02.03.1987
Efri deild: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3568 í B-deild Alþingistíðinda. (3154)

18. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. kosningalaganefndar (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hl. kosningalaganefndar sem er að finna á þskj. 706. Það er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Endurskoðun laga um kosningar til Alþingis hefur staðið yfir frá árinu 1982. Þessi endurskoðun var vel á veg komin þegar Samtök um kvennalista hlutu aðild að henni og niðurstöður hennar byggðust á samkomulagi þáverandi þingflokka. Þær niðurstöður liggja nú fyrir í þessu frv. og þótt frv. feli vissulega í sér réttarbót frá því sem nú er ber það þess merki að þar er reynt að sætta ósamrýmanleg sjónarmið. Ákvæði þess eru flóknari en nauðsyn krefur og sum hver rökstudd á pólitískum forsendum samkomulagsaðilanna, svo sem 7%-reglan í 2. áfanga við úthlutun jöfnunarþingsæta sem gerir litlum framboðsaðilum erfiðara fyrir en stórum. Undir slíkar forsendur getur minni hl. kosningalaganefndar ekki tekið og mælir því ekki með samþykkt frv. " Undir þetta ritar Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Eins og fram kemur í þessu nál. hefur Kvennalistinn átt takmarkaða aðild að þeirri endurskoðun kosningalaganna sem liggur fyrir í þessu frv. Megindrættir þessarar endurskoðunar voru þegar mótaðir þegar þingkonur Kvennalistans hlutu aðild að henni á þinginu 1983-1984. Það þing sat hv. þm. Kristín Halldórsdóttir í stjórnarskrárnefnd fyrir hönd Kvennalistans og skilaði þá svohljóðandi nál., með leyfi forseta:

„Samtök um Kvennalista telja að draga eigi úr miðstýringu og þá sérstaklega færa valdið frá ríki til sveitarfélaga, auka vægi og vald landshlutasamtaka og dreifa ríkisstofnunum meira um landið. Að því ætti að vinna markvisst. Undirrituð telur rangt að blanda misrétti vegna búsetu saman við vægi atkvæða í almennum kosningum eins og meiri hluti alþm. virðist hlynntur en áreiðanlega minni hluti kjósenda. Þetta frv. bætir lítið það kerfi sem nú gildir um kjördæmaskipan og skiptingu þingmanna milli kjördæma. Með hliðsjón af framansögðu leggur minni hl. stjórnarskrárnefndar til að frv. þetta verði fellt.“ Þetta var nál. hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur á vordögum 1984.

Á þessu þingi hafa þessi lög síðan enn verið tekin til endurskoðunar en þar sem hlutur þingflokka breyttist nokkuð í upphafi þessa þings, þá er þm. Bandalags jafnaðarmanna gengu til liðs við Alþfl., missti Kvennalistinn aðild sína að kosningalaganefnd Nd. Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sat tvo síðustu fundi nefndarinnar þá er nefndin var að ljúka störfum og hafði því lítil tök á að taka þátt í afgreiðslu málsins þar. Sama má segja um meðferð málsins hér í hv. Ed., en þessi hv. deild hefur aðeins haft fáeina daga til að sinna þessu viðamikla máli og eins og fram kemur í nál. meiri hl. nefndarinnar hafa störf að þessu máli hér í hv. deild því verið takmörkunum háð.

Í þeirri atrennu sem er nú gerð að þessu máli er tilraun gerð til að einfalda ýmislegt í lögunum og lagfæra í réttlætisátt. Hins vegar er hér enn, eins og áður, verið að reyna að ná málamiðlun og sætta nær ósættanlega hagsmuni. Það hefur hvergi nærri gengið svo að viðunandi sé. Til þess að svo megi verða þarf mun róttækari breytingar og mér virðist ólíklegt að pólitískur vilji sé til slíks þar sem samstaða náðist einungis um þá fáu áfanga sem kynntir eru í þessu frv.

Enn eru reglur um atkvæðaskiptingu milli kjördæma of flóknar og langt í land með að hinn venjulegi kjósandi skilji þær. Þó má segja að nokkur spor í lýðræðisátt hafi verið stigin með þessum breytingum, bæði hvað varðar möguleika fámennra stjórnmálaafla til að eignast málsvara á Alþingi, þó að enn séu allnokkrir þröskuldar þar á, og einnig hvað varðar ákvæði um varamenn, en samþykkt var að sömu reglur gildi um forföll varamanna og þingmanna. Af þessum sökum mun Kvennalistinn ekki greiða atkvæði gegn þessu frv., heldur sitja hjá við afgreiðslu þess.