03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3616 í B-deild Alþingistíðinda. (3222)

372. mál, geðheilbrigðismál

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. er svohljóðandi: „Hvað líður ráðstöfunum til úrbóta í geðheilbrigðismálum, sbr. ályktun Alþingis frá 7. maí 1981?" Þetta er fyrri hluti fsp.

Vegna þessarar fsp. er rétt að rekja stuttlega fyrirkomulag geðheilbrigðismála í landinu nú. Það eru starfandi þrjár geðdeildir í landinu, við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, við Borgarspítalann í Reykjavík og við Landspítalann. Síðast nefnda deildin er stærst og skiptist í fjórar skorir, tvær sem sinna almennum geðlækningum, eina sem sinnir barna- og unglingageðlækningum og eina sem sinnir áfengis- og vímuefnasjúklingum.

Starfsemi deildanna skiptist þannig að deildin á Akureyri sinnir fyrst og fremst Akureyri, Eyjafirði og Norðurlandi eystra, en að einhverju leyti öðrum byggðum norðan og austan heiða. Geðdeild Borgarspítalans og hinar almennu skorir geðdeilda Landspítalans eru svipaðar, bæði að stærð og rúmafjölda, og skipta þær á milli sín nokkurn veginn þeirri starfsemi sem deildin á Akureyri ekki sinnir.

Geðdeild Landspítalans hefur sérhæfða þjónustu fyrir börn og unglinga fyrir landið allt og geðdeild áfengismála hefur sinnt sérhæfðri meðferð innan þessa málaflokks og virðast verkefni næg þótt tilkoma nýrra meðferðarstofnana á því sviði hafi verið mjög veruleg.

Á landinu öllu starfa nú 38 geðlæknar, þar af fimm barnageðlæknar, og 29 þessara lækna hafa sitt aðalstarf við geðdeildirnar. Auk þessa starfa við geðdeildirnar 22 aðstoðarlæknar, 18 sálfræðingar, 20 félagsráðgjafar, 15 iðjuþjálfar og heimildir eru fyrir 143 hjúkrunarfræðingum auk sjúkraliða og annars starfsliðs. Það ætti ekki að vera þörf á að nefna það hér að þarna eru mál sem þurfa verulegrar skoðunar við til þess að gera þau störf meira aðlaðandi fyrir hjúkrunarfræðinga og stoðstéttirnar.

Á síðustu árum hafa orðið miklar framfarir í þjónustu við geðsjúka hér á landi sem víðast annars staðar og ég tel að hún sé nú eins og best gerist í heiminum. Þróunin hér á landi hefur verið í samræmi við það sem gerist í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum, þ.e. hún hefur miðast við að draga úr einangrun hinna geðsjúku, tengja meðferð þeirra og annarra sjúklinga með því að tengja geðdeildir almennum sjúkrahúsum og með því að sjá þeim sem þurfa á langtímaaðstoð eða umönnun að halda fyrir möguleikum öðrum en þeim sem geðsjúkrahúsin sáu ein um áður.

Eftir að byggingu geðdeildar Landspítalans lauk var kappkostað að breyta húsnæði gamla Kleppsspítalans þannig að hægt yrði að veita þar sambærilega þjónustu og í nýju geðdeildinni og er þeim breytingum nú að mestu lokið.

Þá hefur á allra síðustu árum aukist mjög framboð á meðferð fyrir geðsjúka á einkastofum geðlækna, sálfræðinga og félagsráðgjafa og hefur þetta allt leitt til þess að starfsemi göngudeilda stofnana hefur nokkuð dregist saman hin síðustu tvö ár.

Í lok ársins 1982 hófst skipulögð bráðaþjónusta á vegum geðdeildanna í Reykjavík þannig að geðdeild Landspítalans sér um 60% tímans og geðdeild Borgarspítalans um 40%.

Alllengi hefur skort á að hægt væri að sinna greiningu og meðferð á geðtruflun unglinga, en í lok ársins 1985 var notuð heimild Alþingis til kaupa á húsnæði borgarinnar við Dalbraut til að reka þar unglingageðdeild. Húsið var afhent síðari hluta árs 1986 og vænta má þess að húsbreytingar þar verði komnar í lag á þessu vori eins og þarf til að unglingageðdeild geti hafið þar starfsemi sína.

Spurningunni um hver séu brýnustu verkefni í geðheilbrigðismálum að mati ráðuneytisins má svara með því sérstaklega að nefna tvö atriði. Í fyrsta lagi er það að geðsjúkum föngum og afbrotamönnum þyrfti að sinna betur í betri aðstöðu. Það er skoðun þeirra sem um þessi mál hafa fjallað að meðferð þessara manna skuli vera á vegum dómsmálayfirvalda og innan ramma fangelsanna á meðan þeir eru í fangavist eða dæmdir til fangavistar og það er eðlilegt viðhorf því að þeir menn sem um ræðir hafa verið dæmdir til gæslu vegna afbrota og vegna þess að dómarar telja þá oft og tíðum hættulega fyrir samfélagið. A.m.k. er það svo um suma þeirra. Þess vegna er það að gæsla af því tagi samrýmist ekki meðferð annarra sjúklinga sem vistast hafa á sjúkrahúsi einungis vegna eigin kvilla og eru frjálsir ferða sinna og geta útskrifast þegar þeir vilja og meðferð lýkur. Þess vegna er ekki eðlilegt að vista afbrotamenn þar fremur en meðal annarra í þjóðfélaginu. Þess vegna þarf að bæta aðstöðu fyrir þessa sjúklinga innan fangelsanna.

Herra forseti. Ég vil ljúka máli mínu með örfáum setningum. Nefndin, sem hv. þm. spurði um, hefur lokið störfum og tillögur hennar hafa verið til umsagnar og eins og hann nefndi sjálfur hefur margt af þeim tillögum fyrir löngu komist í framkvæmd en aðrar ekki. Ég vil sérstaklega nefna að mikil nauðsyn er á því að koma á fleiri meðferðarheimilum fyrir börn og unglinga að lokinni sjúkrahúsameðferð til að venja þau aftur hinu almenna starfandi lífi og þörf er á að skipuleggja tengsl við venjuleg heimili sem tilbúin væru að veita þessum einstaklingum varanlegan samastað og heimilisumönnun, einstaklingum úr þessum hópi sem ekki eiga að slíku að hverfa, en einmitt þetta veldur endurteknum vanda.