02.03.1987
Efri deild: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3574 í B-deild Alþingistíðinda. (3158)

18. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. kosningalaganefndar (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég vil vegna þeirra umræðna sem hafa farið hér fram um það frv. sem hér liggur fyrir ítreka að frv. sem slíkt var búið að vera mjög lengi í vinnslu. Undirbúningur að því var fyrst í höndum formanna þingflokkanna og síðan í höndum kosningalaganefndar Nd. Þetta mál hefur verið tekið fyrir í þingflokkunum og skýrt þar út hvað eftir annað. Þegar við í kosningalaganefnd Ed. tókum við frv. lá fyrir að mínum dómi og okkar allra visst samkomulag um framvindu þessa máls. Auðvitað voru menn misjafnlega ánægðir með það samkomulag og þau ákvæði sem lögin kveða á um. Ég er einn af þeim sem hefðu gjarnan viljað hafa ýmis ákvæði þar öðruvísi, en við, eða meiri hl. nefndarinnar, ákváðum að hlíta því samkomulagi og ganga að því verki að lagfæra frv. þannig að það væri hægt tæknilega að kjósa 25. apríl n.k.

Ég er sömu skoðunar og hv. 2. þm. Austurl. að aðrir dagar hefðu verið heppilegri. En þetta hefur tekist. Það tókst 23. apríl síðast. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé ekki heppilegasti tíminn, en eigi að síður hlíti ég því samkomulagi sem hér hefur tekist um að hafa kosningar á þessum degi. Nefndin hagaði sínu starfi í samræmi við það.

Það má til sanns vegar færa að hér er ekki um einfalt mál að ræða, en hins vegar má geta þess að núverandi kosningalög eru ekkert mjög einföld heldur eða úthlutun uppbótarþingsæta. Það liggur ekkert í augum uppi eða er hægt að útskýra það fyrir öllum á nokkrum mínútum. Ég hlíti þeim breytingum sem þarna er um að ræða. Ég sé ekki að það mundi bæta mikið fyrir að taka það inn í grg. eða framsögu að lögin séu illskiljanleg og óútskýranleg. Ég tel að það sé hægt að útskýra þessi lög. Þau eru ekki svo flókin. En það þarf að gefa sér tíma til þess og ég hef trú á því að bæði hv. 11. landsk. þm. og hv. þm. öðrum takist að útskýra þetta fyrir kjósendum þegar þar að kemur.