03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3623 í B-deild Alþingistíðinda. (3231)

374. mál, fangelsismál

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 672 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. dómsmrh. um fangelsismál:

„Hvað líður störfum nefndar um úrbætur í fangelsismálum og hver eru áform ráðuneytisins hvað varðar þennan málaflokk?"

Ég vil aðeins segja um þetta, þó að við höfum fengið í raun og veru svarið á okkar borð nú þegar, að fangelsismál hafa ekki oft komið hér til umræðu á Alþingi þau 16 ár sem ég hef verið hér. Á dögunum var þó annars vegar svarað fsp. frá hv. þm. Kristínu S. Kvaran um mikilvæga þætti þessara mála og eins var samþykkt till. frá sama hv. þm. um athyglisverða nýskipan sem vissulega er ágætt að hér hefur verið samþykkt og væntanlega boðar ákveðna breytingu í sambandi við þann þátt mála sem hún lýtur að.

Alþingi gerði hins vegar á sínum tíma samþykkt um gagngera endurskoðun á fangelsismálum og við sjáum nú afraksturinn af því þó að mér hafi ekki gefist tími til að lesa það því að þetta var að koma á borð okkar áðan. Því má kannske segja að það sé óþarft að fara nánar út í þessi mál hér. Ég veit að það þarf svo ótalmargt að gera sem vafalaust kemur fram í frv. sem er byggt á nefndarálitinu. Kannske greinir hæstv. ráðh. okkur frá útlínum í þessu, en annars kemur þetta væntanlega til umræðu og kynningar á næstu dögum þó skammt lifi þings.