02.03.1987
Efri deild: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3581 í B-deild Alþingistíðinda. (3171)

197. mál, veiting prestakalla

Frsm. minni hl. menntmn. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég bið forláts á því að ég gat ekki verið nærstaddur þegar málið var tekið á dagskrá, en mér skilst að velviljaðir menn hafi hlaupið undir bagga og lesið upp nál. mitt og þakka ég fyrir það og mun ekki endurtaka lesturinn. Ég heyri hins vegar að í þessari umræðu hefur það verið nefnt að prestskosningar væru leiðinlegt fyrirbrigði. Mér finnst að menn geti þá eins sagt að allar kosningar séu heldur leiðinlegt fyrirbrigði. Er ekki ósköp fyrirhafnarmikið að halda uppi lýðræði í landinu? Mega frambjóðendur ekki almennt eiga á hættu að verða fyrir aðkasti af ýmsu tagi? Ég segi fyrir mig að eftir að hafa verið sjálfur í framboði í kosningum í tvo og hálfan áratug vorkenni ég prestum ekkert að standa í kosningum. Og mér finnst að prestskosningar séu ekkert leiðinlegt fyrirbrigði heldur skemmtilegt og til fyrirmyndar í kerfi okkar og væri mikill söknuður að þeim ef þær væru lagðar niður. Mér finnst að prestsstarfið sé svo sérstaks eðlis. Presturinn á að vera og er sem betur fer oftast í góðum tengslum við fólkið sem hann þjónar. Hann er í návígi við það. Fólki er ekki sama hvernig starfið er af hendi leyst og því sjálfsagt og eðlilegt að það eigi þess kost að fella sinn dóm um hver eigi að gegna starfinu.

Ef menn hins vegar gefast upp á þessu fyrirkomulagi, eins og ég heyri að sumir eru að gera, tel ég eðlilegast að tekið yrði upp sama fyrirkomulag og er varðandi aðra embættismenn þjóðarinnar að þeir séu einfaldlega ráðnir, settir eða skipaðir til starfans af ráðherra sem sé óbundinn af fyrirmælum ráða eða stjórna. Vissulega er það oft þannig í okkar kerfi að ráðherra ber að leita álits hjá ráði eða stjórn áður en hann skipar viðkomandi embættismann. Ég hef ekkert á móti því, ef horfið væri frá prestskosningum, að ráðherra væri skylt að leita álits sóknarnefndar um skipunina. En ég sé enga ástæðu til að fara að taka það fyrirkomulag upp að örfámennur hópur í sókninni eigi alfarið að ráða kjöri prests og aðrir sóknarnefndarmenn séu þar gerðir áhrifalausir, nema þeir séu svo skjóthentir að þeir nái því að safna undirskriftum 25% kjósenda á einni viku, sem er óvinnandi vegur fyrir venjulegt fólk með lítið skipulag á bak við sig þegar söfnuðir eru stórir og fjölmennir, kannske mögulegt í fámennum sóknum, en t.d. hér í Reykjavík næstum að segja útilokað mál nema menn hafi mikið skipulag á bak við sig.

En mín meginskoðun í þessu máli er sú að söfnuðirnir eigi að halda rétti sínum til að kjósa presta. Ég sé að í skoðanakönnun, sem fram fór meðal sóknarnefndarmanna og safnaðarfulltrúa, voru langflestir á sömu skoðun og ég af þeim sem spurðir voru. 267 af 597 vildu halda óbreyttu fyrirkomulagi, en þeir sem vildu eitthvað annað skiptust í nokkra hópa. Sumir, eða 115, vildu að ráðherra skipaði presta að fenginni umsögn. Það tel ég vera næstbesta fyrirkomulagið eins og ég hef nú lýst. 76 vildu það fyrirkomulag sem fólst í frumvörpum frá árunum 1972 og 1976, en 104 kusu helst þá skipan mála sem felst í þessu frv. eins og ég hef lýst í nál. mínu.

Af þessu má draga þá ályktun að þeir eru aðeins 180 af 597 sem vilja taka upp það fyrirkomulag sem felst í frv. eða eitthvað í líkingu við það, þ.e. annaðhvort skipulagið sem er í þessu frv. eða skipulagið sem var í frv. frá 1972 og 1976. Ég sé ekki annað en þessi hópur sé í miklum minni hluta þannig að mér finnst að sú skoðanakönnun sem fram fór sé eiginlega ekki mikil meðmæli með þessu frv.

Ég held að allt þurfi þetta mál nánari athugunar við og mér finnst eðlilegt, vegna þess að mikil hreyfing er á þessum málum og mikill áhugi meðal presta að málið sé rætt og athugað frekar, að sú umræða haldi áfram. Því tel ég eðlilegast að málinu sé vísað til ríkisstjórnarinnar og hún beiti sér fyrir áframhaldandi umræðu um það. En ég get alls ekki fallist á að málið sé afgreitt og samþykkt á þessu stigi.