03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3622 í B-deild Alþingistíðinda. (3230)

373. mál, stefnumörkun í áfengismálum

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin í sambandi við þetta. Ég dáist alveg sérstaklega að hv. 10. landsk. þm. að hún skuli hafa á svo stuttum tíma frá því að þessi skýrsla kom í hendur okkar verið búin að lesa hana svo vel í gegn og hefur greinilega notað vel tímann svo að ekki sé meira sagt til að komast að þeirri niðurstöðu að í tillögunum sé ekkert nema vitleysa, en það hlýtur að hafa kostað vandlegan lestur að komast að því því að tillögurnar eru með ýmsum hætti og margt sjálfsagt sem menn geta ekki verið sammála um, annað aftur sem er greinilegt að menn hljóta í heild sinni að taka undir.

Tillögurnar um hvernig eigi að minnka neysluna eru það sem menn sjálfsagt deila um, hvernig eigi að draga úr heildarneyslu. Hitt er svo annað mál að þær tillögur eru ekki vitlausari en svo að fjölmargar þjóðir hafa notað þessar tillögur með góðum árangri og sumar tillögurnar sé ég ekki betur en séu t.d. á svipaðan hátt og þær sem félagi Gorbatsjoff er að framkvæma austur í Rússíá. Ég hef á honum mikla trú í mörgum greinum, m.a. í þessum málum ekki síður en ýmsu öðru. Mér sýnist að nefndin hafi um margt farið í smiðju til þess ágæta manns um markmið og leiðir að því að minnka heildarneysluna og hef ekkert nema gott um það að segja þar sem hæ t er að nýta góða hluti frá fjarlægum löndum.

Ég vil að hæstv. ráðh. misskilji það ekki gagnvart kynningu á þessum tillögum nú að ég hafi verið að vanmeta þátt fjölmiðla þar. Ég held einmitt að fjölmiðlar hafi gert þetta vel nú, en með áfangaálitið sem lagt var fram á sínum tíma var mjög misfarið af hálfu fjölmiða. Ég hygg kannske að það séu leifar af því sem kom fram í þeim ummælum sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir viðhafði áðan, þeim umræðum sem þá urðu um þá áfangaskýrslu sem kom fram og var harðlega gagnrýnd af ýmsum þeim sem eiga mestra hagsmuna að gæta varðandi áfengissölu.

Það markmið sem hefur verið sett um heilbrigði allra árið 2000 hlýtur auðvitað að kalla á skjót og virk viðbrögð stjórnvalda hvar sem er, þeirra sem taka þátt í því eða ættu að taka þátt í því að framkvæma það átak og koma því í verk. Ég bendi á að í ályktun nokkurra lækna, opnu bréfi til ríkisstjórnar og alþm., nokkurra mjög virtra lækna varðandi heilbrigði fyrir alla árið 2000, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í umræðum um ólögleg vímuefni gleymist allt of oft að leggja áherslu á að áfengisnotkun er jafnan samfara notkun þeirra. Áfengisneysla er og í flestum tilvikum undanfari annarrar vímuefnanotkunar.“

Þetta segir í bréfi þessara virtu lækna og ég hlýt að vekja sérstaka athygli á því vegna þess að hæstv. ráðh. kom inn á að önnur nefnd væri starfandi á vegum ríkisstjórnarinnar sem ætti sérstaklega að fjalla um ólögleg fíkniefni.

Ég vona að hæstv. ríkisstjórn og sú næsta sem á eftir henni kemur vinni að þessum málum þannig að við getum orðið hlutgeng í því að taka þátt í átaki þjóðanna um heilbrigði fyrir alla árið 2000 því það er það sem skiptir öllu máli varðandi þessi mál og varðandi hamingju þessarar þjóðar.