03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3607 í B-deild Alþingistíðinda. (3209)

350. mál, öryrkjabifreiðir

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 620 hef ég leyft mér ásamt hv. 3. þm. Vestf., Karvel Pálmasyni, að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. fjmrh.:

„Hvernig verður komið til móts við þá öryrkja er keyptu bifreiðir á árinu 1986 og nutu þá mjög skertrar fyrirgreiðslu?"

Allt til ársins 1986 nutu öryrkjar umtalsverðrar eftirgjafar af tollum og aðflutningsgjöldum af bifreiðum og höfðu þannig verulegt forskot fram yfir hinn venjulega bifreiðakaupanda. Með almennu verðlækkuninni á bifreiðum í fyrra, sem átti að vera jöfn kjarabót öllum til handa samkvæmt samningum á vinnumarkaðnum, hvarf þetta forskot nær alveg. Á það var þá knúið að með öðrum hætti yrði það forskot tryggt sem gilt hefði áður, réttarbót til öryrkja um áraraðir hyrfi ekki með öllu.

Hæstv. fjmrh. vísaði til skorts á lagaheimildum en tók því ekki ólíklega að skoða aðrar leiðir, en ekkert gerðist. Í kjölfarið fluttum við fyrirspyrjendur tillögu hér á þingi um nauðsynlega leiðréttingu á þessum málum. Till. var endurflutt nú í haust en enn bólaði ekki á neinu. Hins vegar bar svo við á dögunum að skyndilega var samþykkt leiðrétting á þessum málum á ríkisstjórnarfundi og ber að fagna því. Enn vantar að vísu að greina nákvæmlega frá hvað um verður að ræða og hversu með skuli farið. Hitt liggur ljóst fyrir að þeir sem nutu nær engrar umframfyrirgreiðslu í fyrra búa hér við mikið misrétti, bæði miðað við fyrri tíð og eins hvað varðar það sem nú er ráðgert. Því er eðlilegt að um það sé spurt hversu með mál þeirra skuli farið því að ég trúi vart öðru en hæstv. ráðh. vilji beita sér fyrir leiðréttingu þeim til handa, ekki síst miðað við orð hans hér í fyrra.