02.03.1987
Neðri deild: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3595 í B-deild Alþingistíðinda. (3200)

316. mál, flugmálaáætlun

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er vissulega ánægjuefni að fyrir Alþingi liggur frv. það sem hér er til umræðu og vonandi endist okkur tími til að afgreiða það á þinginu. Það byggir, eins og fram hefur komið, á starfi nefndar sem hæstv. samgrh. skipaði og hefur skilað áliti og tillögum sem frv. í meginatriðum byggir á. Í þessari nefnd áttu m.a. sæti einn af þm. Alþb. sem vann að tillögugerðinni með öðrum og ég hygg að það sé nokkuð víðtæk samstaða um meginstefnu í sambandi við þetta mál, en auðvitað getur menn greint á um einstök atriði. Ég tek undir ábendingar sem komu fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., en margt af því voru gagnlegar ábendingar sem fram komu í hans máli og athugasemdir.

Einn þáttur sem tengist þessu máli og áætlunum um framkvæmdir í flugvöllum varðar Egilsstaðaflugvöll sem rætt hefur verið um hér sérstaklega á þinginu og till. liggur fyrir um framkvæmdir við nýja flugbraut þar og ég ætla að vænta þess að hún fái jákvæða meðferð hér og afgreiðslu áður en þinginu lýkur þannig að séð verði fyrir endann á því fullkomna ófremdarástandi sem ríkt hefur lengi í málefnum þess landshluta. En ég er ekki þar með að gera lítið úr þörfinni mjög víða annars staðar.

Það sem mestu máli skiptir í þessu, fyrir utan skilmerkileg vinnubrögð varðandi ákvæði um framkvæmd og undirbúning, er auðvitað fjármögnunin sem slík. Það má segja að það líti heldur betur út það sem er á blaði í þessu frv. varðandi það að tryggja fjármögnun. Við skulum vænta þess að það gangi eftir. Ég tek hins vegar undir það, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, að þar með er ekki eðlilegt að ríkið sleppi frá því að leggja framlög úr sameiginlegum sjóði til þessara mála, svo stór og brýn og þau eru og varða aðstöðu manna á landinu öllu, þessi þáttur samgangna.

Hækkun á gjöldum farþega er auðvitað tilfinnanleg, en ég hygg að margir séu reiðubúnir til þess að greiða nokkurn skatt í þessu skyni í von um að sjá fram úr þeim erfiðleikum sem eru í sambandi við flugið hér innanlands. En hv. þm. og almenningur þekkja af biturri reynslu þær aðstæður sem menn víða búa við í þessum efnum og hvernig framkvæmdafjárveitingar hafa verið skornar við nögl á liðnum árum þannig að flugið hefur verið hornreka, meira að segja í samanburði við aðra þætti samgöngumála. Þar undanskil ég þó hafnirnar sem hafa nánast ekki verið á blaði í tíð hæstv. ríkisstjórnar fyrr en núna að hæstv. ráðh. leggur fram hafnamálaáætlun sem því miður er ekki undirbyggð hvað tekjur snertir í framtíðinni með neitt svipuðum hætti og hér liggur fyrir. Sama má segja um þá loftkastala sem sýndir voru í sambandi við vegáætlun þar sem vísað er á framtíðina. Hér er betur staðið að málum þó að ég sé ekkert að gera lítið úr óskum hæstv. samgrh. í sambandi við fjármögnun til hafnamála og vegamála á komandi kjörtímabili þegar núv. hæstv. ríkisstjórn hefur horfið frá, hverjir svo sem við taka.

Ég ætla að gera aðeins að umtalsefni einn þátt sem snertir innanlandsflugið sérstaklega. Ég flutti fyrir tveimur þingum, á 107. löggjafarþingi, till. til þál. um bætta þjónustu við farþega í innanlandsflugi. Þar var lagt til að það yrði gerð úttekt á þjónustu farþega í innanlandsflugi og á samgöngum við flugvelli og undirbúnar tillögur til úrbóta. Það voru þrír þættir sem sérstaklega voru nefndir, aðstaða flugfélaga til að rækja eðlilega þjónustu, úttekt á núverandi þjónustu af hálfu flugfélaganna við farþega í áætlunarflugi, samgöngur að og frá flugvöllum, m.a. með sérleyfisbifreiðum, og reglur um snjóruðning af vegum í því sambandi.

