03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3620 í B-deild Alþingistíðinda. (3227)

373. mál, stefnumörkun í áfengismálum

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég hlýt að þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. ákveðin orð áðan og kem þá að öðru áhugamáli sem ég hef haft hér á Alþingi þann tíma sem ég hef setið því á þskj. 671 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

„Hvað hyggst ráðherra gera til að hrinda í framkvæmd tillögum nefndar sem fjallaði um mörkun opinberrar stefnu í áfengismálum og skilaði áliti í janúarbyrjun s.l.?"

Á Alþingi hefur nú verið dreift af hálfu heilbr.- og trmrn. skýrslu nefndar þeirrar sem hér um ræðir og fagna ég því að henni hefur verið dreift hér. Hún er öllum orðin kunn sjálfsagt að nokkru af yfirlestri á þessum þó annadögum þingsins. Tillögur þessarar nefndar hafa sem sagt fengið ákveðna kynningu hér. Eins hafa fjölmiðlar gert tillögunum nokkur skil, en ekki eru þau þó mikil, og betur má ef duga skal því ekki skortir andróðurinn. Ég man eftir því að þegar þessi nefnd skilaði áfangaáliti á sínum tíma var brugðist hart við í fjölmiðlunum, ekki til kynningar í raun og veru á því áliti sem nefndin hafði þá sent frá sér heldur miklu frekar til að leyfa hinum og þessum aðilum úti í bæ að segja álit sitt á því sem nefndin hafði lagt til. Voru það aðallega þeir sem áttu ákveðinna hagsmuna að gæta í því efni og var ekki til fyrirmyndar af hálfu fjölmiðla hvernig að því var staðið.

En eftir er reyndar það sem máli skiptir því nefndin átti að gera tillögur til stjórnvalda um hvað þeim bæri helst að gera, eins og kemur fram í þessari skýrslu, til að hrinda mætti í framkvæmd ákveðinni stefnumótun, stefnumótun sem er í samræmi að sjálfsögðu við markmið og stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hvað þennan viðkvæma og vandmeðfarna málaflokk snertir. Ég bendi á það varðandi þetta að í lok þeirrar þál. sem ég vitna hér til og var flutt af hálfu Alþfl. á sínum tíma, mig minnir öllum þm. Alþfl., segir í lok till. frá 7. maí 1981, með leyfi hæstv. forseta:

„Tillögur þessar og grg. skal senda Alþingi í sérstakri skýrslu ásamt tillögum ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á sviði löggjafar og stjórnsýslu.“

Það er orðið framorðið þessa kjörtímabils eins og allir vita og kannske ekki við því að búast að miklar tillögur séu uppi í kjölfar skýrslu sem kom í janúar s.l., en áfangaskýrslur hafa komið áður og því er ekki nema eðlilegt að spurt sé hvað hæstv. ráðh. eða hæstv. ríkisstjórn hyggist gera til að koma í framkvæmd einhverjum þeim tillögum, a.m.k. þeim brýnustu, sem þessi nefnd hefur skilað frá sér.