02.03.1987
Efri deild: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3578 í B-deild Alþingistíðinda. (3169)

197. mál, veiting prestakalla

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég hleyp í skarðið fyrir hv. frsm. minni hl. menntmn. sem ekki hefur birst enn þá þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að ná honum. Mér þykir það miklu miður. En hv. þm. Ragnar Arnalds hefur skilað minnihlutaáliti í menntmn. um þetta frv. og ég leyfi mér, með leyfi virðulegs forseta, að lesa það upp. Þar segir svo:

„Minni hl. telur að söfnuður eigi að halda rétti sínum til að kjósa presta. Í fjölmennum prestaköllum væri það gífurlegt verk að safna undirskriftum fjórðungs atkvæðisbærra manna í prestakallinu til að óska eftir kosningu eins og ráð er fyrir gert í frv. og óvinnandi verk á sjö dögum.

Kjörmenn við val á sóknarpresti samkvæmt frv. verða sóknarnefndarmenn, oftast fimm menn. Breytingin, sem felst í þessu frv., er ólýðræðisleg og spor aftur á bak.

Ljóst er að mikill ágreiningur er um hvort söfnuður eigi áfram að kjósa presta eða ekki. Í skoðanakönnun meðal sóknarnefndarmanna og safnaðarfulltrúa vildu flestir, eða 267 sem svöruðu á gildan hátt af 597, halda óbreyttu fyrirkomulagi, 115 vildu að ráðherra skipaði presta að fenginni umsögn sóknarnefnda og biskups, 76 vildu það fyrirkomulag sem fólst í frv. frá árunum 1972 og 1976, en 104 kusu helst þá skipan mála sem felst í þessu frv.

Með hliðsjón af málavöxtum leggur minni hl. til að frv. þessu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“ Undir þetta skrifar Ragnar Arnalds.

Úr því að ég er kominn í ræðustólinn vildi ég gjarnan bæta nokkru við þó ég taki undir sumt af því sem hér kemur fram.

Hér er komið að afgreiðslu mjög umdeilds máls. Ég vil í engu tefja það að meirihlutavilji nái fram í þessu máli. Ég hef verið andvígur afnámi þessara kosninga og það er svo enn. Það hafa verið tíundaðir annmarkar á þessu. Ég tel allt of mikið hafa verið gert úr þeim. Ég held að það sé alveg ótvírætt að prestar eru síður en svo það mikið verri menn en aðrir sem kjöri þurfa að ná að svo mikil vandræði, heift og sori fylgi svo sem rök hafa verið leidd að í umræðum áður um þessi mál. Ég neita algjörlega að trúa slíku vegna þess að ég hef alveg þveröfuga reynslu af þessum ágætu starfsmönnum þjóðkirkjunnar. Ég held þeir séu einmitt menn til þess að standast slíkt lýðræðislegt val og koma heilir og óskaddaðir út úr því, miklu betur en t.d. þeir sem eru að baksa við það á fjögurra ára fresti að reyna að ná kosningu, með öllum þeim annmörkum sem því fylgja, til Alþingis. Ég efast sem sagt mjög um þessa annmarka umfram þá sem fylgja lýðræðislegu kjöri og óhjákvæmilega hljóta alltaf að vera. Ég játa það alveg.

En það sem mér þykir kannske alvarlegast er að hér er lagt til millistig. Hér er slagurinn svokallaði, sem talið hefur verið að hafi fylgt prestskosningum í dag, öll vandræðin, togstreitan og allt þetta, allt fært inn til fámennra sóknarnefnda og varamanna þeirra ef ég hef lesið þetta nál. rétt. Mér er sem ég sjái breytinguna á kjöri til sóknarnefnda þegar t.d. fyrirsjáanlegar eru prestskosningar. Mér er sem ég sjái það t.d. í prestaköllunum í Reykjavík að það verði ekki einhver togstreita og slagur um það og með sömu annmörkum og fylgja þessu gagnvart prestskosningunum. Eða ímynda menn sér að það verði ekki alveg nákvæmlega sami slagurinn upp tekinn þar nema það verður að mínu viti þeim mun illvígara sem færri koma þar að en þegar hinn mikli fjöldi gerir það.

Ég er ekki að segja þetta fyrir sjálfan mig vegna þess að ég held að það sé rangt sem sagt er um alla þá annmarka sem fylgja þessum kosningum. Ég er í raun og veru að mæla fyrir munn þeirra sem telja kosningar presta almennt af hinu illa. Ég er í raun og veru að mæla fyrir þá, því að þeir hljóta að sjá þessa sömu annmarka í þessu ef þeir eru svona miklir. Og þá spyr maður: Eru ekki allar kosningar það?

Mín skoðun er því ljós sem aðalskoðun í þessu efni, en ég vil láta eitt koma mjög skýrt fram. Ef menn vilja hverfa frá núgildandi fyrirkomulagi varðandi prestskosningar og breyta þeim, umbylta því kerfi, eigum við vitanlega að stíga skrefið til fulls, ég væri miklu frekar tilbúinn í það, og afnema allt kjör presta, en veita embættin á sama hátt og ýmis önnur embætti á vegum ríkisins, bæjarfógetar, sýslumenn, læknar og annað því um líkt nefndir sem dæmi. Það væri auðvitað miklu eðlilegra að stíga þá skrefið alveg til fulls og mér miklu meira að skapi en það millistig sem hér er lagt til.

En í leiðinni mættu prestar ganga á undan með góðu fordæmi í sambandi við þetta. Þeir eiga nefnilega völ á því að ganga á undan með góðu fordæmi og leiðbeina Alþingi um þetta. Það er með því að hætta að kjósa biskup jafnþröngri kosningu og þeir gera í dag þar sem engir fá að koma að vali þessa æðsta embættismanns þjóðkirkjunnar nema prestar einir. Þeir mættu gjarnan veita Alþingi kristilega leiðsögn í þessum efnum úr því að þessar kosningar eru svona voðalegar eins og þeir segja.

Ég sá að nýtt starfsmannafrv., sem kynnt var hér í fyrra með þrem biskupum, gerði ekki ráð fyrir neinum breytingum þar á. Þar var reiknað með því að prestar héldu áfram að kjósa biskupa hver í sínu biskupsdæmi. Ég sá ekki betur. En ef við miðum við þetta þrennt, almennt kjör, þröngt kjör valinna fárra fulltrúa og beina veitingu, þá er sú leið lökust sem hér er farin. Ég hef að vísu fullan skilning á því að prestar mega ekki við þeim ósköpum sem lýst er í hrollvekjum þeirra sem afnema vilja prestskosningar. Þær hrollvekjur eru bara svo stórlega ýktar og úr lagi færðar að engu lagi er líkt, að ég tel þær hreinlega ekki marktækar. Sé ég nú að hv. þm. Ragnar Arnalds gengur í salinn og ég er búinn að lesa hans nál. í sambandi við veitingu prestakalla þannig að hann þarf örugglega að bæta um betur á eftir í sambandi við það því að þar kom ég aðeins að hans skrifaða nál., en það eru eflaust margar röksemdir þar til viðbótar sem hann vill fram færa. En hitt er ljóst að ef við ákveðum að færa þetta í þennan búning eigum við að gera hvort tveggja, veita prestsembættin venjulegri veitingu eins og embættismenn og veita biskupsembættin líka, taka það vald af prestunum að kjósa biskupa. Menn verða nefnilega að vera sjálfum sér samkvæmir í þessu máli eins og öðrum ef þeir vilja ná einhverju viti fram í þau.