28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mjög þessar umræður. Ég vil þakka hv. utanrmn. fyrir hennar störf í sambandi við þá till. sem hér liggur til síðari umr. Ég vil þó taka fram í framhaldi af því sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, en tilefni hans til athugasemdar var það sem kom fram hjá hv. frsm., þar sem talað var um að enskur texti þessa samnings hefði lagagildi. Ef þetta er skoðað nánar þá er hér ekki um texta sem hefur lagagildi að ræða, heldur er hér um að ræða samning sem verður fullgiltur. Þegar gengið hefur verið frá íslenskum texta, þá verða þeir textar jafngildir báðir.

Í sambandi við það sem hv. þm. sagði, og vék að þeim umræðum sem hér hafa farið fram í dag, þá fannst mér það út af fyrir sig ekkert óvenjulegt. Hér voru að ræða málin utanríkismálanefndarmaður, 3. þm. Reykn., og landsk. þm., sem er landsk. þm. frá því kjördæmi sem hefur nokkuð haft með þessi mál að gera, þ.e. þar sem löndun á sér stað. Báðir voru að ræða málin efnislega og frá mínum bæjardyrum séð, mjög eðlilega. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til að svara hv. þm. þegar rétt er að mínum dómi. Báðir þessir þm. studdu þetta mál og því ekkert óeðlilegt við það að þeir kæmu hér og létu til sín heyra. Að þetta hafi verið bylting, eftir því sem hv. þm. sagði, og vitnaði þá í níu ára þingsetu sína. Ég minnist þess sjálfur frá þinginu 1983-84, þá flutti ég frv. sem fóru til hv. viðskn., það voru ríkisstjórnarfrv. Nefndin var sammála. Frsm. nál. annars frv. var hv. þm. Kjartan Jóhannsson, ef ég man rétt, og frsm. hins frv. var hv. 3. þm. Reykv., Svavar Gestsson. Þannig að það hefur gerst áður að stjórnarandstæðingar hafa talað fyrir frv. eða till. sem ríkisstjórnin hefur flutt. (Gripið fram í.) Kannske einhvers staðar lært, ef það mætti líta þannig á málið.

Ég kannast við það, af örlítið lengri þingsetu, að sé um að ræða samkomulagsmál eða þó að nefnd sé klofin, þá láta menn til sín taka í málum og telja það ekki skipta sig máli þó að það sé ríkisstjórnin sem flytur, ef menn á annað borð eru stuðningsmenn þess máls sem til umræðu er.

Ég ætla ekki að víkja að þeim atriðum sem komu sérstaklega fram í ræðu hv. 5. þm. Austurl., Hjörleifs Guttormssonar, sem talaði fyrir hönd minni hl. nefndarinnar. Ég held að við fyrri umr. hafi ég vikið að flestum þeim atriðum, ef ekki öllum, og svarað þeim þar. Í ræðu hv. þm. kom fram að fyrir utanrmn. var lagt álit Baldurs Möllers fyrrverandi ráðuneytisstjóra, sem ég hafði getið um hér við fyrri umr. Þar vék hv. þm. að því að í þessu skjali, sem hann hafði undir höndum, var ekki rétt með farið þar sem vitnað var til 21. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem ræðir um breytingu á stjórnarhögum ríkisins. Í skjalinu sem þm. vitnaði til stendur „breytingu á stjórnarlögum“ í staðinn fyrir „stjórnarhögum“.

Þannig var að Baldur Möller lét utanrrn. í té umsögn sína handskrifaða og var hún vélrituð í ráðuneytinu og þar hefur því miður orðið til villa. Þar sem stendur í handritinu „stjórnarhögum“ hefur verið vélritað „stjórnarlögum“. Ég vil að þetta komi hér fram til leiðréttingar vegna þess manns sem skrifaði handritið en yfirfór ekki vélritaða skjalið. En niðurstaðan er sú hin sama, að þessi samningur breyti í engu því sem um getur í 21. gr., þ.e. stjórnarhögum ríkisins, og það er að sjálfsögðu mergurinn málsins.