03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3616 í B-deild Alþingistíðinda. (3221)

372. mál, geðheilbrigðismál

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 670 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. um geðheilbrigðismál:

„Hvað líður ráðstöfunum til úrbóta í geðheilbrigðismálum, sbr. ályktun Alþingis frá 7. maí 1981, og hver eru brýnustu verkefni í geðheilbrigðismálum að mati ráðuneytisins?"

Geðheilbrigðismál eru þýðingarmikill þáttur heilsugæslu okkar og máske vandmeðfarnari og um margt erfiðari viðfangs en flestir aðrir. Á þingunum 1979-1980 og 1980-1981 fluttum við þm. allra flokka viðamikla og vel undirbúna tillögu að beiðni félagsskaparins Geðhjálpar þar sem bæði var að nefndarskipun vikið og ekki síður talin upp ákveðin áhersluatriði sem hrinda þyrfti í framkvæmd í ákveðinni forgangsröð. Ég ætla ekki að fara að rekja það sem þar sagði, en niðurstaða Alþingis í þessu efni var þó sú að í þál. sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að taka nú þegar til gagngerðrar endurskoðunar öll geðheilbrigðismál hér á landi.“

Ég veit að í kjölfarið hefur verið ýmislegt gert hvað einstaka þætti varðar og eflaust er því haldið áfram. Ég veit að nefnd skilaði a.m.k. áfangaálitum. Um endanleg starfslok veit ég ekki eða niðurstöður, en síðast þegar ég spurði hæstv. ráðh. voru starfslokin á næsta leiti og niðurstaðna að vænta. Ég hlýt nú að ganga eftir því hverjar málalyktir hafi orðið og ekki síður kannske vegna þess að hæstv. ráðh. hefur áhuga fyrir geðheilbrigðismálum og hefur sýnt það og að vita á hvern hátt hæstv. ráðh. telji að best verði sinnt þeim verkefnum sem nú teljast brýnust eftir að ýmislegt af því sem í till. var talið upp á sínum tíma hefur þó komist í framkvæmd. Því er um þetta spurt nú.