Þessi tillaga, sem um var fjallað í allshn. sameinaðs þings á 107. löggjafarþingi, var afgreidd að tillögu nefndarinnar með þeim hætti að henni var vísað til ríkisstjórnarinnar með vísun til starfa þeirrar nefndar sem undirbjó það mál sem hér er til umræðu. Í áliti hv. allshn. frá 6. júní 1985 sagði, með leyfi forseta:

„Á vegum samgrn. starfar nú nefnd sem vinnur að gerð áætlunar í flugmálum. Veigamikill þáttur í starfi nefndarinnar lýtur að þjónustu við farþega og aðstöðu fyrir þá á flugvöllum landsins með tilliti til hvaða kröfur eigi að gera til flugstöðvarbygginga og hvaða forgang þær skuli hafa í uppbyggingu flugvalla. Nefndin telur því ekki á þessu stigi ástæðu til sérstakrar ályktunar um þetta mál og leggur til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“

Það gekk eftir. Tillögunni var vísað til ríkisstjórnarinnar. Vissulega varða framkvæmdir í flugmálum og fjárveitingar til þeirra afar miklu um aðstöðuna til þess að bæta þjónustu við farþega í innanlandsflugi en það er þó ekki allt. Það er ýmislegt fleira sem því tengist. Í þeirri tillögu sem ég flutti og var að nefna hér var fjallað um samgöngurnar við flugvellina og þjónustu af hálfu flugfélaganna við farþega á flugvöllunum og í sambandi við bókanir, upplýsingar og annað sem snertir undirbúning flugs af hálfu farþega. Í þessum efnum er ástandið langt frá því að vera með þeim hætti sem skyldi.

Það má sjálfsagt vísa í þá skoðanakönnun sem flugfélögin stóðu að, e.t.v. í samvinnu við Flugmálastjórn, og vikið er að hér í nál. sem fylgir þessu frv. Þar er greint frá niðurstöðum þessarar könnunar og þar kemur fram að um þriðjungur er miðlungi ánægður með þjónustu af hálfu flugfélaganna, telur hana í meðallagi eða lakari og nokkrir telja hana afar lélega. Og það er út af fyrir sig fróðlegt að líta á þær umsagnir eða það orðalag sem þarna fylgir um þessa niðurstöðu varðandi þjónustuna. Þetta er á bls. 39 í þessu þskj. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt könnun sem Flugmálastjórn lét gera meðal farþega í innanlandsflugi þótti 8,4% farþega þjónustan frábær og 60,4% fannst hún góð, 24,9% í meðallagi, 4,6% ábótavant og 1,7% léleg. Í könnuninni kom fram að húsmæður og tryggingaþegar eru ánægðastir með þjónustuna en leiðandi millihópar og starfsmenn hjá hinu opinbera óánægðastir.“

Fleira er sagt þarna um þessa könnun, m.a. að farþegar búsettir á Suðurlandi og Vesturlandi eru ánægðastir en farþegar búsettir á Norðurlandi vestra eru óánægðastir. Það kemur kannske ekki mjög á óvart að farþegar á Suðurlandi og Vesturlandi skuli ekki vera mjög óánægðir. Það reynir ekki svo ýkja mikið kannske á samgöngurnar innanlands í flugi við Vesturland og Suðurland, a.m.k. ekki í sama mæli og við aðra landshluta. (Gripið fram í: Sjötíu þúsund farþegar á ári.) Að sjálfsögðu Vestmannaeyjar varðandi Suðurlandið, það er rétt, hv. þm. Vestmannaeyjar eru í þessum hópi auðvitað varðandi Suðurlandið.

