03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3625 í B-deild Alþingistíðinda. (3234)

289. mál, landgræðslu- og landverndaráætlun 1987-1991

Frsm. fjvn. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur fjallað um till. til þál. um landgræðslu- og landverndaráætlun fyrir árin 1987-1991 á þskj. 517. Till. þessi er sú hin þriðja í röðinni um sambærilegt efni. Hin fyrsta þeirra var afgreidd á Alþingi á hátíðarfundi á Þingvöllum 1974 og það fé sem þá var ákveðið til landgræðslu- og landverndarverkefna var í einu orði kallað „þjóðargjöfin“.

Hinn 20. apríl 1982 samþykkti Alþingi nýja landgræðslu- og landverndaráætlun fyrir árin 1982-1986 og sú till. sem hér er til síðari umræðu og flutt er af hæstv. ríkisstjórn er því hin þriðja í röðinni um sambærilegt efni og tekur við af þeirri áætlun sem samþykkt var 1982.

Fjvn. kallaði á sinn fund forstöðumenn þeirra stofnana sem mest koma að því að annast framkvæmd þessa máls eða hafa gert á undanförnum árum, þ.e. Svein Runólfsson landgræðslustjóra, en með honum var fulltrúi landgræðslustjóra Stefán Á. Sigfússon. Einnig komu á fund nefndarinnar Sigurður Blöndal skógræktarstjóri og Þorsteinn Tómasson, forstjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.

Nefndin leggur til einróma að till. þessi verði samþykkt með smávægilegum orðalagsbreytingum sem fluttar eru brtt. um á þskj. 687. Það er að í 1. tölul. tillgr. í a-lið standi orðin: verndun birkiskóga í stað „nýting birkiskóga“ og í 2. tölul. b-liðar í tillgr. standi orðin: nýting beitilanda en ekki „verndun beitilanda“. Svo virðist sem þessi orð hafi víxlast í prentun þskj. og eru því fluttar hér brtt.

Eins og áður sagði er nefndin sammála um að leggja til að till. verði samþykkt með þessum breytingum. Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru Guðmundur Bjarnason og Karvel Pálmason.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.