02.03.1987
Efri deild: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3572 í B-deild Alþingistíðinda. (3157)

18. mál, kosningar til Alþingis

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Ég telst ekki til höfunda þessa frv. í sinni upprunalegri mynd heldur tók ég eingöngu það verk að mér með öðrum í þessari deild að gera á frv. þær lagfæringar sem nauðsynlegar voru taldar og þá bar þar til tvenns konar ástæður, annars vegar ástæður sem komnar voru fram í túlkun lögfróðra manna á þessum lögum, þar sem þau áberandi og greinilega brutu jafnvel í bága við stjórnarskrá, ásamt öðrum tæknilegum atriðum sem lutu að framkvæmd þeirra sem ekki samræmdust annarri löggjöf, en hins vegar sá mikli vandi, sem menn hafa staðið fyrir allt frá því að flokkarnir fjórir sameinuðust um þetta frv. vorið 1983, að reyna að gera þessi lög einhvern veginn þannig úr garði að fólk gæti skilið þau.

Nú er það samþykkt og augljóst mál að menn munu líklega aldrei skilja þessi lög þannig að sá sem stingur atkvæðaseðlinum sínum niður í kjörkassann geti raunverulega vitað hvaða afleiðingar hann hefur, að hann geti á einhvern hátt gert sér grein fyrir því hvaða áhrifum hann veldur með atkvæði sínu. Það eina sem er orðið skiljanlegra í þessum lögum er e.t.v. verklagið að því leyti að úthlutun jöfnunarsætanna, sem framkvæmd var í samræmi við lagagreinar sem höfðu mjög loðið orðalag, er orðin þannig að það er hægt að skýra hana fyrir öðrum eða þriðja aðila nokkurn veginn á mannamáli. Svo ég reyni það hérna, líka vegna þess að menn hafa haft nokkuð stór orð um hvað þetta sé illskiljanlegt, gengur það þannig fyrir sig að úthlutað er í fjórum áföngum. Það ber til að úthlutun jöfnunarsætanna er skipt í áfanga að það verður eiginlega að gera til þess að hver áfangi standi sem gerður hlutur og ekki sé hægt að taka upp dæmið í síðari áföngum, sem visst vinnulag í þessu tilefni gæti hugsanlega gefið tilefni til, en þar á ég við svokallaða endurreikningsreglu sem notuð er til að ákveða hlutföll eða styrk flokka mældan innbyrðis í kjördæmum.

Það er í sjálfu sér ekki flóknara en þannig að fyrstu þrjú jöfnunarsætin af tólf fara einfaldlega til kjördæmanna á suðvesturhorninu, þ.e. Reykjavíkur og Reykjaness, næstu sex jöfnunarsæti fara til kjördæmanna utan Reykjavíkur og Reykjaness og síðustu þrjú sætin fara til kjördæmanna á suðvesturhorninu. Þannig skiptast jöfnunarsætin tólf nokkuð að jöfnu milli landsbyggðar og suðvesturhornsins. „Flakkarinn“ er eina þingsætið sem ekki er hægt með nokkurri vissu að segja fyrir um hvar lendir endanlega, en hann lendir þar sem uppbótarsætið eða jöfnunarsætið hefur ekki komið í hlutfalli við styrk flokka sem bjóða fram á landsmælikvarða.

Það breytir því samt sem áður ekki að það er alveg réttmætt og réttlætanlegt að viðhafa þá lýsingu á þessum lögum að þau uppfylli ekki skilyrði lýðræðisins. Þau uppfylla þau ekki að því leyti að kjósandi hlýtur að eiga rétt á að gera sér betur grein fyrir hvaða áhrif hann getur haft á stjórn landsins. Ég tek undir með þeim mönnum sem fullyrða að við munum ekki kjósa eftir þessum lögum nema einu sinni því ég held að jafnvel þó að niðurstöðurnar samkvæmt kosningum í anda þessara laga verði e.t.v. ekki mikið öðruvísi en menn geta sætt sig við sé krafan, bæði af hálfu stjórnmálamanna og lands manna allra, um það að kosningalög séu skýrari og skiljanlegri orðin svo hávær að næsta þing geti ekki leitt það hjá sér. Þá stöndum við frammi fyrir því hvaða kosti aðra við eigum. Tilfellið er að þeir eru ekki nema tveir.

Annars vegar er sú leið að viðhalda kjördæmaskipan í grundvallaratriðum eins og við búum við í dag, þ.e. skiptingu landsins í ákveðinn fjölda kjördæma, en vera þá reiðubúnir að kjósa með breytilegum kjördæmamörkum frá einum kosningum til annarra, þ.e. kjördæmamörkum sé breytt fyrir fram fyrir kosningar í hlutfalli við fólksfjölda í hverju kjördæmi og þá með tilliti til þess að beint samband sé milli þingmannafjölda annars vegar og kjósendafjölda í hverju kjördæmi. Þannig er hægt að hugsa sér að uppfyllt séu skilyrði þess að jafnt vægi sé á atkvæðum allra manna á landinu og hins vegar að kjördæmamörkunum sem við búum við sé haldið en þau séu breytanleg.

Önnur leið, sem líka er fær og oft hefur verið rædd og Alþfl. hafði nánast á stefnuskrá sinni frá því fyrir 1959, er að landið verði einfaldlega eitt kjördæmi og þá hafi allir landsmenn eitt og jafnt atkvæði. Auðvitað er það það sem menn eru raunverulega að berjast við og ráða ekki við með þeirri kjördæmaskipan sem við búum við núna og þeim mjög svo breytilega fólksfjölda sem er innan hvers kjördæmis.

Eins og ég sagði í upphafi tók ég það að mér að breyta þessum lögum að svo miklu leyti sem hægt var miðað við ríkjandi aðstæður og ég stend að meirihlutaáliti sem mælir með samþykkt þessa frv. Ég tel það bót á frv. eins og það er þó að ég í sjálfu sér geti ekki hrópað húrra fyrir frv. eða lögunum sjálfum sem slíkum.