02.03.1987
Efri deild: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3569 í B-deild Alþingistíðinda. (3155)

18. mál, kosningar til Alþingis

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins fáein orð og kannske þá aðallega til að taka undir sumt af því sem hv. 11. þm. Reykv. kom inn á áðan. Á sínum tíma beygði maður sig fyrir meirihlutasamþykkt í þingflokki varðandi þær breytingar á kosningalögunum sem gerðar voru 1983. Það má segja að á lokastigi þessa máls sé kannske ekki margt um þetta að segja.

Ég vil hins vegar segja það að fyrri vandræðalausn, sem ég taldi vera og óskiljanleg er öllu venjulegu fólki, hefur síður en svo batnað í meðförunum nú. Það er jafnvel enn þá erfiðara að skýra hana út. Sannleikurinn er sá að maður var nú að gera tilraun til þess úti í kjördæmunum að segja fólki hvernig þetta virkaði og eftir nýjustu breytingar er það í raun og veru allt ógilt og maður verður að taka þráðinn upp að nýju og fara að útskýra fyrir fólki hvað gerist nú í raun og veru.

Sumt hefur sjálfsagt verið til bóta en heildarreglan í þessu er það flókin að hún réttlætir í raun og veru ekki þessa breytingu. Ég viðurkenni að það var bæði réttlætanlegt að fara í ákveðinn jöfnuð milli kjördæma og viðurkenna þær staðreyndir sem hafa orðið að nokkru í sambandi við fólksflutninga, en mér finnst nú samt sem áður að það sé með ólíkindum hversu til hefur tekist um flókna og um margt rangláta úrlausn. Ég tek það sem dæmi að fimmti maður hvers kjördæmis af hinum minnstu er orðinn eins konar uppbótarmaður eða jafnvel enn þá meiri tilviljun um kjör en áður hefur gilt um uppbótarmenn, enn þá meiri tilviljun. Atvikin geta hagað því svo til að menn ná kjöri í þessi sæti út a sáralítið fylgi miðað við aðra frambjóðendur. Um þetta tjáir ekki að tala nú. Til samkomulags um einhverja lausn hafa menn lagt mikið á sig og teygt sig út og suður. Ég veit ekki einu sinni hvort höfundarnir og þeir sem mest hafa nú lagt á sig um þetta og hafa næst komið geta í raun og veru komið með skilning og skýringar sem duga svona venjulegu fólki. Ég geri það ekki og ég get það ekki, ég játa það. Mér finnst í raun og veru býsna mikil ábyrgð sem maður tekur á sig að samþykkja kosningalög sem manni er eiginlega gjörsamlega útilokað að skýra fyrir greindu alþýðufólki og sýnir það kannske að maður er ekki eins greindur og það.

Fólkið úti í kjördæmunum á áreiðanlega eftir að kveða upp sinn dóm eftir næstu kosningar og ég óttast þann réttláta dóm sem þau lög sem við erum nú að samþykkja hljóta næstum að fá, vil ég segja, ef atvikin verða þannig úti í kjördæmunum þegar þessi jöfnunarsæti fara að rótera og þeir sem voru kosnir að kvöldi verða fallnir að morgni o.s.frv.

Ég treysti mér því ekki til að greiða þessu frv. atkvæði, svo margir ósanngjarnir annmarkar sem á því eru. En eftir allt staut manna mun ég þó virða það hvað menn hafa lagt sig fram um þetta, hlustað á óskiljanlegar talnalesningar og horft á enn óskiljanlegri tölvuútskriftir, þannig að maður getur ekki sett sig á býsna háan hest út af þessu og hlýt ég því að sitja hjá við frv. sem slíkt.

Þegar svo kemur að hinu kolruglaða, svo að ég noti nú bara það orð, ákvæði um kosningadag hefur maður auðvitað mesta löngun til þess að greiða atkvæði gegn öllu saman, gegn frv. og öllu saman. Ég held að menn hefðu átt að læra af reynslu síðast þar sem áframhald tveggja daga illviðris um mikinn hluta landsins hefði sett allt úr skorðum og gert kosningar útilokaðar í fjölda héraða. Ég hélt bara að menn hefðu lært af því. Þá renndu menn blint í sjóinn með þetta og sögðu: Í apríl, það hlýtur að vera allt í lagi að kjósa síðast í apríl. Ég sé ekki að það breyti miklu þó að hv. formaður þingflokks Sjálfstfl. vilji láta banna að það snjói í apríl eins og kom fram einhvers staðar í blaði í vetur. Ég hef a.m.k. ekki séð neitt bráðabirgðaákvæði frá hæstv. forsrh. eða hv. formanni þingflokks Sjálfstfl. um að kjördagur við almennar alþingiskosningar árið 1987 skuli vera laugardagurinn 25. apríl og þar með sé bannað að það snjói í apríl lögum samkvæmt.

Menn rugla um stjórnarskrá út og suður í þessu efni. Ég ætla ekki að fara út í allt það rugl. En þó ætla þeir að láta kjósa eftir að umboð núverandi þm. er fallið brott, þrátt fyrir alla stjórnarskrárástina, og næst þegar kosið verður skiptir engu máli þó hálfur mánuður eða meira líði. Það skiptir engu máli. Þá er allt í lagi. Menn mega brjóta stjórnarskrána eftir fjögur ár. Þá mega menn brjóta hana rösklega, þeir sem alltaf eru að rugla með stjórnarskrána, sem er einfaldlega bull.

Allt er þetta með eindæmum og í allri vitleysunni út af kosningadeginum gleymdu menn dymbilvikunni, páskum og sumardeginum fyrsta, mundu ekkert eftir því að þeir dagar voru inni í þessu öllu saman, höfðu greinilega ekki áttað sig á því. Og ég segi bara í lokin: Auðvitað á að kjósa þann dag sem yfirgnæfandi líkur eru á góðri umferð hvarvetna, að allir geti með sama rétti fylgst með og tekið þátt í því lýðræðislega vali á fulltrúum fólksins sem kosningar eru. Fyrir harðbýlli hluta landsbyggðarinnar er kosningadagurinn 25. apríl móðgun við fólkið, eftir reynsluna síðast alveg sér í lagi, og aðför að rétti þess til eðlilegrar þátttöku í komandi kosningum ef eitthvað ber út af. Ég mun því biðja um það alveg sérstaklega hér á eftir, sem kemur af sjálfu sér reyndar, að ákvæði til bráðabirgða verði borið upp sérstaklega, sem mun verða gert af forseta vitanlega vegna þess að þetta er við 2. umr. málsins, og hiklaust greiða atkvæði gegn þeim kosningadegi sem þarna er verið að setja á blað svo vitlaus sem hann er.