03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3611 í B-deild Alþingistíðinda. (3215)

357. mál, íslenskt efni sjónvarpsstöðva í einkaeign

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það er aðgætandi að í lögum er engin heimild til að skylda eigendur sjónvarpsstöðva til þess að hafa ákveðið hlutfall af íslensku efni í heildardagskrá sjónvarpsstöðvanna, né heldur eru neinar heimildir sem hægt er að skylda eigendur útvarpsstöðva með til að nota ákveðið hlutfall af því fé sem notað er til dagskrárgerðar til að framleiða íslenskt dagskrárefni. Hv. þm. minnast þess að við afgreiðslu laganna frá 1985 var ákvæði um að settur skyldi á fót Menningarsjóður útvarpsstöðva og til hans renna 10% af auglýsingatekjum stöðvanna. Honum er skipuð sérstök stjórn og hún skal deila úr þessum menningarsjóði til sjónvarps- og útvarpsstöðva til framleiðslu á innlendu dagskrárefni.

Nú vil ég taka það fram að ég er gagnrýninn á þessa aðferð. Ég hef skipað endurskoðunarnefnd á útvarpslögin, þau gilda til áramóta 1988, og sú endurskoðunarnefnd er að hefja störf. Ég mun leggja til við þá endurskoðunarnefnd að þessi sjóður verði lagður niður. En um leið leita eftir því við stöðvarnar að þær geri samning við menntmrn. um það að verja eigi minna fé en 10% af auglýsingatekjum sínum til þess arna, til innlendrar dagskrárgerðar. Ég sé enga hæfu í því að hafa sjóð sem greitt er í með þessum hætti og sérstaka stjórn sem er að deila út úr honum. Þótt vel kynni að fara úr hendi fer áreiðanlega best á því að stöðvarnar sjálfar ráði yfir þessu fjármagni, en þó með þessum hætti sem ég hef hér greint frá. Það er minn vilji að um leið og afnumin yrðu ákvæðin um starfsemi menningarsjóðsins mundi nást samningur við stöðvarnar um það að þær verðu eigi minna fjármagni til þess arna heldur en þar um ræðir.

Ég vil aðeins geta þess í þessu sambandi að í reglugerð um útvarp samkvæmt tímabundnum leyfum er sjónvarpsstöðvum gert skylt að þýða erlent efni og er tilgangurinn með því auðsær, með því á að standa vörð um íslenska tungu. Þetta þykir mörgum hart undir að búa og ákvæðin ströng, en frá þeim verður í engu falli vikið.

Ég bendi einnig á í sambandi við þessa fsp. að fjármagn til Kvikmyndasjóðs hefur verið stóraukið og tilgangurinn með því er að efla innlenda kvikmyndagerð. Við þurfum að gera sjónvarpsstöðvunum fært að stunda slíka dagskrárgerð og við ætlum að gera Kvikmyndasjóði fært að styrkja framtaksmenn á sviði kvikmyndagerðar til að stórauka innlenda kvikmyndagerð vegna þess að fátt er sjálfsagt mikilvægara á dögum myndarinnar en að nýta þennan fjölmiðil einmitt til þeirra menningarstarfa sem við þurfum að leggja áherslu á, hvort heldur myndin verður notuð til eflingar tungunni eða til þess að leiða ungt fólk að bókmenntunum okkar o.s.frv.

Ég held að það muni koma í ljós að ýmislegt má betur fara í þessum annars framúrstefnulögum sem útvarpslögin voru frá 1985, en ég tek það mjög skýrt fram svo að ekki verði misskilið að ég hef ekki í hyggju að bera fram einhverjar breytingar á þessum lögum þann veg t.d. að þessi menningarsjóður yrði afnuminn fyrr en þá með endurskoðun laganna innan tveggja ára. Þau verða því framkvæmd þann tíma nema eitthvað nýrra bregði við og stoðar varla annað þess vegna en að mæta því að standa skil á því gjaldi sem til þessa sjóðs rennur.