02.03.1987
Neðri deild: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3588 í B-deild Alþingistíðinda. (3198)

316. mál, flugmálaáætlun

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um flugmálaáætlun og fjármögnun til framkvæmda í flugmálum. Þetta frv. er í öllum meginatriðum samhljóða tillögu flugmálanefndar sem skilaði samgrn. skýrslu um framkvæmdir í flugmálum í október á s.l. hausti. Þessi skýrsla er birt í heild sinni sem fskj. með frv. og skal hér að mestu vísað til hennar um framkvæmdaáætlun nefndarinnar, meginforsendur og rökstuðning.

Það var 6. febr. 1984 að ég skipaði nefnd til að vinna að tillögugerð um framkvæmdir í flugmálum og skyldi nefndin semja áætlun um almenna flugvelli sem tæki til framkvæmda við flugbrautir, öryggistækja, tækjageymslu, flugskýlis og flugstöðvar. Þá var nefndinni falið að gera tillögur um tekjustofna og fjárframlög til framkvæmdanna, svo og til rekstrar flugmála almennt. Þrjú sérverkefni voru sett nefndinni, þ.e. athugun á uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar, flugstöð á Reykjavíkurflugvelli og gerð varaflugvallar.

Í nefndinni áttu sæti Birgir Ísl. Gunnarsson alþm., sem var formaður hennar, Andri Hrólfsson stöðvarstjóri, Garðar Sigurðsson alþm., Kristján Egilsson flugstjóri, Ragnhildur Hjaltadóttir deildarstjóri og Þorgeir Pálsson prófessor. Flugmálastjóra Pétri Einarssyni var falið að starfa með nefndinni og vera henni til ráðuneytis og margir starfsmenn Flugmálastjórnar lögðu sitt af mörkum í starfi nefndarinnar.

Skýrsla nefndarinnar var svo afhent í október og kynnt á sérstakri ráðstefnu, fyrst fyrir blaðamönnum og síðar á ráðstefnu 12. desember. Þangað var boðið áhugamönnum um framgang íslenskra flugmála, sveitarstjórnarmönnum, flugrekendum og síðast en ekki síst alþm. Þar gerðu nefndarmenn og flugmálastjóri ítarlega grein fyrir efni skýrslunnar og tillögum þeim sem þar eru settar fram.

Nefndin hóf verk sitt með því að draga saman ýmsar gagnlegar upplýsingar um þróun og eðli íslenskrar flugumferðar. Þar eru í rituðu máli og með tölum settar fram niðurstöður um fjölda farþega, tíðni ferðalaga, flughreyfingar á hinum ýmsu völlum, auk þess sem fjallað er um skipulag og umfang áætlunarflugsins. Þá reynir nefndin að gera sér grein fyrir áhrifavöldum og framtíðarþróun flugstarfseminnar og er litið til fjölmargra atriða, svo sem fargjaldastefnu, ástands annarrar flutningastarfsemi, t.d. áhrif bættra vega, landflutninga o.fl. Í ljósi þessara tölulega upplýsinga reynir nefndin síðan að spá fyrir um þróun mála á tímabilinu 1985-1995 og kemst m.a. að þeirri niðurstöðu að farþegum um flugvelli innanlands fjölgi um rúm 100 þús. á tímabilinu, í um 730 þús. eða um 17% frá því sem nú er.

Um framkvæmdir á flugvöllum gerir nefndin tillögur um flokkun vallanna og íslenskan staðal við gerð brauta innan þeirra ýmsu flokka. Staðallinn er í samræmi við reglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, en ekki er hægt að fylgja ýtrustu tilmælum hennar vegna erfiðra landfræðilegra aðstæðna á mörgum flugvöllum hér á landi. Þar sem um frávik er að ræða verður framkvæmdum hagað þannig að síðar megi endurbæta hinn íslenska staðal ef aðstæður skapast hvað varðar búnað flugvallanna, hindranir á og í grennd við þá auk annarra atriða þar sem gert er ráð fyrir að farið verði eftir stöðlum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.

Eftir að hafa sett fram og skilgreint það markmið sem nefndin vill að stefnt skuli að við hérlenda flugvallargerð tekur hún saman yfirlit yfir núverandi ástand áætlunarflugvallanna og nefnir til brýnustu verkefnin á hverjum fyrir sig.

Nefndin tekur fram að einstakar framkvæmdir geti verið svo stórar í sniðum og mikilvægar af hagkvæmnis- og öryggisástæðum að þær falli ekki inn í framkvæmdaröð hennar. Nefnir hún í þessu tilefni flugstöð í Reykjavík, flugbraut á Egilsstöðum og endurnýjun malbiks á flugbrautum í Reykjavík. Þessar framkvæmdir eru teknar út úr sem sérverkefni í áætluninni er gerð var og flugvöllur fyrir millilandaflug og stækkun og endurbót á flugstjórnarmiðstöð eru ekki tekin í kostnaðarútreikninga nefndarinnar.

Heildarkostnaður við framkvæmd tillagna nefndarinnar er áætlaður á verðlagi 1986 2030 millj. og gerði nefndin sérstaka könnun á því hvernig fé fengist til flugmálastarfseminnar, hvernig það skiptist og hvernig heppilegast mundi að standa að útvegun viðbótarfjár. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að rekstrarkostnaður Flugmálastjórnar jafnaðist að mestu út með tekjum ríkissjóðs af starfsemi tengdri flugi, en framkvæmdaféð væri beint framlag ríkisins. Taldi nefndin varhugavert að leggja ný eða aukin gjöld á flugstarfsemina, en kvað þó koma til álita að hækka flugvallagjald í innanlandsflugi og binda gjaldið tiltekinni framkvæmd, t.d. byggingu flugstöðvar í Reykjavík. Þá var lagt til að eldsneytisgjald yrði framvegis innheimt af öllu flugi en ekki bundið við flug innanlands. Þó var gerð tillaga um gjaldfrelsi flugs milli Íslands og Norður-Ameríku.

