03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3625 í B-deild Alþingistíðinda. (3233)

374. mál, fangelsismál

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Ég þakka honum sérstaklega fyrir að hafa lagt fram frv. það til l., sem hér er á borðum þm., um fangelsi og fangavist. Ég vona svo sannarlega að þar séu þau leiðarljós sem við flm. lögðum á sínum tíma til að helst yrði farið eftir.

Vitanlega tek ég undir það með hæstv. ráðh. að fyrirbyggjandi starfi í þessum efnum, hvort sem það er í uppeldismálum eða ýmsu öðru í þjóðfélagsgerðinni, er vitanlega nauðsynlegt að huga sem best að. Inn í þetta kemur óhugnanlega sú dapra staðreynd að áfengi og önnur fíkniefni eru í yfirgnæfandi hluta þessara tilfella með í för og beinir orsakavaldar á einn og annan veg og því ekki að ófyrirsynju að þessar tvær fsp. voru ræddar hvor á eftir annarri. Ég tek undir með hæstv. ráðh. að það er virkilega þörf á því að taka á varðandi ákveðna stefnumörkun stjórnvalda í bæði áfengismálum og eins öðrum fíkniefnamálum eins og meiningin er að gera og ég vona að komist í framkvæmd.

Það kemur inn í öll þessi mál, sem var rakið rækilega hér í vetur í till. hv. þm. Kristínar S. Kvaran, fjármagnsþátturinn varðandi aðbúnað og aðstöðu alla, en ekki síður þarf að hinum mannlega þætti að huga, að þeirri eftirfylgd og aðstoð að afplánun lokinni sem við vitum að full þörf er á. Þar er kannske komið að kviku málsins, svo og því hvort fangelsi okkar geti staðið undir betrunarnafninu með einhverjum hætti. Það er samfélagsleg nauðsyn að hér sé vel að unnið og einskis látið ófreistað að veita betri úrlausn og varanlega til heilla fyrir viðkomandi sem hafa lent í þeirri ógæfu að þurfa að taka út sinn dóm með þeim hætti sem við þekkjum allt of mörg dæmi um.