03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3612 í B-deild Alþingistíðinda. (3216)

357. mál, íslenskt efni sjónvarpsstöðva í einkaeign

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir hans svör við spurningu minni. Ég fagna því, sem kom fram í máli hans, að það hefur verið veitt auknu fé til innlendrar kvikmyndagerðar. Það er mikil þörf á því. En mig langar til að víkja áfram að þessu erlenda efni því að ég var að glugga í kannanir varðandi það þegar ég sá hversu háar hlutfallstölurnar af erlendu efni eru á Stöð 2. Þar kemst það upp í rúm 96% á einum degi. Kannanir í nágrannalöndum okkar sýna að erlent efni í sjónvarpi, t.d. á Norðurlöndum, er yfirleitt innan við 40% af dagskránni og í Bandaríkjunum er það aðeins um 1-2%. Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna lét fyrir nokkrum árum kanna hlutfall erlends efnis í sjónvarpsstöðvum víða um heim og það kom í ljós að hvergi er ástandið eins og á Stöð 2, hvergi er erlenda efnið jafnmikið. Þau ríki sem komast næst Stöð 2 eru Guatemala með 84% og Singapore þar sem 78% sjónvarpsefnis er erlent. Ég vona að þarna verði einhver breyting á.