Nefndin bendir á að framlög úr ríkissjóði til flugmála séu í litlu samræmi við mikilvægi þessarar starfsemi fyrir búsetu í landinu í heild sinni og leggur því til að framkvæmdatillögur hennar verði að langmestu leyti fjármagnaðar úr ríkissjóði. Bendir nefndin á í þessu sambandi að heildartillögur hennar fyrir tíu ára tímabil kosti sem samsvari tveggja ára framlagi ríkisins til nýframkvæmda eins og t.d. í vegamálum.

Nefndin varð í starfi sínu sammála um að brýnasta atriðið í skipulegri uppbyggingu íslenskra flugvalla væri lögfesting áætlunargerðar og mörkun tekna til flugmálaframkvæmda. Hún hafði þá einkum í huga örlög annarrar ágætrar framkvæmdaáætlunar sem unnin var af flugvallanefnd og afgreidd var í formi þál. frá hinu háa Alþingi vorið 1978. Miðað við reynslu fyrri ára leit nefndin eðlilega til vegáætlunar og framkvæmda á sviði vegamála.

Það er þetta frv., sem nefndin leggur til, sem hér liggur fyrir með nokkrum minni háttar breytingum. Frv. skiptist í tvo meginkafla. Sá fyrri fjallar um flugmálaáætlun en hinn síðari um fjáröflun til framkvæmda í flugmálum. Meginmarkmiðið með lögfestingu ákvæða um flugmálaáætlun er að Alþingi ákvarði reglubundið um skipulega uppbyggingu þessa samgönguþáttar og að vilji Alþingis sé bindandi fyrir framkvæmdavaldið, Alþingi fái reglulega yfirlit um störf Flugmálastjórnar og að með þessum tvennum hætti verði stuðlað að betri nýtingu fjármagns og skipulegri vinnubrögðum.

1., 2. og 4. gr. draga í öllum meginatriðum dám af sambærilegum ákvæðum vegalaga, en í 3. gr. eru taldir flokkar flugmálaverkefna sem skilgreindir eru nánar í skýrslu nefndarinnar.

Í síðari kafla laganna er lagt til að fjármögnun framkvæmda í flugmálum verði með tvennum hætti. Með tekjum af eldsneytis- og flugvallagjaldi komi framlag úr ríkissjóði. Hér eru færð á einn stað ákvæði um gjaldskrá fyrir afnot flugvalla og meginmál laga nr. 8 frá 1976, um flugvallagjald, með áorðnum breytingum, og ákveðið að fjár sem þannig aflaðist mætti einungis verja til flugmálaframkvæmda.

Ekki er á þessu stigi gert ráð fyrir hækkun eldsneytisgjaldsins eða flugvallagjaldsins í millilandaflugi, en það leiðir af frv. að flugvallagjaldið í innanlandsflugi og í öðru flugi sem greinir í 9. gr. þessa frv. hækkar úr 18 kr. í 100 kr.

Eins og getið var hér að framan gerði nefndin það að tillögu sinni að innanlandsflugvallaskattinum yrði einungis varið til sérstaks verkefnis, flugstöðvar í

Reykjavík. Að athuguðu máli og með hliðsjón af sérstöðu slíks verkefnis var ekki talin ástæða til slíkrar sérmörkunar og er því í frv. gert ráð fyrir að gjaldið renni til almennra framkvæmda.

Önnur meginbreyting sem felst í II. kafla leiðir af ákvæðum 5. gr. frv., en þar er gert ráð fyrir að eldsneytisgjaldið verði innheimt á öllum flugvöllum landsins. Eins og nú er innheimtist það ekki á Keflavíkurflugvelli. Áætlunarflug milli Íslands og Norður-Ameríku verður þó undanþegið gjaldinu.

Í Ed. gaf samgn. út samhljóða nál., allir sjö nefndarmenn, þar sem mælt var með að frv. yrði samþykkt með tilteknum breytingum. Breytingarnar voru sex, þar af fimm breytingar við frv. og ein tillaga um nýja grein, um að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga. Tvær brtt. fjalla um lagagildi þessara gjalda og sömuleiðis er nokkur breyting gerð á ákvæði til bráðabirgða. Sömuleiðis var gerð breyting á fyrirkomulagi á eldsneytisgjaldinu. Allar þessar breytingar tel ég að séu til bóta og voru þær gerðar í náinni samvinnu við ráðuneytið og við Flugmálastjórn.

Ég vil líka bæta því við að framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll voru teknar út úr þannig að flutt hefur verið um það sérstök till. til þál. með heimild til lántöku á þessu ári og að því stefnt að framkvæmdir geti hafist þegar á þessu ári eftir að Alþingi hefur afgreitt það mál.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um mál þetta. Frv. er skýrt og skorinort. Tilgangur framlagningar þess er auðsær og að baki því liggur mikil vinna þeirra manna sem hafa unnið í þeirri nefnd sem ég hef hér oft vitnað til. Málefni þetta hefur einnig verið sérstaklega kynnt öllum þeim sem hagsmuni og áhuga hafa á framgangi íslenskra flugmála og hafa viðbrögð allra verið jákvæð, en hins vegar eins og fyrri daginn skiptar skoðanir þegar á að fara í nýja fjáröflun. Þá vilja þeir helst vera lausir við að koma nærri henni sem eiga að sjá um fjáröflunina, en benda á hina gömlu góðu leið að greiða úr ríkissjóði.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.