það er gert vegna ábendingar frá Þorkeli Helgasyni um að orðalag þurfi að vera skýrara hvað varðar lok fyrsta áfanga jöfnunarúthlutunar.

Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Hv. 11. þm. Reykv., Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, hefur skilað séráliti í málinu.

Ég mun nú gera í stuttu máli grein fyrir þeim breytingum sem meiri hl. nefndarinnar flytur á þskj. 702.

Við 1. mgr. 11. gr. bætist:

Nú eru fyrirskipaðar kosningar með svo stuttum fyrirvara að þetta verður ekki gert og skal þá birta auglýsingu þessa innan þriggja sólarhringa eftir að kosningar eru fyrirskipaðar.

Það er nauðsynlegt að flytja þessa brtt. Þar sem þessa auglýsingu á að birta með átta vikna fyrirvara fyrir kosningar getur sú staða komið upp að kosningar eru ákveðnar með skemmri fresti, eins og t.d. nú, og það er talið rétt að hafa tímatakmörk á því hve lengi ráðuneytið geti dregið að auglýsa listabókstafi. Þá er lagt til að orðin „og þremur dögum“ í 1. málsl. 2. mgr. falli brott og frestur til að tilkynna listabókstafi sé sá sami og framboðsfrestur.

3. mgr. orðist svo: Breytingar á auglýsingu ráðuneytisins og viðauka við hana skal þegar birta með auglýsingu og tilkynna landskjörstjórn og yfirkjörstjórnum.

Við ákvæði til bráðabirgða bætist ný mgr. svohljóðandi:

Við þær kosningar skal frestur til að koma fram með kæru vegna kjörskrár, sbr. 20. gr. laga þessara, vera til 6. apríl og skal sveitarstjórn skera úr aðfinnslum við kjörskrána á fundi, sbr. 1. mgr. 21. gr., eigi síðar en 13. apríl.

Það er nauðsynlegt að þetta ákvæði komi inn í lögin vegna bænadaganna nú. Ekki er talið að fundi sveitarstjórnar til afgreiðslu á aðfinnslum verði flýtt án sérstaks lagaákvæðis. En eins og lögin eru nú lendir hann á föstudeginum langa. Lagt er til að fundurinn verði eigi síðar en á mánudaginn fyrir bænadagana þannig að unnt sé að tilkynna aðilum fyrir hátíðina um afgreiðslu. Þess vegna þarf einnig að færa lok kærufrests fram til mánudags 6. apríl frá föstudegi 10. apríl.

Þá flytur nefndin á þskj. 702 brtt. við 35. gr. Lagt er til að aftan við ákvæði um 1. áfanga í 3. mgr. 113. gr. komi nýr málsliður er orðist svo: Þessum áfanga lýkur jafnskjótt og ekki finnast fleiri slíkar atkvæðatölur, enda hafi ákvæði d-liðar 2. mgr. áður verið beitt ef við á.

Í heild verða þá ákvæðin um 1. áfanga við úthlutun jöfnunarsæta og aðdraganda hans þannig: „Halda skal áfram úthlutun innan hvers áfanga svo lengi sem unnt er og ljúka henni og ákvörðun kjördæmistölu, ef þörf krefur, áður en úthlutun skv. næsta áfanga hefst.

Fyrsti áfangi: Fyrst skal úthluta þingsætum til lista með atkvæðatölu er nemur 4/5 af kjördæmistölu eða meira. Þessum áfanga lýkur jafnskjótt og ekki finnast fleiri slíkar atkvæðatölur, enda hafi ákvæði d-liðar 2. mgr. áður verið beitt ef við á.“

Með brtt. þessari er verið að taka af allan vafa um hvar fyrsta áfanga við úthlutun jöfnunarsæta í 113. gr. lýkur. Í þeim áfanga ber að úthluta jöfnunarsætum á grundvelli atkvæðatalna sem nema 4/5, eða 80%, af kjördæmistölu. Vegna endurreikningsákvæða í d-lið 2. mgr. sömu greinar verður að skoða það á undan hverri einstakri úthlutun hvort listi uppfyllir þetta skilyrði. Þannig kann atkvæðatala, sem ekki er yfir þessum mörkum við upphaf úthlutunar í fyrsta áfanga, að lyftast yfir þau síðar í áfanganum. Einnig getur atkvæðatala lækkað í kjölfar endurreiknings undir þetta mark og kemur hún þá ekki til álita við næstu úthlutun í áfanganum. Með þeirri viðbót sem felst í brtt. er hnykkt á því sem fram kemur í 3. málsl. 3. mgr., og ég las áðan, að 1. áfanga lýkur jafnskjótt og ekki er lengur að finna neina atkvæðatölu sem þá nær hlutfallinu 4/5 af kjördæmistölu, enda hafi tölur áður verið endurreiknaðar samkvæmt fyrrgreindu ákvæði ef það á við. Samkvæmt ákvæðum sama málsliðar er forgangsúthlutun þá endanlega lokið og gildir einu þótt atkvæðatölur kunni á síðara stigi úthlutunarinnar, í 2. eða 3. áfanga, að færast upp fyrir markið 4/5 af kjördæmistölu.

Þetta vildi ég að kæmi fram varðandi þessa brtt. Hér er ekki um neina efnisbreytingu að ræða, heldur er aðeins verið að skerpa orðalagið til þess að komast hjá misskilningi eða eftirmálum út af þessu ákvæði. Eins og segir í nál. er tillaga þessi flutt vegna ábendinga Þorkels Helgasonar prófessors sem verið hefur ráðgjafi kosningalaganefndar síðan þessi endurskoðun, sem nú er væntanlega að ljúka, hófst á árinu 1982.

Ég hef þá gert grein fyrir þeim brtt. sem meiri hl. nefndarinnar flytur. Efnisbreytingar eru eingöngu þær að gera það kleift tæknilega varðandi fresti að kosningar verði 25. apríl Að öðru leyti er hér um skarpara orðalag að ræða sem ekki felur í sér efnisbreytingar.

Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef nú gert grein fyrir.