Ég tel mig þekkja þessi mál af langri reynslu og ég get fullyrt að það hefur verið viss viðleitni hjá t.d. Flugleiðum að bæta ákveðna þætti sinnar þjónustu og það metur maður að verða var við það. Það er samt langt frá því að hún sé í því horfi sem skyldi og ma sjálfsagt mörgu um kenna. Ég tel það ekki við hæfi að í rekstrarleyfum þeirra félaga sem fá flugrekstrarleyfi miðað við ákveðnar flugleiðir skuli ekki vera teknar inn skilgreindar kröfur um þjónustu við viðskiptavini. Í þeim leyfum sem ég fór yfir á sínum tíma fyrir tveimur árum var nánast ekki að finna orð um þetta efni af hálfu ráðuneytisins sem úthlutar þessum flugrekstrarleyfum. Það finnst mér ekki við hæfi, ég tel að það þurfi sannarlega endurskoðunar við. En þetta er eins og víðar að af hálfu hins opinbera er ekki litið á þjónustuþáttinn og kröfur sem eðlilegt er að gera til aðila sem þeirra sem fá þarna einokun varðandi þjónustuna, varðandi starfsemina, að tryggja það og einnig eftirlit með því að við það sé staðið. Þetta snertir einnig auðvitað sérleyfin á langferðaleiðum þar sem þyrfti að fylgjast mun betur með og er þáttur í ferð fjölmargra sem þurfa að nota flugið. Ég tel sem sagt að þarna sé um þátt að ræða sem þurfi að taka á í sambandi við þessi mál og leyfi mér því, herra forseti, að nefna það með sérstakri tilvísan til tillögu sem ég flutti og vísað var til ríkisstjórnarinnar með vísan til þess máls sem hér er til umræðu og undirbúnings þar að lútandi.

Kostnaður við flugið, gjaldið sem við greiðum fyrir flug hér í innanlandsfluginu er mjög hátt. Ég skal ekki leggja mælikvarða á það miðað við það sem gerist annars staðar. Það eru kannske óvíða sambærilegar aðstæður til að vísa til. En það er hátt gjald þegar menn þurfa, t.d. af Austurlandi, að greiða 7342 kr. fyrir flug fram og til baka við Egilsstaði og síðan þurfa þeir sem þurfa að taka sérleyfi í tengslum við flugið að bæta við kannske 1000 kr. eða rösklega það til þess að allt sé talið í þessum efnum, þannig að fargjaldið er komið upp í um 8500 kr. eða nálægt því til þess að fara eina ferð til höfuðstaðarins. Þetta er auðvitað gífurlegur tollur í rauninni sem menn eru þarna að gjalda, bæði fyrirtæki sem þurfa að leita eftir fyrirgreiðslu hér í höfuðborginni sem og einstaklingar sem þurfa nauðsynleg erindi að rækja hér í höfuðstaðnum, fyrir utan annað. Það er því full ástæða til þess að einnig sé fylgst með þessum þætti, hvort þessi gjaldtaka sé eðlileg og dreifingin á kostnaði, miðað við annars vegar innanlandsflugið og hins vegar utanlandsflugið, og ég held að nokkuð skorti á það að með þessum málum sé fylgst svo sem vert væri. Ég hef þó ekki kannað það nýlega þannig að ég vil ekki vera með neinar fullyrðingar í því efni en ég tel að þennan þátt þurfi einnig að skoða í sambandi við flugmálin og flugreksturinn, mjög vandlega, þar sem hér er um stórar upphæðir að ræða fyrir það fólk sem öðrum fremur þarf á flugsamgöngunum að halda. Alveg nýlega hefur flugið verið hækkað, þ.e. fargjöld í innanlandsflugi verið hækkuð um 10%, þannig að þar er um umtalsverða og tilfinnanlega hækkun vissulega að ræða í sambandi við flugfargjöldin.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þá forgöngu sem hann hefur haft í sambandi við undirbúning þessa máls og framlagningu og ég mun stuðla að því fyrir mitt leyti að þetta mál fái jákvæða afgreiðslu en taldi ástæðu til að nefna mikilsverða þætti sem tengjast fluginu alveg sérstaklega innanlands.