28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Frsm. minni hl. utanrmn. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs voru orð hv. 4. þm. Norðurl. v. sem mætti skilja svo að ég hafi verið með aðfinnslur í sambandi við utanrrn. og starfsmenn þess að því er snertir störf utanrmn. Svo var ekki. Ég tel, og við höfum kannske nokkuð annan skilning þar, hv. formaður utanrmn. og ég, á hlutverki þingnefnda almennt, þar á meðal utanrmn., að þingnefndir þurfi að sýna sjálfstæði í vinnubrögðum, þurfi á sínum vegum og óháð framkvæmdavaldinu, sem undirbýr og leggur mál fyrir, að fara ofan í saumana á þeim hlutum sem eru til umræðu og umfjöllunar hverju sinni. Til þess hefði ég talið ástæðu í ýmsum þáttum varðandi þetta mál. Ég var hins vegar ekki að þessu sinni og er yfirleitt ekki að leggja stein í götu framgangs mála sem sýnilegur meiri hluti er fyrir hér á Alþingi með því að ætlast til þess að menn leggi sig í framkróka til þess að kanna og fara í saumana á hlutum. Til þess þarf að vera sameinaður vilji, a.m.k. meirihlutavilji, í viðkomandi nefndum til að slík vinnubrögð séu viðhöfð.

Ég hefði talið að utanrmn. þingsins þyrfti á eigin vegum að athuga marga þætti í sambandi við framkvæmd utanríkisstefnunnar og mótun utanríkisstefnunnar umfram það sem gert er því að sannast sagna er það í mjög takmörkuðum mæli og sá þáttur, sem lýtur að starfi nefndarinnar og varðar ráðgjöf fyrir ríkisstjórn, er hinn yfirgnæfandi þáttur í meðferð mála hjá þessari þingnefnd og það tel ég að þyrfti að breytast með góðri samvinnu allra aðila. Þar fyrir utan tekur nefndin á málum sem þingið sendir til hennar og ég er alls ekkert að lasta störf utanríkismálanefndar, enda á ég þar sæti. Ég er aðeins að benda á þennan áherslumun og kannske dálítið annað sjónarhorn sem við höfum á starfi þingnefnda, hv. 4. þm. Norðurl. v. og ég