03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3612 í B-deild Alþingistíðinda. (3217)

370. mál, einangrun húsa

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 664 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. félmrh.:

„Hvað líður framkvæmd ályktunar Alþingis um einangrun húsa frá 21. maí 1981?"

Það er óþarfi að vera að rekja tilurð þessarar ályktunar Alþingis og tillögunnar sem varð til þess að þessi ályktun var samþykkt. Ákveðinn byggingameistari hér í bæ hafði mjög beitt sér fyrir úrbótum á þessu sviði með nýrri aðferð sem mjög kom til umræðu þegar tillagan var upphaflega flutt. Ég held að allir hafi verið sammála um að það hafi verið þörf á nýjum vinnubrögðum, bættum aðferðum og betra eftirliti, það færi ekkert á milli mála. Við höfum núna nýleg dæmi enn einu sinni um galla í byggingum og gagnkvæmar ásakanir í kjölfarið kalla á að spurt sé um framkvæmd þeirrar ályktunar kannske alveg sérstaklega sem hér er vitnað til og þeirra umræðna sem þá fóru fram. En ályktunin var endanlega svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram rækilega könnun varðandi einangrun útveggja húsa, einangrunaraðferðir, kosti þeirra og galla. Skulu Húsnæðisstofnun ríkisins og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins annast könnun þessa og birta niðurstöður sínar sem fyrst.“

Í framhaldi af þessu finnst mér rétt að spyrja nánar um framkvæmd þessarar ályktunar, hvað hafi gerst hjá þessum ágætu stofnunum, því að hér er mál sem snertir húsbyggjendur alla mjög verulega og ævinlega er verið að koma inn á með einum eða öðrum hætti úti í þjóðfélaginu hvernig betur megi að standa.