02.03.1987
Efri deild: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3576 í B-deild Alþingistíðinda. (3165)

18. mál, kosningar til Alþingis

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Ég tek undir það með þeim landsbyggðarþingmönnum sem hér hafa talað að þessi tímasetning kosninga er óráð með tilliti til þeirra vandkvæða sem hún getur valdið vegna færðar á þessum tíma - menn þurfa ekki að fara langt hér út fyrir bæjarmörkin til að átta sig á því hvaða erfiðleika er þar verið um að tala - enda fellur rökstuðningur þeirra manna sem töldu þennan kosningadag óumflýjanlegan af stjórnarskrárlegum orsökum um sjálfan sig þegar þeir í sömu mund eru að samþykkja frv. þar sem menn eiga að sitja á þingi í fjögur ár og hartnær þrem vikum betur. Í þeim lögum felst því sama stjórnarskrárbrot sem þeir þykjast vera að forða nú. En með tilliti til þess að þetta er fyrsti mögulegi kosturinn til að losna við þá ríkisstjórn sem nú situr segi ég já.